07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg varð að ganga út, og ef til vill þessvegna hefir skotist fram hjá mjer, hvernig hæstv. ráðh. (MG) hefir snúist við dagskránni, og skal jeg því láta þá hlið málsins afskiftalausa í bráð. En jeg get ekki látið hjá líða að taka til máls út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann er fullur af tortrygni og ætlar að greiða atkv. á móti frv. af tómri tortrygni. Hann sagði, að ef frv. hefði komið fram á venjulegan hátt, þá mundi hann hafa skoðað hug sinn vandlega um málið. En nú setur hann það beint í samband við till. um toll á aðfluttu heyi, þó að hann viti, að hvorugur þeirra manna, sem fluttu þá till., um verndartoll á heyi, sje flm. þessa frv. Hitt hefi jeg tekið hjer fram áður, að ástæðan til þess, að jeg flutti þetta frv. hjer, var sú, að jeg las um það í dönsku blaði, að þessi sýki, gin- og klaufasýki, mundi að öllum líkindum hafa borist með heyi í eitt vist hjerað í Danmörku, og síðar var hert á þessu og það talið alveg víst, að hún hefði borist í hjeraðið á þennan hátt. Nú er það kunnugt, að þessar bakteríur eru mjög lífseigar, ef lífsskilyrði eru góð, svo að hv. þm. (JakM) þarf ekki að þessu leyti að vera mjög tortrygginn. Hann þarf því síður að vera tortrygginn gagnvart þessu máli, ef svo er sem hann segir, að hey sje aðallega flutt inn frá Noregi. Því verði lögin samþ., þá verður innflutningi þessum hagað eftir dýralæknis ráði, og mun þá ekkert verða því til fyrirstöðu, að hey verði flutt hingað frá Noregi, af því að gin- og klaufasýkin er þar ekki. Hitt veit hv. þm. (JakM), að hey hefir verið flutt inn hingað frá Skotlandi, hvað eftir annað, en það liggur eins beint við að flytja hey þaðan hingað eins og frá Noregi. En í Skotlandi er þessi sýki landlæg, eins og kunnugt er. Mjer finst því málið liggja þannig fyrir, að engin ástæða sje til þess að tortryggja þá menn, sem að því standa. Þeir menn, sem óttast það, að þeir fái ekki nóg hey frá útlöndum á þennan hátt, mega vera vissir um það, að dýralæknir mun leggja til að leyfa innflutning á heyi frá Noregi. Hinsvegar mega þeir ekki lá það, þó að þeir, sem telja sig eiga að gæta hagsmuna bændanna, vilji sporna á móti því, að inn sje flutt hey frá Skotlandi, þar sem þessi sjúkdómur geisar. Því að hver sem hugsar um það stórkostlega tjón, sem af því gæti hlotist, ef sýkin bærist hingað, getur ekki verið lengi í vafa um það að slíku beri að sporna á móti af öllum mætti.

En sem sagt, ef hæstv. atvrh. sjer sjer fært að nota dagskrána með tilliti til laganna frá 1920, þá mun jeg greiða atkv. með henni, en annars mun jeg stuðla að því, að frv. nái fram að ganga.