20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

52. mál, vegalög Landbraut og Fljótshlíðarvegur

Flm. (Klemens Jónsson):

Það er nú ekki af sömu ástæðum, að jeg kem fram með þetta frv. og hv. þm. N.-Ísf. lýsti með frv. sínu. Hann kvað vegalögin vera svo gloppótt, að úr yrði að bæta, enda hefði undirbúningur þeirra í fyrra ekki verið svo góður sem skyldi. Þessu get jeg ekki alveg slept að mótmæla. Jeg þykist þess fullviss, að vegamálastjóri, sem aðallega undirbjó þetta mál, hafi gert það mjög rækilega og síst vanhugsað. Ástæður mínar fyrir þessu frv. eru þær, að jeg þykist sjá, að nú sje að verða sú skoðun ríkjandi meðal þingmanna, að það sje skylda ríkisins að styðja eða jafnvel taka alveg að sjer fjölfarnar innanhjeraðsbrautir. En sje svo, þá ber síst að undanskilja þær tvær brautir, sem langfjölfarnastar eru á landi hjer, að því er snertir utanhjeraðsmenn og útlendinga. Mjer finst mikið mæla með þeirri skoðun, að ríkið kosti þessar brautir, og þær fremur en ýmsar aðrar, sem aðallega eru farnar af innanhjeraðsmönnum. Um hina fyrri er það að segja, að hún er nú mikið farin af Reykvíkingum og útlendingum, síðan það fór að tíðkast, að ganga upp á Heklu. Því þótt fara megi aðra leið, þá er þessi venjulega valin. En nú er hún í slæmu ástandi, eins og eðlilegt er, þar sem hrepparnir, eða öllu heldur eingöngu einn hreppur, Landmannahreppurinn, hefir orðið að kosta hana hingað til að mestu, því aðeins örfá ár eru síðan að hún var tekin upp í tölu sýsluvega, og er hún nú að hálfu hreppsvegur, en að hálfu sýsluvegur. Jeg viðurkenni, að með því að taka Holtaveginn upp í tölu þjóðvega, þá hefir mikilli byrði verið ljett af þessu sýslufjelagi. En þetta var fyrst gert fyrir ári síðan, og þá var sýslan djúpt sokkin í skuldir, einkum sakir kostnaðarins við þessa löngu braut, svo að lítils er enn að vænta, að hún geti lagt af mörkum til viðhalds þeirri braut, sem hjer um ræðir.

Um hina brautina er það að segja, að það fer árlega í vöxt, að þeir Reykvíkingar, sem vilja njóta náttúrufegurðarinnar, leita austur í Fljótshlíð og á Þórsmörk. Um þetta þarf ekki að ræða. Allir vita, að fögur er Hlíðin og svipmikil og einkennileg kvað Mörkin vera, en þar hefi jeg ekki komið. En víst er um það, að fólkið streymir til þessara staða á hverju sumri, og nú er að vísu slarkfær bílvegur austur í Hlíð, og þó ekki meir en hálfa leið um hana sjálfa. Úr þessu þarf undir öllum kringumstæðum að bæta, svo að greiðfært sje fyrir þá Reykvíkinga og útlendinga, sem njóta vilja hinnar miklu náttúrufegurðar. Því held jeg, að það sje rjett, sem jeg bendi á í greinargerðinni, að það verði að telja sjálfsagðara að taka þessa vegi í þjóðvega tölu en flestar innanhjeraðsbrautir annarsstaðar, því þær eru fjölfarnastar og liggja til staða, sem fólkið á að fá að sjá.

Fjölyrði jeg svo ekki meira, en leyfi mjer að leggja til, að frv. verði vísað til hv. samgmn.