03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

32. mál, varalögregla

Magnús Torfason:

Jeg þykist vita, að jeg standi sjálfsagt upp í óþökk hæstv. dómsmálaráðherra.

Í svari sínu til hv. 3. þm. Reykv. ljet hann eins og hvíla ætti einhver bönd á hv. þm. (JakM) gagnvart stjórninni. Jeg get þá hugsað mjer, að hæstv. dómsmálaráðherra líti svo á, að jeg, sem heita skal einn af undirmönnum hans, ætti því fremur að láta vera að segja eitt orð, sem heitið gæti árás á stjórnina.

Jeg mótmæli algerlega slíkum skilningi.

Þegar jeg stend hjer sem þingmaður, er ekki valdsmaðurinn í mjer. Jeg vil hafa fult frjálsræði til að tala eins og hver embættislaus maður hefir.

Það sem gerði sjerstaklega, að jeg áleit mjer skylt að tala í þessu máli — enda þótt það geti ekki talist óviðeigandi, þar sem jeg er eini lögreglustjórinn í deildinni — var það, að hæstv. forsrh. brýndi einn þm. með því, að hann væri nokkurskonar trúníðingur, af því að hann hefði verið með aukinni lögreglu áður, en gæti ekki verið með þessu frv. nú.

Það stendur eins á fyrir mjer. Jeg hefi hrópað á aukna lögreglu, en engan byr fengið. Jeg vil láta auka lögregluna í landinu og að ríkið leggi eitthvað af mörkum til þess, en á annan hátt en þetta frv. gerir ráð fyrir. Jeg hefi óskað eftir, að tollgæslan í landinu væri styrkt, en við því hefir verið skelt skolleyrunum. Jeg lít svo á, að fá mætti talsverða varalögreglu innan þess flokks embættismanna, sem af ýmsum ástæðum eiga að vera til hjálpar, þegar eitthvað er á seyði. T. d. mætti gera tollþjónum að skyldu að vera í varalögregluliði, ef á þyrfti að halda. Ekkert lægi heldur, nær en að nota brunaliðið, því sannreynt er, að ekkert lið er vænna til að stöðva uppþot. Í stórborgum ytra hafa menn hætt við að senda herlið á vettvang, en sent í þess stað brunalið með sprautur, og það hefir dugað. Þetta ætti hæstv. dómsmálaráðherra að gera.

Skal jeg svo snúa mjer að frv.

Verð jeg þá að byrja á því, að í munni hæstv. dómsmálaráðherra er eins og þetta sjeu tvö frumvörp. Fyrst kemur stóreflis fíll, og svo verður þetta að agnarlítilli mýflugu.

Þetta er nú sitthvað. En þó er hægt að sjá á aðalákvæðum frv., hvað meint er með því.

2. gr. byrjar þannig:

„Allir karlmenn, sem eru fullra 20 ára að aldri, en ekki yfir fimtugt, eru skyldir að ganga í varalögreglusveit þá, er í þeim kaupstað er, þar er þeir eiga heimili eða dvelja um tíma — —

Frv. er þá þannig úr garði gert, að það nær ekki aðeins til búsettra manna, heldur líka til þeirra, er dvelja um tíma í kaupstaðnum. Með öðrum orðum: Þeir hv. þingmenn, sem yngri eru en fimtugir, geta átt von á því, að verða dregnir í þessa varalögreglu hjer í Reykjavík. Það gæti verið gróflega þægilegt, ef svo stæði á í deildinni, að ylti á 1–2 atkv., t. d. ef vantraustsyfirlýsing væri á ferðinni. Hefði hæstv. dómsmálaráðherra, eins og hann lætur, ætlað að mynda þetta lið smámsaman, mundi t. d. hafa staðið í frv., að menn, sem væru 20–25 eða 30 ára, skyldu ganga í liðið. Þá væri líka öðru máli að gegna. Þetta er nóg til að sýna, að frv. skaut svo miklu lengra og hærra en dómsmálaráðherra vildi vera láta í ræðu sinni.

Jeg verð að vera alveg á móti þessum stóra flokki, af ástæðum, sem hjer hafa verið taldar í deildinni, og sem jeg tel fullnægjandi og nenni ekki að taka upp aftur. Jeg verð líka á móti 100 manna flokki, því hann yrði skoðaður sem klíkulið. Í stað þess að gera gagn, mundi hann vekja andstöðu og æsingar. Verkamenn mundu mynda varnarsamband og þetta svo hlaða utan um sig. Jeg er líka á móti þessu vegna þess, að þetta er algerður óþarfi. Jeg get lýst því yfir, að merkur íhaldsmaður, sem jeg má ekki greina nafn á — til þess er enginn rjettur, nema með leyfi viðkomanda — hefir sagt mjer, að engin þörf væri á því að auka lögregluna í því skyni að standast verkmannasamtök, því að skipulag vinnuþiggjenda væri svo fast og örugt. Jeg get vel trúað þessu, enda er talsverð reynsla fyrir því. Móti þessu mælir ekki atvikið, sem gerðist á hafnarbakkanum.

Það, að lögreglan lá þá undir, var ekki af því, að ekki væri hægt að halda uppi rjetti. Góðir og greindir menn hafa sagt, að þeir, sem viðstaddir voru, hafi ekki viljað hjálpa henni. En af hvaða ástæðu? Af því að lögreglustjóri þessa bæjar þykir ekki vel til foringja fallinn — að þeim mæta manni ólöstuðum, eins og síra Sigurður heitinn í Vigur var vanur að orða það. Þarna er ástæðan fyrir því, að frv. kemur fram og í þessari mynd.

Mál manna hjer er það, að ekkert þýði að styrkja lögregluna hjer, meðan núverandi lögreglustjóri hefir embættið. Því að hvað marga menn sem hann hefði, mundi hann altaf biða ósigur.

Frv. ber þess líka ljósan vott, að þessi er ástæðan. — 3. gr. segir svo:

„Dómsmálaráðherra skipar forstöðumann varalögreglusveitar, eftir tillögum lögreglustjóra.“

Hið eina vald, sem lögreglustjóri hefir, er þá að gera tillögur um, hver sje forstöðumaður. Honum er ekki ætlað að vera það.

Jeg sagði áðan, að jeg vildi styrkja tollgæsluna og daglega löggæslu. Við því er skelt skolleyrunum og ekkert gert. Fyrir því er líka ástæða. Það er vegna þess, að vitanlegt er, að mikill hluti lögbrjóta eru Íhaldsmenn og flokksmenn stjórnarinnar, og við þeim má ekki hreyfa. Þeim stendur á sama um þessi daglegu lögbrot; þótt einn og einn lögregluþjónn sje dreginn ofan í forina, það á svo sem að standa á sama. Af því er frv. sniðið svo. Varalögreglan á að vera gegn pólitískum brotamönnum, en ekki daglegum lögbrjótum.

Þessvegna lít jeg svo á sem þetta sje eitthvert hið mesta skaðafrumvarp, sem fram hefir komið; það hefir kveikt mikinn eld og er að kveikja mikinn eld, sem ekki verður slöktur fyr en á bálkesti næsta kosningadags.

Eitt atriði enn er stórathugavert í máli þessu. Í 5. gr. er ákvæði um, að kostnað allan við framkvæmdir eftir lögum þessum skuli greiða úr ríkissjóði. Jeg sje ekki betur en að hjer eigi hreint og beint að hlunnfara Alþingi, með því að setja hjer upp stóra varalögreglu, og ekki spyrja þingið, hvað. það vildi veita til þess. Annars hefði verið bætt við orðunum „samkvæmt fjárlögunum“, eins og víða er gert í lögum.

Jeg verð að segja það, að mig furðaði mjög, er jeg sá framan í þetta frv., að hæstv. dómsmálaráðherra skyldi hafa gert það að sínu frv. Jeg sá líkt frv. í fyrra læðast hjer með bekkjum, og var þá á móti því, og sagði, að ekki kæmi til mála, að stjórnin ansaði slíku, að minsta kosti ekki meðan núverandi dómsmálaráðherra sæti við völd. Jeg vissi ekki, að hann væri svo hermannlega vaxinn. Er jeg sá frv., varð jeg hlessa á því, hve mikill mannrati jeg væri, að þekkja hann ekki betur en svo. En nú sje jeg merki þess, að jeg hefi þekt hann vel. Hann var ekki fyr búinn að opna munninn í deildinni en hann var kominn á harða flótta frá frv. Hann bjó sjer strax bakvígi í málinu og var þegar kominn út í ystu dyr þess. Þá þekki jeg hann. En þegar svo hæstv. dómsmálaráðherra fór að segja frá hrakförum lögreglunnar, datt mjer í hug, að sjaldan hefi jeg heyrt nokkura skýrslu láta eins mikið ósagt af því, sem þurfti að segja. Jeg efa það ekki, að sagan er sönn, svo langt sem hún náði, en jeg er viss um, að sjaldan hefir verið gefin út skýrsla, sem hefir gefið rangari mynd af því, sem hún átti að gefa. Undir þeirri þulu datt mjer í hug, hver myndi vera dýpsta ástæðan til þess, að hæstv. dómsmálaráðherra bar frv. fram. Áreiðanlega var eitthvað, sem knúði hann til þess. Ekki er hann vanur að hætta sjer um of, hæstv. dómsmálaráðherrann. Og þá, meðan rollan var upp lesin, fann jeg, að dýpsta ástæðan var, að leiða hugann frá því, hvernig dómsmálastjórnin hefir farið honum úr hendi, sjerstaklega síðan hann síðast tók við völdum. Vjer vitum allir, að hún hefir orðið okkur til hneisu, ekki einungis inn á við, heldur hefir hún einnig valdið hneisu út á við. Og það verð jeg að segja, þótt jeg standi hjer við hliðina á hv. þm. Dala. (BJ), að ekkert tel jeg hættulegra sjálfstæði þessa unga ríkis en ef vjer fáum orð fyrir að geta ekki haldið uppi lögum og rjetti í okkar eigin landi, þótt aðeins sje við örfáa menn að eiga.

það er enginn vafi á því, að mál þetta á ekkert erindi hingað, nema aðeins eitt: það, að seinka og spilla fyrir því, að hjer komist á stofn veruleg ríkislögregla. Þá fyrst, þegar þessi alda er fallin, sem reist var með frv., er tími til að tala um ríkislögreglu. Mín skoðun er sú, að fyrst og fremst eigi lögreglan hjer í landi að afla sjer virðingar með daglegri breytni sinni, og pólitísk lögregla standi í því sambandi við hana, að þýðingarlaust er að setja upp pólitíska lögreglu, ef hin daglega lögregla er ekki í heiðri höfð.

Loksins skal jeg lýsa því yfir, að jeg greiði ekki af hræðslu atkv. á móti þessu frv. til nefndar. Heldur af hinu, að jeg er viss um, að það á ekkert annað erindi en að þvælast þar fyrir og tefja. Það kemst aldrei út úr þinginu.