18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

46. mál, vegalög Upphéraðsvegur

Flm. (Halldór Stefánsson):

Með vegalögunum, sem samþ. voru af þinginu í fyrra, voru flutningabrautir feldar niður sem sjerstakur flokkur vega. Flutningabrautirnar höfðu, svo sem sagt var, verið áður sjerstakur flokkur vega, sem lagðir voru á alþjóðarkostnað um stærri og fjölbygðari hjeruð landsins. Hafði verið byrjað á suður- og suðvesturlandinu, líklega af nokkuð eðlilegum ástæðum, og mun hafa verið búið að leggja þær, í meiri og minna mæli, um flest stærri hjeruð landsins, nema Fljótsdalshjerað og hinar stærri bygðir í Norður-Þingeyjarsýslu.

Grundvallarhugsun vegalaganna nýju fyrir ákvörðuninni um legu þjóðveganna um landið var sú, að þeir lægju alfaraleiðir um hjeruð og á milli hjeraða, þar sem fjölfarnast er, með álmum til stærri kaupstaða og hafnarstaða. Með þjóðvegum voru þá ekki taldar flutningabrautir, sem lágu eingöngu innan hjeraða, ef þær fjellu ekki inn í þetta kerfi. Með þessari skilgreining var lega þjóðvegarins rökstudd. Með þessum skilningi voru lögin samþykt.

Nú á þessu þingi hafa þegar komið fram ýmsar brtt. við vegalögin, brtt., sem allar brjóta í bág við þessa grundvallarhugsun vegalaganna, að því er þjóðveginn snertir. Nú liggja hjer fyrir brtt., sem ganga út á það, að flutningabrautir og vegir, sem eingöngu liggja innan hjeraða, verði teknar upp í tölu þjóðvega. Ef nú á að fara inn á þá braut, að grundvallarhugsun vegalaganna verði þannig raskað, sem þessar brtt. fara fram á, verður að gæta þess, að jafnrjetti haldist milli einstakra hjeraða í þessu efni. Með þetta fyrir augum höfum við þm. N.-M. borið fram þetta frv. um breytingu þá á vegalögunum, sem það fer fram á.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni eða ganga inn á einstök atriði við þessa umræðu, en vil mælast til, að frv. verði, að aflokinni þessari umr., vísað til samgöngumálanefndar.