04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

32. mál, varalögregla

Sigurjón Jónsson:

Það er ekki vani minn að standa upp til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu. En svo mjög er orðið vafið utan um þetta mál, af andmælendum þess, að jeg get ekki látið vera að lýsa afstöðu minni til þess.

Háttv. andmælendur hafa haldið fram svo miklum firrum og þyrlað upp svo miklum reyk, að varla sjest til málsins sjálfs. Varalögregla sú, sem frv. gerir ráð fyrir, og sem mjög skýrðist við flutningsræðu hæstv. forsrh. (JM), er nú að mestu horfin sjónum ræðumanna. En í stað þess er alt fult af vopnum og herliði. Í því eru hæstbjóðendur þeir hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og háttv. þm. Str. (TrÞ), og sóma þeir sjer þar vel hvor við annars hlið. Í þessu róti hefir því og verið haldið fram, að frv. þetta miðaði að því að fóttroða það þjóðskipulag, sem nú er. Það er því ekki ofsögum sagt, að lítið eygi til kjarna málsins.

En þá fyrst kastar tólfunum, þegar háttv. 1. þm. Árn. (MT) er kominn nauðugur í þennan her, kvaddur þangað til þess að varna honum að greiða atkv. um áhugamál sín hjer í háttv. deild. Alt þetta sýnir, hversu fáránlega háttv. andmælendur hafa mist sjónar á málinu.

Jeg sje nú ekki annað en það eitt liggi til grundvallar fyrir frv. þessu, að stjórninni finnist löggæsla þjóðarinnar of veik. Fyrir þessu hefir hún fært rök, og nefnt dæmi máli sínu til sönnunar, og kemur því með tillögur til Alþingis um það, hvernig hún hugsar sjer það gert á ódýrastan og hagkvæmastan hátt, að ráða bót á þessu.

Það er því mín skoðun, að það sje beinlínis skylda löggjafanna að athuga þessar tillögur; Jeg hika því ekki við, að greiða frv. þessu atkvæði til 2. umr., til þess að það verði athugað í nefnd. Og komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að löggæslan í landinu sje ekki nógu trygg, þá er það beinlínis skylda hennar að koma með tillögur um að tryggja hana, ef hún getur ekki fallist á það fyrirkomulag, sem liggur til grundvallar í frv. þessu.

Af framansögðu bæði þori jeg að greiða máli þessu atkvæði til nefndar og hefi enga tilhneigingu til þess að fara refilstigu, til þess að koma mjer hjá því.