16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

41. mál, vegalög Borgrnes og Eyjafjarðarbrautir

Ágúst Flygenring:

Jeg vil aðeins vekja athygli hv. þm. á lítilli brtt., sem jeg hefi leyft mjer að bera fram við þetta frv. Mætti að vísu eins nefna hana viðbótar- eða viðaukatill. eins og brtt., því með henni er farið fram á að setja nýja málsgrein undir A. 6. Jeg fór fram á það sama í fyrra, en þá náði það ekki samþ. hv. þd., því að menn vildu ekki hrófla við vegalagafrv. frá upphafi. óþarfi er nú að orðlengja um þetta. Það er ekki svo stórt atriði, þar sem aðeins er farið fram á, að þjóðvegurinn sje lengdur frá Keflavík, svo að hann teljist ná suður í Garð, eða rjettara sagt, að ríkissjóður taki við viðhaldi þessa vegspotta eins og hins. Þetta er í rauninni algerlega sjálfsagt, því eins og rækilega var bent á í fyrra, þá hefir þessi sýsla orðið illa úti, þegar bygðir hafa verið vegir í öðrum hjeruðum, enda alkunnugt, að hún hefir notið minst allra sýslna landsins til vegabóta. En hjer skal ekki út í það farið, en á hitt aðeins bent, að þær sveitir, er hjer eiga hlut að máli, hafa orðið fyrir svo þungum búsifjum sakir botnvörpuveiðanna, að þær hafa lítið sjer til lífsviðurværis annað en litla grasnyt og garðrækt. Leit svo út um eitt skeið, að fólkið yrði að flytja burt, og hefði orðið að gera það, ef þessi vegur hefði ekki verið lagður fyrir frjáls samskot og hreppsfje — hrepps, sem í rauninni ekkert á nema tómar skuldir. Nú lifir fólkið þarna sem sagt mest á því að selja mjólk til Reykjavíkur, og er því þessi vegur beint skilyrði fyrir því, að þarna haldist bygð áfram. Liggur að vísu í hlutarins eðli, að frá sjónarmiði því, sem liggur til grundvallar núverandi vegakerfi, á vegurinn að ná suður í Sandgerði. En af því að hv. þm. vita, að jeg er svo mikill sparnaðarmaður, þá fer jeg ekki fram á meira en hjer er gert í till. í þetta sinn. Býst jeg við, að allir verði sammála um till. og sýnist, að það sje aðeins ánægja fyrir þingið að bæta með þessu vegaviðhaldi upp það tjón, er þessir hreppar hafa orðið fyrir, sakir vanrækslu á strandvörnunum, sem því miður hafa mjög svo verið vanræktar.