03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

32. mál, varalögregla

Jakob Möller:

Það er þannig ástatt um mína afstöðu til þessa máls, að þó jeg að vísu vilji ekki neita því, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að nauðsyn væri á því, að styrkja lögregluvaldið í landinu, þá held jeg, að þetta mál, eins og það er borið fram og eins og það er rökstutt, sje tæplega tímabært það hefir snúist þannig í höndum hæstv. stjórnar, að jeg tel litla von um, að framgangur þess geti orðið til þess að tryggja frið í landinu. Jeg er fullkomlega sammála hv. þm. Dala. (BJ), að ríkislögregla eða aukning lögreglu — sem jeg tel nauðsynlega — hún eigi alls ekki að vera stofnuð frekar gegn einni en annari stjett í landinu. En hæstv. stjórn hefir nú tekist svo óhönduglega með framburð málsins, að það er trú mikils hluta landsmanna, að þessi varalögregla eigi að stofnast til höfuðs vissri stjett. Ekki aðeins vegna þess, sem í frv. felst, heldur hafa hjá formælanda frv. fallið þau orð, sem ómögulegt er að skilja á annan veg. Því þegar hann er að leiða rök að því, hve nauðsynlegt sje að styrkja lögregluvaldið í landinu, vitnar hann til atburðar, sem sannar, að hann hefir haft í huga, að mest knýjandi nauðsyn til þessa væri að hafa hemil á vissum stjettum í landinu. Meðan hæstv. stjórn hefir ekki gert sjer sanngjarnari grein fyrir þörf varalögreglu eða borið gæfu til að bera frv. fram á haganlegri hátt en hún hefir gert, held jeg, að málið sje ekki tímabært og eigi alls ekkert erindi til nefndar.

Þegar sá atburður varð, sem bent var á sem fyrstu sönnun fyrir nauðsyn varalögreglu, var hæstv. forsrh. (JM) líka forsætiráðherra. Ef hann hefði komið með frv. þá á næsta þingi, þá hefði það legið öðruvísi fyrir. En þegar frv. kemur nú, fyrst og fremst sem afleiðing síðari ára viðburða, sem hæstv. forsrh. hefir getið, þá verð jeg að kalla það óheppilega valinn tíma fyrir frv.

Hv. þm. Dala. (BJ) talaði um nauðsyn þess, að styrkja lögregluvaldið til þess að efla virðingu annara þjóða fyrir lögreglu landsins. Það er nauðsynlegt, að aðrar þjóðir beri virðingu fyrir lögreglu landsins. En það er miklu nauðsynlegra, að þjóðirnar beri virðingu fyrir því, hvernig haldið er uppi lögum landsins að öðru leyti, ekki síst gagnvart annara þjóða mönnum. Hvernig hefir nú hæstv. stjórn tekist að halda uppi lögum landsins gagnvart þeim? Á meðan stjórn ríkisins lætur það óátalið, þegar erlendir menn gera sig seka í tvímælalausum glæp gagnvart landsmönnum, án þess hún hreyfi hönd eða fingur til að koma fram refsingu, held jeg, að ekki sje ástæða til, að fá henni í hendur aukna lögreglu. Jeg skoða hana ekki færa um að takast þann vanda á hendur að stjórna þeirri lögreglu. þessvegna greiði jeg atkvæði á móti því, að frv. fari til 2. umr.