05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (2687)

32. mál, varalögregla

Magnús Torfason:

Jeg fjekk í gær leyfi hjá hæstv. forseta til að bera af mjer sakir, en vjek hinsvegar ekki að ræðu hæstv. dómsmálaráðh. (JM) að því leyti, er hún snerti málið sjálft.

Þess þarf heldur ekki með, nema að litlu leyti, því að hann reyndi ekki að hrekja neitt af því, sem jeg hafði sagt um aðalatriði þessa máls. Það eina, sem hann reyndi að bera fram til varnar, var það, að forstöðumaður varalögreglunnar ætti að vera undir lögreglustjóra gefinn. Í því sambandi sagði hann, að jeg hefði alls ekki lesið aths. við frv. Um 3. gr. frv. segir svo í aths.: „Forstöðumaður hefir á hendi stjórn varalögregluliðsins og umsjón .... “ Þetta er einmitt full sönnun fyrir mínu máli, því að þótt svo sje að sjálfsögðu tekið til orða í aths. um 1. gr., að varalögreglan eigi að vera lögreglustjóra til aðstoðar, þá sje jeg eigi betur en hin aths., sem jeg tilfærði, taki öll tvímæli af um þetta.

Þá var annað, sem mjer þótti kynlegt í ræðu hæstv. forsrh. (JM). Það er, hvernig hann hefir tekið till. þeirra, sem að vísu vilja auka löggæslu í landinu, en eru þó ósamþykkir frv. stjórnarinnar. Hann hefir gert alt sitt til að gera allar þessar till. að vitleysu, og þá hafa mínar tillögur ekki farið varhluta af þeirri viðleitni hans. Jeg mintist meðal annars á tollþjóna og aukna tollgæslu. Hæstv. forsrh. (JM) veit líka að jeg hefi jafnan haldið því fram, að auka beri tölu tollþjóna, því að sú stjett þarf að vera það vel skipuð, að hún geti öðruhvoru rannsakað skip nákvæmlega, svo enginn, sem varning flytur inn í landið, geti verið óhultur fyrir tollskoðun. Hvað fjárhagslega hlið þessa eftirlits snertir, þá er jeg viss um, að það margborgar sig beinlínis, og einnig óbeinlínis, í auknum tolltekjum, þar sem það kemur í veg fyrir, að lögbrot sjeu framin. En það, að fyrirbyggja lögbrot, vænti jeg einmitt að sje næst skapferli hæstv. dómsmálaráðh. (JM). Samt hefir hann ekkert gert til að bæta þessa grein lögreglunnar.

Að lokum verð jeg að fara nokkrum orðum um síðustu hnúturnar, sem hæstv. forsrh. (JM) kastaði til mín. Hann kvað skríl vera í öllum stjettum, og fór það ekki leynt, að hann taldi mig vera skríl í sýslumannastjettinni. Jeg veit ekki, hvort hann hefir hjer átt við embættisfærslu mína, en hvað sem því líður, liggur ekki í lausu lofti það hugboð milt, að hjá þessum yfirboðara mínum, hæstv. dómsmálaráðh., hafi jeg í embættisfærslu minni einskis styrks átt að vænta. En undarlega kom mjer þessi ásökun hans fyrir sjónir, þar sem mjer vitanlega hefir okkur ekkert á milli borið út af embættisrekstri mínum. Jeg hefi meira að segja ekki ákveðið kæru í neinu stórmáli, nema bera það undir hann, og býst jeg við, að það þyki einkennilegt um mann, sem ekki hefir verið stjórninni sjerlega leiðitamur. En hafi hann átt við embættisfærslu mína, verð jeg að vita hæstv. forsrh. (JM) fyrir það, því að þar gerir hann sig ótvírætt sekan í þinghelgisbroti, þegar hann ræðst hjer á mig sem embættismann. Jeg sit hjer sem hver annar þingmaður, embættislaus, og þyki honum mjer fara mín embættisfærsla miður úr hendi, þá er honum innan handar að fara venjulega embættisleið. Hvað annars snertir embættisfærslu mína yfirleitt, þá get jeg sagt frá því, að jeg hefi í fórum mínum vottorð frá gömlum yfirboðara mínum, Júlíusi heitnum Havsteen amtinanni, og má af því vottorði ráða, að hann myndi ekki hafa talið mig vera skríl í sýslumannastjett. Þessi látni ágætismaður hefir þó fengið þann vitnisburð hjá þjóð sinni, að fáir munu væna hann um að hafa gefið slíkt vottorð, ef honum hefði ekki fundist jeg eiga það skilið.

En nú hefir hæstv. dómsmálaráðh. (JM) orðið tíðrætt um innræti ýmsra hv. þm., og má vel vera, að hann eigi við „prívat“-líf mitt, þegar hann telur mig vera skríl minnar stjettar. En þá kastar fyrst tólfunum. Mjer er það minnisstætt, frá því er jeg var drengur, að einum þm. varð það á, að bregða öðrum um, að hann hefði svikið stúlku. Sá maður beið þess ekki bætur í hugum alþjóðar langa stund, og sá eftir þessu skjótræði sínu alla æfi. — Annars býst jeg líka við, að sje skríll hjer inni í sölunum, og skuli það metið eftir „prívat“- lifnaði manna, þá muni hæstv. forsrh. (JM) ekki hljóta sjerlega háan vitnisburð.

Það, sem mjer hefir þótt merkilegast í öllum þessum umræðum, er í stuttu máli sagt það, að verið er að mynda nýjan þingtón úr sæti forsætisráðherrans. Og orðin, sem þaðan hrutu til mín, eru í fylsta samræmi við aðra framkomu hæstv. forsrh. (JM) í þessu máli. Hann hefir óspart látið orð falla um „barnaskap“ hv. þm. og um „heimsku“ þeirra, dróttað að sumum, að þeir væru „trúníðingar“, gert skop að þingmannshæfileikum þeirra, og ráðist að „innræti“ þeirra. Jeg tel ekki vel til fallið, að sá síður, að viðhafa slík orð, sem jeg nefndi, skuli vera innleiddur úr sæti hæstv. forsrh. (JM). Þá hafði hans gamli húsbóndi, sá er lengst hefir setið hjer í forsætisstól, og sem mynd er af hjer í salnum, alt annan sið. Hann sagði aldrei móðgandi orð til nokkurs manns, jafnskapmikill sem hann þó var, því að hann kunni að meta, hvað hann skuldaði stöðu sinni og hvílíka virðingu hann átti að bera fyrir henni. Það væri æskilegt, að hæstv. forsrh. (JM) kynni eins vel að meta sína stöðu. Jeg skal líka í þessu sambandi taka dæmi frá sambandsþjóð vorri, Dönum, því að jeg vænti þess, að hæstv. forsrh. (JM) muni telja flest gott, er þar gerist. Svo var mál með vexti, að maður einn, sem verið hafði ritstjóri um aldarfjórðung fullan og greitt hafði mótstöðumönnum sínum öllu þyngri högg en dæmi þektust til í því landi, hann komst í ráðherrastöðu. En þá breytti hann svo um tón, að hann er talinn með prúðustu mönnum í þeirri stöðu. Jeg veit, að hæstv. forsrh. (JM) hefir miklar mætur á danska ráðuneytinu, og því muni honum vera ljúft að taka það sjer til fyrirmyndar.

Hæstv. forsrh. (JM) taldi mig hafa verið með óþokkalega árás á sig. Jeg vil því til svars taka það fram, að jeg finn enga ástæðu til að draga neitt úr þeim orðum, sem jeg hefi látið falla í þessu máli. Jeg held því fram ennþá, sem jeg hefi áður tekið fram, að frv. þetta sje fram komið til að leiða huga manna frá lögregluhneykslum. Það er vitanlegt, að dómsmálastjórnin hefir sett mjög niður á síðari árum, og má hún vel vita, að jeg er ekki einn um þá skoðun. Jeg hefi m. a. fengið áskoranir frá þingmálafundum í mínu kjördæmi um að veita þessu efni sjerstaka athygli. Þennan pólitíska dóm er mjer rjett og skylt að bera fram, án minsta tillits til þess, að jeg er embættismaður.

Þegar hæstv. forsrh. (JM) telur það goðgá, að jeg felli dóm um hann hjer í hv. deild, þá vil jeg aftur til samanburðar bregða mjer til Danmerkur. Það ber líka svo vel í veiði, að hæstv. forsrh. (JM) vitnaði sjálfur í ræðu sinni til danska ráðuneytisins og taldi það íhaldsamt. En það átti í deilum út af helgisiðareglunum, sjerstaklega skírnarsiðunum, og í því máli hjelt Pastor Poulsen, fyrv. kirkjumálaráðherra, ræðu í þinginu, þar sem hann ber kirkjumálaráðherranum á brýn, að hann hafi „sveget og svigtet alle sine Idealer“. Þetta er margfalt þyngri dómur en sá, er jeg leyfði mjer að fella yfir hæstv. forsrh. (JM). Það var því áreiðanlega ekki jeg, sem hljóp á mig í gær.

Eitt var það, sem ræða hæstv. forsrh. (JM) bar ljóslega með sjer, það, hversu óslökkvandi hatur hann ber til mín. Það var enginn sjerstakur velvilji, sem kom fram í ræðu hans í garð hv. 3. þm. Reykv. (JakM), en þó var það smáræði hjá því, sem jeg varð fyrir hjá honum. En jeg skil þetta vel. Það er nefnilega algild regla um alla þá menn, sem ekki eru stórmenni, að þegar þeir hafa gert einhverjum manni rangt til, þá ala þeir upp í sjer hatur til hans. Sjálfur þóttist hæstv. forsrh. (JM) gera það af velvild til mín að taka í lurginn á mjer, kvaðst gera það til þess að jeg ofmetnaðist ekki. Jeg veit ekki, hvernig jeg á að skilja þetta; en næst er að halda, að hann með ræðusnild sinni hafi þóst drepa virðingu mína og álit hjer á þinginu. En þar hefir honum algerlega mistekist. Og hræðilega skjátlast honum, ef hann hefir svo mikið álit á ræðumannshæfileikum sínum, að hann heldur, að sjer nægi aðeins að opna munninn, til að knjesetja smælingja eins og mig. Þessi ræða hans var þó ekkert bráðræðisverk, því hann hefir „sofið upp á“ hana yfir nóttina, en þó er hún áreiðanlega sú langsamlega heimskasta ræða, sem haldin hefir verið á hinu háa Alþingi að þessu sinni — svo jeg noti hans eigin tón. Alt, sem hann hefir gert í þessu máli, síðan það kom fram, hefir verið örþrifaráð, sem hann hefir gripið til, vegna þess, að hann veit, hvað málstaður hans er frámunalega ljelegur.