16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

41. mál, vegalög Borgrnes og Eyjafjarðarbrautir

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg ætla mjer ekki að tala langt mál við 1. umr. þessa máls, enda get jeg að mestu leyti látið mjer nægja að vísa til greinargerðar þeirrar, sem frv. fylgir; meðfram vegna þess, að þegar vegalögin voru til umr. í þessari hv. deild í fyrra, þá flutti jeg brtt., sem fór í mjög líka átt og þetta frv., sem nú liggur fyrir, þó verð jeg að geta þess, að jeg verð að líta svo á, að á þingi 1923 hafi komið fram yfirlýstur þingvilji um það, að þá er vegalögin yrðu endurskoðuð, yrði viðhaldi flutningabrautanna ljett af sýslusjóðunum, en hann lagður á landsjóðinn. Þessu til stuðnings læt jeg mjer nægja að minna á orð þau, sem tilfærð eru í greinargerð frv. úr nál. samgmn. Ed. frá því ári. Í fyrra lagði svo hv. landsstjórn fyrir þingið frv. til vegalaga, samkv. þessum þingvilja, er kom fram árið áður, og var það frv. síðan samþ. af þinginu. Í þessum nýju vegalögum eru allar flutningabrautir landsins teknar upp í tölu þjóðbrauta, nema Eyjafjarðarbrautin og partur af braut í Borgarfirði. En jeg get ekki sjeð, að ástæða hafi verið til að skilja þessar tvær brautir eftir, frekar en aðrar, því ekki má berja því við, að þessar brautir komi ekki að almennum notum, heldur sjeu þær aðeins fyrir innanhjeraðsmenn, því slíkt mætti með sama rjetti segja um ýmsar þær brautir, sem teknar voru í tölu þjóðvega í fyrra. Eftir því, sem jeg þekki til staðhátta, sje jeg ekki, að t. d. brautin fram Skagafjörð komi meir þjóðinni í heild að notum en brautin fram Eyjafjörðinn.

Annað atriði, sem jeg líka benti á í fyrra, er það, að samkv. núgildandi vegalögum eru allar flutningabrautir afnumdar sem sjerstakur flokkur vega, en í sömu lögum er og ákveðið, að sýslurnar ráði því sjálfar, hvað þær telja til sýsluvega og hvað ekki. Nú hafa hlutaðeigandi sýslufjelög ekki enn að minsta kosti tekið þessar tvær brautir upp í tölu sýsluvega, og eru þær þessvegna, sem stendur, í rauninni enginn löglegur vegur. En með því að leggja þessar brautir í fyrstu fyrir ríkisfje, hefir löggjafarvaldið viðurkent, að þeirra þurfi með. Þingið getur ekki skipað sýslunum að gera þær að sýsluvegum. Því er mjög óviðfeldið og óviðkunnanlegt að skilja brautirnar eftir í slíku greinaleysi, eins og það lægi næst fyrir að eyðileggja þær með öllu.

Skal jeg nú ekki orðlengja um þetta frekar, enda tóku menn ekki illa brtt. mínum í fyrra, heldur virtist það helst standa gegn því, að þær næðu fram að ganga, að menn voru hræddir um, að lögin í heild yrðu ekki samþ. í hv. Ed., ef breytingar yrðu á þeim gerðar. Nú er ekki um slíkt að ræða, og vonast jeg því fastlega eftir, að hv. þd. og hv. samgmn., sem að líkindum fjallar um frv., taki því vel og verði nú fús til að bæta úr þessu misrjetti, sem Eyjafjarðarsýsla og þær sýslur, sem standa að Borgarfjarðarbrautinni, urðu fyrir í fyrra.

Vænti jeg þess, að málið fái umræðulítið að ganga til 2. umr., og legg jeg til, að því verði vísað til hv. samgöngumálanefndar.