04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

32. mál, varalögregla

Magnús Torfason:

Jeg verð að segja það, að mjer kemur dálítið á óvart, hvað hæstv. dómsmálaráðherra (JM) er afskaplega vondur við mig. Því jeg þóttist einmitt hafa verið svo dæmalaust góður við hann í ræðu minni, jeg var sem sje altaf að verja hann. Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að frv. væri eins og vitlaus maður hefði borið það fram. Ræða mín gekk m. a. út á það, að það væri öðru nær en hæstv. dómsmálaráðherra væri vitlaus maður, heldur væri frv. gert að vel yfirveguðu ráði frá hans hendi.

Í minni ræðu var aðeins eitt atriði, sem verulega snerti hann sem dómsmálaráðherra. Jeg sagði eitthvað í þá átt, að dómsmálastjórnin hefði sett niður frá því hann tók við stjórn síðast. Og það stend jeg við. Hygg jeg það vera mál allflestra á þessu landi, þeirra, er vit hafa á og til þekkja. — En hafi hæstv. dómsmálaráðherra þótt jeg vera eitthvað harður í sinn garð, mátti hann sjálfum sjer um kenna. Ef hann hefði hagað orðum sínum í gær eins og hann hagaði orðum sínum nú í ummælum sínum um hv. 3. þm. Reykv. (JakM), þá hefði jeg ekki tekið þau til mín. En það gerði hann einmitt ekki. Hann sagði það nú, sem hann vildi þá hafa sagt. En það get jeg sagt hæstv. dómsmálaráðherra, að þegar jeg kom út úr þessum sal, vildi jeg skoða þetta, sem hann sagði, á mýkstan hátt í hans garð, af þeim, sem um töluðu, og hefi jeg næg vitni að því. Hæstv. dómsmálaráðh. talaði alls ekki um, að þm., sem eru embættismenn, ættu að haga sjer sæmilega gagnvart stjórninni, heldur, að það ættu að vera bönd á þeim. Í því sambandi sagði hann, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefði ausið á sig auri. Jeg varð alls ekki var við, að þessi hv. þm. (JakM) gæfi neina ástæðu til þess, að vera borin á brýn ósæmileg framkoma. Þessvegna gat jeg ekki litið öðruvísi á en að þingmenn, sem eru embættismenn, ættu að vera bundnir á klafa — eftir skoðun hæstv. dómsmálaráðherrans.

Það er eitt, sem mjer þykir vænt um að komið hefir hjer fram. Nú hefir þessi hæstv. dómsmálaráðherra leyst frá munninum og haldið þá skammaræðu, sem líklega munu tæplega finnast dæmi til hjer á Alþingi Íslands. Og þá er að athuga, hvaða sakir eru gagnvart þeim manni, sem slíkur lestur er haldinn yfir.

Jeg get staðfest með þingtíðindunum, að jeg hefi altaf gengið á snið við hæstv. dómsmálaráðherra. Ekki af því, að jeg hafi talið mig svo sjerlega bundinn vegna stöðu minnar, heldur vegna þess, að jeg vissi það, að ef jeg færi að ráðast á hann, mundi ef til vill verða litið svo á, að jeg þættist eiga mín í að hefna. Það vildi jeg ekki láta á sannast. Það hefir ætíð farið svo, að hafi einhverjir gert mjer rangt til, hefir þeim hefnst sjálfum, án míns tilverknaðar; svo hefir og farið í þetta sinn.

Jeg verð að segja, að mjer þykir hæstv. dómsmálaráðherra vera nokkuð hvumpinn, ef hann telur sig ausinn auri í þessari umr., og þá sjerstaklega með tilliti til þess, hvernig hann stendur að vígi. Hann stendur hjer sem höfuð þess stjórnmálaflokks, sem ár eftir ár og dags daglega hefir ausið menn auri. Og síðast á þessu þingi hafa þeir þingmenn, sem ekki eru samþykkir stjórninni í hverju máli, verið ausnir auri hvað eftir annað, og yfir höfuð helt yfir þá óbótaskömmum. En jeg get sagt hæstv. forsrh. (JM) það, að jeg hefi aldrei nokkurntíma svarað einu orði því, sem ausið hefir verið á mig. Hvern dóm sem hann leggur á mig, hefi jeg þó litið svo á, að það sje langt fyrir neðan mig að fást við slíka menn. Jeg hefi aldrei skrifað eitt einasta orð í blöð, þess efnis, að ráðast á menn persónulega, hversu miklar sakir sem mjer hafa verið gefnar, og það fyrir mín bestu verk, sem mjer hafa blætt tugir þúsunda fyrir.

Þá hefi jeg nægilega svarað hæstv. forsrh. En því vildi jeg beina til hans, að hann má ekki gleyma því, að ef á að fara með hann eins og hann fór að mjer, þá treysti jeg mjer til að hella yfir hann svo miklum skömmum, að hann stæði aldrei upprjettur eftir — og það með fullum rökum. Því það er margs að minnast, og það er langt að minnast. En jeg ætla ekki að hafa mig til þess, og mun aldrei gera.

Þá var hann að tala um óþokkalega árás og dylgjur. Jeg þóttist nú segja þessa einu setningu, sem jeg tók upp hjer áðan, fullgreinilega, og mátti hann vel skilja, hvað jeg meinti.

Þá kvað hæstv. dómsmálaráðherra mig hafa sagt, að hann væri að hylja glæpi Íhaldsmanna. það hefi jeg aldrei sagt. En mjer fórust orð á þá leið, að þeir menn, sem mest brjóta lög hjer í landi, það væru menn úr hans flokki. Og það ætla jeg að standa við. Þetta er heldur ekki nema eðlilegt, þar sem Íhaldsflokkurinn sem heild hefir verið andvígur bannlögunum, og úr þeirra flokki er prjedikað, að bannlögunum beri ekki að hlýða. Meirihluti bannlagabrjótanna er úr hans flokki.

Þá endaði hæstv. dómsmálaráðherra ræðu sína þannig, að hann vildi telja mig til skrílsins í minni stjett. Jeg þakka ummælin. En það vill svo til, að hann er ekki einn dómari um það, hvernig jeg hefi staðið í minni stöðu. Ef jeg er kallaður skríllinn í sýslumannastjettinni, þá held jeg það geti kanske orðið misjafnir dómar um suma aðra.

Loks vil jeg enda mál mitt með því að rifja upp, að jeg hefi sjeð mann, ekki óskyldan hæstv. forsrh. (JM), þannig á sig kominn — og jeg skal taka það fram, að það var ekkert augnabliksástand, heldur langvarandi, „króniskt“ ástand — að engum, sem sá hann slíkan, hefði dottið í hug að telja hann til annarar tegundar af mönnum en þeirrar, sem forsrh. vildi áðan bendla mig við.