11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. fyrri kafla (Þórarinn Jónsson):

Það er mjög lítið hjer, sem jeg þarf að taka fram fyrir hönd nefndarinnar, því að við þessar brtt., sem hún flytur, hafa ekki verið gerðar athugasemdir, nema aðeins við eina, og verð jeg að taka það svo, að hv. deild telji till. rjettar.

Þessi eina brtt., sem gerð hefir verið aths. við, það er 4. brtt., og gerð af hæstv. atvrh. (MG). Jeg var því miður ekki við, þegar talað var um þetta atriði, og gat þess vegna ekki heyrt það, en aftur hafði hv. form. fjvn. (ÞorlJ) skrifað upp þau atriði eða rök, sem hæstv. atvrh. hafði haft gegn þessari till. Till, sem sje felst í því, eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, að Alþingi taki fullnaðarályktun um þetta mál; hún er sem sje ekki í öðru fólgin en því, að stjórnin eigi ekki að gera samningana, heldur Alþingi. Þessir punktar, sem hjer eru skrifaðir upp. eru þannig, að í fyrsta lagi er skrifað, að hæstv. atvrh. leggi á móti athugasemdinni við samninginn við Stóra norræna, og jafnframt tekur hann það fram, að verði þessi brtt. samþykt, þá hafi hann ekki einkafund með þinginu. Mjer virðist þetta ekki fara vel saman, því að þrátt fyrir það, þó að þessi till. yrði samþykt, þá virðist það ekki gera einkafund óþarfan, því að vilji stjórnin á annað borð fá nokkuð að vita um vilja þingsins, sem jeg hygg sjálfsagt að komi fram, þegar málið frá hennar hlið verður skýrt fyrir þinginu, þætti mjer líklegt, að hún fengi þá miklu betri undirstöðu til þess að byggja á þessa samninga, og þyrfti þá síður að óttast það, þótt þingið ætti úrslitaatkvæði. Ef stjórnin vissi ekki neitt um vilja þingsins í þessu efni, þá hefði hún ekkert að byggja á. Hinsvegar býst hæstv. atvrh. líklega við, að þetta mál verði þannig skýrt fyrir þinginu á einkafundi, að það megi á eftir leggja algerlega í vald stjórnarinnar. Jeg get ekki um þetta sagt, en finst þó, að þessi varnagli, sem í till. felst, geti ekki verið óþarfur.

Annað atriðið, sem hjer er skrifað upp, er það, að það sje erfiðara að fá samning, ef stjórnin hafi ekki fullnaðarumboð. Eftir því sem mjer finst og meiri hl. nefndarinnar, er þetta ekki rjett; það er enda líklegra, að sá aðili, sem semja á við, athugi það, að þingið muni vera kröfuhart, og þess vegna ekki samþykkja, nema því aðeins að hann gangi það lengsta, sem hann ætlar að ganga. Þetta er alveg ugglaust, en ef það er skoðað þannig, að hinn samningsaðilinn vilji ná samningi, en það getur náttúrulega verið spurning um það, hvort hann vilji það. En jeg veit ekki, í hverju það ætti að liggja, ef þetta gæti spilt fyrir samningunum.

Enn er það skrifað upp, að það muni vera ómögulegt að fá samning gerðan frá því að þing kemur saman til þess í ágústlok. Jeg skil þetta þannig, að ef þing, sem kemur saman eftir að leitað hefir verið um samninga, vill fá þeim breytt, þá muni það ekki vera hægt fyr en eftir þinglausnir. Jeg get varla skilið, ef um fá atriði er að ræða, að ekki sje hægt að semja um þau, því að það er meira að segja mjög líklegt, að það væri hægt með einföldu símskeyti að afgreiða málið.

Hér er í síðasta lagi skrifað upp, að einhverjir geti fundið að samningnum, hvernig sem hann yrði. Þetta er ekki ólíklegt, og mjer þykir því mjög óeðlilegt, að stjórnin skuli ekki vilja hafa þingið fyrir bakhjarl, því að jafnvel þótt stjórnin kæmist að samningnum með góðum skilmálum, er líklegt, að stjórnin fengi vanþakklæti fyrir það, ef hún hefði ekki þingið að baki sjer, og það er ekki sagt, að andstöðuflokkurinn setti ekki út á gerðir hennar, jafnvel þótt þær væru góðar; þess vegna ætti stjórnin einmitt að krefjast þess að hafa þingið að baki sjer. Það kunna að vera einhverjar sjerstakar ástæður, sem hæstv. ráðherra (MG) hefir fært til, en sem jeg hefi ekki getað fundið, því að mjer finst það svo ofureðlilegt að þingið heimti þetta, og þó að það geri það, sje það samt skylda stjórnarinnar að kynna hv. þm. málið sem best og fá að vita hugi þeirra um þau atriði, sem hægt er, að minsta kosti um þau atriði, sem stjórnin þegar hefir látið athuga um, þá getir þingið þó sagt um þau, svo að stjórnin sje örugg.

Það er í raun og veru ekki fleira, sem jeg þarf að svara um aðfinslur við till. nefndarinnar.

Af því að jeg hefi sjálfur komið inn einni brtt. fjvn., þykir mjer hlýða að minnast á hana nokkrum orðum. Tillagan er um lán handa Hvammstangahjeraði í Húnavatnssýslu. Sýslunefnd Húnavatnssýslu bað mig í vetur að leitast fyrir um lán handa læknishjeraðinu til þess að koma uppljóslækningastofu. Jeg hefi leitað til bankanna um þetta, en árangurslaust. Hvernig á því stendur, að jeg hefi ekki getað fengið lánið, þarf jeg tæplega að skýra frá, því að það er á allra vitorði, að á þessum tímum lána bankarnir ekki til langs tíma með hagstæðum kjörum. En héraðið gat ekki sætt sig við, þó að það gæti fengið víxillán til 1—3 ára. En svo var einusinni ekki hægt að fá það.

Það, sem hvatti mig til að koma með þessa tillögu, var sjerstaklega það, að bæði hæstv. fjármálaráðh. (JÞ) og hæstv. atvrh. (MG) hafa mælt með lánsheimild til þess að koma upp sýslumannsbústað í Vestmannaeyjum. Jeg ætlaði ekki að trúa þessu, en sannfærðist um það þá fyrst, er jeg heyrði hæstv. fjrh. mæla móti tillögunni hjer um að fella þessa lánsheimild niður.

Hæstv. fjrh. talaði um, að fjvn. Nd., sem ætti að vera hinn mikli múrveggur í fjármálum, hefði bilað í þetta sinn. En jeg verð þá að segja hæstv. ráðherra að í þessu tilfelli finnst mjer, að stjórnin hafi bilað í fjármálaíhaldinu, þar sem hún getur verið að mæla með láni til sýslubústaðar í Vestmannaeyjum.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um það, hvernig fjvn. hefir staðið sem varnarveggur í þetta sinn. En þess ber að gæta, að hún getur aðeins staðið saman um tillögurnar og varið þær, en hvernig deildin fer með þær, er ekki á hennar valdi.

Jeg get ekki stilt mig um að fara nokkrum orðum um lánsheimildina til bæjarfógetans í Vestmannaeyjum.

Hæstv. fjrh. fór mörgum fögrum orðum um þessa lánsheimild og nauðsyn hennar. Taldi meðal annars, að sjerstök ástæða væri til að hafa veglegan sýslumannsbústað í Vestmannaeyjum, af því að þangað kæmu svo margir útlendir gestir, sem bæjarfógetinn þyrfti að taka á móti. Já, það er satt, þar þarf eflaust oft að bjóða inn útlendum sjómönnum og yfirmönnum af danska varðskipinu. Hvort það er nú svo, að útlendir gestir taki fyrst eftir húsakynnunum, veit jeg ekki, en mjer er næst að halda, að svo muni ekki vera. Hitt held jeg að muni vera betra, að eiga t. d. banka, sem getur lánað landsmönnum fje til nauðsynlegra fyrirtækja, jafnvel þó að hann kostaði ekki nema 40–50 þús., en að eiga banka, sem kostar 2 miljónir, en getur ekkert lánað landsmönnum, ekki svo mikið sem keypt nokkur hundruð kr. víxil.

Það hefir nú orðið hlutverk hæstv. fjrh. að koma til fjvn. og fá linun á lánskjörum þess eina embættismanns, sem fengið hefir slíkt lán, sem hjer er um að ræða. Áframhaldið mun því verða eftir byrjuninni. Fordæmið hefir þegar verið gefið, og það reynst illa.

Annars finst mjer dálítið óviðfeldið af hæstv. fjrh., sem sent hefir brjef út um alt land, þar sem hann varar menn við að ráðast í nokkur fyrirtæki, að vera með þessu að ýta undir bæjarfógetann í Vestmannaeyjum að ráðast í fyrirtæki, sem óumflýjanlega verður tap af.

Jeg býst nú við, að sem hliðstætt þessu megi benda á byggingarnar á prestssetrunum, en það er samt ekki sambærilegt. Sama er að segja um styrkinn til læknisbústaðanna. Þar er lánað til hjeraðanna sjálfra, svo að það horfir öðruvísi við en hjer, þar sem lánið er til einstakra manna. Það er því víst, að með þessu verður ríkissjóði bundinn þungur baggi, sem erfiður verður í framtíðinni, því að þegar búið er að veita einum, koma margir á eftir, sem erfitt verður að neita. Jeg vildi því mega vænta, að nú verði numið staðar á þessari braut. Fordæmið er þegar búið að kenna nóg.

Hvað sem sagt verður um mína tillögu, eða hvað sem um hana verður, skiftir ekki miklu máli. En eigi að síður tel jeg hana rjettmætari en þessa lánsheimild, því að jeg tel hana taka langt fram yfir alt annað.