09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Jeg get verið stuttorður. Það var ekkert í ræðu hv. þm. Dala. (BJ), sem hrakti það, sem jeg sagði í dag. Hann gerði mjer þann mikla sóma að kalla mig annan fjármálaráðherra, og lítur út fyrir, að jeg sje fær á þeim sviðum, þar sem alkunna er, að núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) stendur mjög framarlega hvað það snertir. Hv. þm. Dala. sagði, að jeg hefði flutt ræðu mína af mikilli reiði; en jeg verð að segja, að hann hefir þá ekki haft gleraugu, þegar honum sýndist það. Hann sagði ennfremur, að jeg hefði mælt á móti því, að landssjóður hefði hag af sinni eigin eign. Jeg held, að enginn hafi skilið orð mín svo. En þá kemur það merkilega. Hann segist ekki vita, hvað sínir kjósendur vilji um þennan skóla, og þó er ekki hægt að skilja ræðu hans öðruvísi en að hann sje í samræmi við kjósendur sína. Enda sjest það glögt á áskorunum þeim, sem þeir hafa gefið út, hver vilji þeirra er, svo að mjer kom þetta undarlega fyrir sjónir.

Þá vil jeg leyfa mjer að mótmæla þeim ummælum háttv. þm. (BJ), að við Barðstrendingar þykjumst hafa einkarjett á gjafafje Herdísar Benediktsen. Jeg ætla ekki að fara út í neinn samanburð á því, hvort gjöf Staðarfellshjónanna er stærri en gjöf Herdísar, en það veit jeg, að hún hefir lífs og liðin notið trausts og virðingar allra, sem til hennar þektu, meðal annars fyrir þessa gjöf. Hv. þm. Dala. sagði, að ef Herdís væri komin og mætti um segja, hvar skólinn skyldi standa, mundi henni enginn blettur kærari en Staðarfell. Jeg skal ekkert um það segja. Það má vel vera, að hv. þm. Dala. hafi eitthvað fyrir sjer í þessu, en undarlegt þykir mjer, að hún skyldi þá ekki í lifanda lífi benda á þennan stað í sambandi við gjöf sína.

Þá sagði hv. þm. Dala., að svo fremi gjöf Herdísar væri ekki notuð til Staðarfellsskólans, væri sjálfsagt að skila henni aftur. Þarna kom fram einlœgni hans, því að í gjafabrjefinu er greinilega tekið fram, hver hugsunin sje og tilgangurinn með gjöfinni. Jeg finn fulla ástæðu til að mótmæla því, að það sje á nokkrum rökum bygt, að Herdís hefði viljað láta gjöf sína ganga til skólans á Staðarfelli, og býst jeg ekki við, að það verði skoðað sem þingvilji. Það hefir aldrei komið fram nein yfirlýsing frá stjórninni viðvíkjandi þessu, og í fyrri ræðu minni hefi jeg bent á, að hlutaðeigendur ættu þar um að segja, og finn jeg enga ástœðu til að endurtaka það.

Þá sje jeg ekki ástæðu til að fara meira út í ræðu hv. þm. Dala. Jeg get gengið framhjá ýmsum hnútum í minn garð, sem bar reyndar ekki mikið á í þetta sinn.

Þá benti hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) á það, að hann hefði búist við, að jeg mótmælti því, að fje Herdísar yrði notað til þessa skóla. (JAJ: Það stendur ekki til). Hvorum á maður nú að trúa, þegar annar hv. þm. segir, að það standi til, en hinn segir, að það standi ekki til? Þeir eru á öndverðum meiði, en báðir vinna þeir þó að sama marki. Þá sagði hv. þingmaður, að það væri almenn ósk á Vesturlandi, að stúlkur ættu kost á slíkri kenslu, og býst jeg við, að hann fari þar með fullkomlega rjett mál. Mjer dettur ekki í hug að hrekja það, því að það segir sig sjálft, að það er nauðsynlegur hlutur, að stúlkur kunni til slíkra starfa, enda voru mótmœli mín á alt öðrum grundvelli bygð. Hv. þm. benti á, að námsskeið hefðu verið haldin í þessu skyni, en ekki komið að æskilegum notum, og því væri nauðsynlegt að stofna þennan skóla. Jeg býst við, að það sje rjett, en hinsvegar get jeg ekki fallist á, að þessi skólastofnun standi í neinu sambandi við mitt mál.

Þá benti hv. þm. á þá konu, sem líklegust væri til að standa fyrir skólanum. Það er síður en svo, að jeg mótmæli þeim ummælum hans. Hv. þm. þekkir hana vel og veit, að hún er frá mesta sæmdarheimili, enda er hún svo náskyld hv. þm., að hann er í því efni dómhæfari en jeg. Mótmæli mín snerust sem sagt alls ekki um þessa heiðurskonu, heldur gegn grundvallaratriðunum.

Hv. þm. sagði, að Staðarfellshjónin hefðu fengið blandað lof fyrir gjöf sína, og hefðu þau enn gefið 10 þús. kr. til þess að sjá fyrir endann á þessu máli. Sem sje hafa þau gefið þessa gjöf til þess, að málinu verði hrundið áfram á hinum fyrra grundvelli í sambandi við gjöf Herdísar, sem eftir brjefi hennar á að vera sjerstæð gjöf. Nú segir sami hv. þm., að það sje skilyrði, fyrir þessari gjöf, að skólinn taki til starfa fyrir 1926. Jeg hefi talað um, að annmarkar væru á því. En að mjer hafi nokkurntíma dottið í hug, að þessi heiðurssystkini ættu jörðina ganga úr sjer, er hreinasta fjarstæða. Það hefi jeg aldrei hugsað, og því síður talað. Það mundu verða mörg fyrirmyndarheimili á landinu, ef þau væru styrkt álíka og þetta, auk þess sem jörðin er sennilega eftirgjaldslaus, því að þótt eftirgjaldið sje greitt í jarðalbótum, get jeg engum þakkað. Það er ábúendum sjálfum mest í hag. Hv. þm. sagði, að ekki næði nokkurri átt að setja frv. á þskj. 43 í samband við þetta. Jeg get ekki verið honum sammála um það, því að sama stefnan og er í því frv. kemur fram hjer. Jeg lít svo á, að ef jeg fæ ekki yfirlýsingu frá stjórninni þess efnis, að þótt skólinn verði settur á stofn, detti henni ekki í hug að taka sjóð Herdísar til hans, megi við því búast, að svo verði. Jeg þykist reyndar viss um, að núverandi hæstv. stjórn geri slíkt ekki, en engin trygging er fyrir því, að aðrar stjórnir líti eins á.

Jeg ætla þá ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vil gera mitt til, að umr. verði sem stystar.