16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

41. mál, vegalög Borgrnes og Eyjafjarðarbrautir

Hákon Kristófersson:

Jeg mun ekki fjölyrða um málið á þessu stigi þess. Aðeins vildi jeg geta þess, að mjer virðist hv. flm. (BSt) trauðla geta vitnað til yfirlýsts þingvilja með því að benda á nál. samgmn. Ed. 1923. Lít jeg svo á, að þó yfirlýsing komi frá einhverri einstakri nefnd, þá sje engin sönnun fyrir því, að meirihluti þingsins sje á sama máli. Vil jeg því nota tækifærið til að mótmæla þeim skilningi, sem mjög hefir verið haldið fram af sumum þm., að yfirlýstur vilji einstöku nefnda væri sama og þingvilji. Hitt er að vísu satt, að stjórnin hefir stundum farið í ýmsum ráðstöfunum sínum eftir nefndasamþyktum. Meira að segja hefir það komið fyrir, að stjórnin hefir álitið sjer heimilt að greiða af hendi fjárhæðir úr ríkissjóði samkvæmt vilja einstöku nefnda, án þess að samþykki þingsins kæmi til. En ekki hefir það ætið reynst til heilla. Er það mjög varhugaverð aðferð, sem ekki hefði átt að eiga sjer stað, að liðist hefði.

Mjer hefir skilist af umr., bæði í máli hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að framkoma samgmn. Nd. í fyrra í þessu máli hafi verið sprottin af hræðslu við það, að vegalögin yrðu feld, ef þessar og aðrar breytingar næðu fram að ganga. Má vera, að eitthvað sje hæft í þessu, en ekki er það allskostar rjett. Get jeg um það borið, því jeg átti sæti í nefndinni. Verð jeg að slá því föstu, að nefndin hafi að lokum bundið sig allmikið við till. vegamálastjóra, eins og jafnaðarlega er sjálfsagt. Kom hann með ákveðnar till. að því er snerti breyting á vegalögunum, og mælti hinsvegar gegn þeim breytingum, er hann var mótfallinn. Hallaðist svo nefndin að því að lokum, að fylgja þeim brtt., er hann taldi nauðsynlegar og hann var samþykkur, en öðrum ekki.

Segi jeg þetta ekki gegn þeim till. sem hjer liggja fyrir. Um þær fæ jeg að líkindum færi á að ræða síðar, þar sem þetta mál mun koma til þeirrar nefndar, er jeg á sæti í. En hitt ætla jeg, að verði svo breiðar dyr opnaðar sem menn nú vilja, þá sje ekki ólíklegt, að fleiri fylgi í kjölfarið. Annars er mjög undarlegt, að menn koma nú á þessu þingi með breytingar á þessum lögum, sem eru ekki eldri en frá þinginu í fyrra.