14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

46. mál, vegalög Upphéraðsvegur

Halldór Stefánsson:

Við myndum ekki, flm. þessa frv., hafa orðið fyrstir til að bera fram frv. til breytinga á vegalögum þeim, sem samþ. voru á síðasta þingi. En þegar fram voru komin allmörg frv. til breytinga á þeim til þess eins, að ljetta af hjeruðunum viðhaldskostnaði flutningabrauta, sem þegar er búið að leggja um ýms hjeruð, og auk þess raska þeirri grundvallarhugsun, sem ákvörðunin um legu þjóðveganna var bygð á, þá þóttumst við ekki geta setið hjá, án þess að bera fram frv., sem gengi í sömu eða líka átt, og reyna með því að fyrirbyggja meira misrjetti eða misvægi á milli hinna einstöku hjeraða en þegar er orðið.

Undanfarið hefir á grundvelli hinna eldri vegalaga verið unnið að því, að leggja flutningabrautir um stærstu og fjölbygðustu hjeruð landsins. Auðvitað var ekki hægt að vinna það alt í senn, og var nú eftir, er vegalagabreytingin var gerð, að leggja slíkar brautir um Fljótsdalshjerað, til þess að það nyti jafnrjettis við hin ýmsu önnur hjeruð í þessu efni.

Aðstöðumunurinn er þessi: Við eigum eftir að fá okkar innanhjeraðsflutningabraut til jafns við hin ýmsu önnur hjeruð. Hinir aðrir hafa fengið sínar brautir, en vilja skorast undan að hafa viðhald þeirra. Við myndum þykjast góðu bættir, ef við fengjum flutningabraut til jafns við aðra, þótt við yrðum að kosta viðhaldið.

Þótt við þykjumst þessa fullvissir, að frv. okkar þoli fyllilega samanburð við hin önnur frv., er fyrir liggja, um rjettmætar ástæður, búumst við hinsvegar ekki við, að það eitt verði samþ. eða fái aðra afgreiðslu en hin vegabreytingafrv. Og þar sem þau af þeim, sem afgreiðslu hafa fengið, hafa ýmist verið feld eða tekin aftur, þá lýsi jeg yfir því, fyrir hönd okkar flm., að við tökum frv. þetta aftur.