09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Sigurðsson:

Jeg á aldrei þessu vant eina brtt. við fjárlagafrv., og þykir mjer hæfa að fara um hana nokkrum orðum. Jeg skal strax geta þess, að hún hefir engin bein útgjöld í för með sjer, heldur er það aðeins lánsheimild til handa Sigurði sýslumanni Sigurðssyni á Sauðárkróki til þess að koma sjer upp embættisbústað. Sem stendur er þessi maður hjer um bil húsviltur. Hús eru þarna ekki fáanleg til kaups, og hús það, sem fyrv. sýslumaður Kr. Linnet, bjó í, er gamall hjallur og langt of lítið fyrir mann með jafnstóra fjölskyldu. Hann er því nauðbeygður til þess að byggja sjer hús, en það er ekki auðhlaupið að því fyrir fátækan barnamann, og eina leiðin til þess væri sú, að hann gæti fengið lán með hagkvæmum kjörum, og það er það, sem hjer er farið fram á. Hjer er ekki um nýmæli að ræða, því að þetta hefir áður verið gert, og þá veitt miklu hærri lánsupphæð en þetta. Enn má benda á það, að fje hefir verið veitt út ríkissjóði til embættisbústaða handa læknum og prestum, og það beinlínis fjárveiting, en ekki lán. Jeg fæ því ekki sjeð, að það sje til of mikils mælst, þótt einstaka sýslumanni, sem verst stendur á fyrir í þessu efni, sje veitt lítilsháttar hjálp til þess að koma sjer upp skýli yfir höfuðið, með því að veita lán.

Jeg vil líka benda á það, að jeg hygg hvað þennan sýslumann snertir, þá hafi hann í fyrra, með áræði sínu og hyggilegri stjórn, aflað ríkissjóði meiri tekna en nemi þeirri upphæð, sem hjer um ræðir. Og þó segja megi, að hann hafi þar ekki sýnt nema sjálfsagða skyldurækni, þá mun samt vera litið svo á af þeim, sem kunnugir eru, að hann hafi hjer sýnt mikinn manndóm og ríkissjóður hafi fyrir hans tilverknað fengið svo skifti tugum þúsunda kr. Jeg held því, að það væri, bæði af þessari ástæðu og öðrum, sem jeg hefi nú talið, full ástæða til þess að sýna þessum manni viðurkenningu á þennan hátt, að styðja hann til þess að koma upp sómasamlegu skýli. Jeg mun svo ekki orðlengja frekar um þetta, en jeg vænti þess, að háttv. þingmenn ljái þessari litlu tillögu atkvæði sitt.