11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get sagt líkt og frsm. fyrri kaflans (ÞórJ), að það hefir ekki neitt verulega verið veist að tillögum fjvn. við síðari hluta fjárlaganna. Þó var ein tillaga hennar, sem hæstv. fjrh. (JÞ) gerði sjerstaklega að umtalsefni, og það eru einmitt ummæli hæstv. ráðherra um þessa tillögu, sem komu mjer til að taka til máls aftur.

Jeg skal fyrst snúa mjer að hæstv. atvrh. (MG). Jeg bar fram af hálfu nefndarinnar tillögur um kæliskips- og frystihúsamálið og óskaði, að hæstv. ráðherra ljeti í ljós álit sitt um þær, sem hann hefir nú gert. Og þótt nefndin hafi ekki átt fund síðan, þori jeg að fullyrða, að hún er mjög ánægð með svör hæstv. ráðherra. Að minsta kosti skal jeg lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að jeg er mjög ánægður með svör hans.

Þá talaði hæstv. fjrh. skömmu síðar, en mjer fjell ekki eins vel að heyra ræðu hans, hvorki um þetta atriði eða önnur. Og ef jeg væri ekki frsm. fjvn., þá myndi jeg hafa talað harðar til hans en jeg geri nú.

En vel má vera, að síðar gefist tækifæri til að tala alvarlegar við hann.

Eina tillagan, sem hæstv. fjrh. talaði eiginlega á móti, var tillagan um hækkun á styrknum til Búnaðarfjelags Íslands, og eina tillagan, sem hann varaði við, var tillaga nefndarinnar í kæliskipsmálinu. Auk þessa talaði hann líka og mjög eindregið með styrknum til að gefa út kenslubækur við mentaskólann. Þetta er sjerstaklega eftirtektarvert að því leyti, að ekkert af þessu liggur undir verksvið þessa ráðherra. Hann er hjer að sletta sjer fram í mál, sem ekkert koma honum við, aðeins til þess að reyna að spilla fyrir þeim og sýna jafnframt myndugleik sinn.

Mjer þykir því hæstv. ráðherra breiða sig nokkuð langt út fyrir sitt valdsvið.

Þá talaði hæstv. fjrh. um breyttan hugsunarhátt frá í fyrra. Jeg er honum þar sammála. En sá breytti hugsunarháttur er ekki hjá fjvn., heldur fyrst og fremst hjá hæstv. fjrh.

Í fyrra voru það samtök hjá þingi og stjórn að spara alt sem mest og halda sem fastast í fje ríkissjóðs, til þess að hægt væri að borga af skuldum. En nú hefir hæstv. ráðherra alveg brugðist þessu, þar sem hann hefir gengið manna harðast fram í því að svifta ríkissjóð tekjum í tveimur verulegum atriðum. Það er því ekki hans dygð að þakka, þó að nú hafi gerst þau gleðitíðindi, að útlit er fyrir, að a. m. k. nokkrir menn úr hans flokki ætli að þora að standa á móti honum í því að láta ríkissjóð tapa 613 þús. kr. tekjum á þessu ári, sem hefði orðið, ef till. hæstv. ráðherra hefðu náð fram að ganga.

Þá sagði þessi hæstv. ráðherra, að varnarveggur fjvn. hefði bilað, en fór þó lofsamlegum orðum um stefnu hennar í fyrra. Út af þessum ummælum hæstv. ráðherra vil jeg minna hann á, að enn eiga sæti í nefndinni 6 sömu mennirnir og í fyrra, og hefir enginn þeirra skift skoðun síðan.

Það er því ekki nema um einn nýjan mann að ræða í nefndinni, háttv. þm. Dala. (BJ), enda hefir hann fundið hvöt hjá sjer til þess að taka þessi ummæli hæstv. ráðherra til meðferðar og lýst því skörulega yfir, að stefna nefndarinnar væri ekki hættuleg. Þessi ummæli hæstv. ráðherra eru þeim mun undarlegri í garð þessa manns, þegar þess er gætt, að hæstv. ráðherra lifir sem fjármálaráðherra einmitt á þessum manni. Það hefir hvað eftir annað sýnt sig á þessu þingi, og á eflaust eftir að sýna sig hjer betur mjög bráðlega.

Eins og jeg tók fram áðan, lagðist hæstv. fjrh. þyngst á móti tillögu fjvn. um að hækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands. Hann gekk svo langt í að mæla gegn tillögu þessari, að hann taldi mig hafa skýrt rangt frá kröfum búnaðarþings; þessu efni.

Jeg skýrði þannig frá, að búnaðarþingið hefði einróma óskað eftir að fá þessa upphæð, og meira að segja hærri.

En hæstv. ráðherra sagði, að nokkrir á búnaðarþinginu hefðu talið með því vera of langt farið. Til þess nú að færa full rök fyrir máli mínu, ætla jeg að lesa upp úr gerðabók búnaðarþingsins það, sem bókað er um þetta mál. Þar var farið fram á 220 þús. kr. styrk úr ríkissjóði, en var fallið frá því til samkomulags við fjvn. Það, sem bókað er, hljóðar þannig:

„7. fundur.

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

4. Fjárhagsáætlun Búnaðarfjelags Íslands 1925–26. Frá fjárhagsnefnd. 1. umræða. Frsm. Halldór Vilhjálmsson lagði fram bráðabirgðaáætlun fyrir fjelagið, skýrði hana og lýsti tilgangi nefndarinnar með þessu frumvarpi, sem væri sá, að fá samþykki þingsins fyrir því að fara með uppkastið á fund fjvn. neðri deildar Alþingis, og var samþykt í einu hljóði.“

Alt búnaðarþingið samþykti þannig í einu hljóði að æskja þess, að veittar yrði úr ríkissjóði árið 1926 220 þús. kr. til Búnaðarfjelags Íslands. Jeg þykist nú ekki þurfa að færa frekari sannanir á orð mín, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að farið verði að rengja þessa bókun.

Þessar till. búnaðarþingsins voru svo lagðar fyrir fjvn. Nd. Vildu sumir nefndarmanna hafa styrkinn hærri en 200 þús. kr., en aðrir vildu aftur hafa hann lægri. Varð það því að samkomulagi í nefndinni að leggja til, að styrkurinn yrði 200 þús. kr. Þessa fjárveitingu bar nefndin svo fram óskift. Út frá þessari upphæð gekk svo búnaðarþingið. Er því ekki undarlegt, þó að nefndin vilji standa við, að styrkurinn verði það, sem hún lagði til í fyrstu.

Þá vjek hæstv. fjrh. að því, að mjög ótryggilega væri um þessa fjárveitingu búið, svo ótryggilega, að það væri engin fjárveiting, sem þingið hefði jafnlitla íhlutun um og eins illa væri grein fyrir gerð. Þetta er að því leyti rjett, að jeg hefi ekki lesið upp áætlun búnaðarþingsins fyrir hv. deild lið fyrir lið. En hún lá fyrir fjvn. til athugunar, og jeg tel fjvn. Nd. eiga að vera trúnaðarmann þingsins í þessu efni. Enda skil jeg ekki annað en það sje óhætt. Í vetur kom fjhn. búnaðarþingsins á fund hjá fjvn. Nd., og skýrði form. hennar alla fjárhagsáætlun Búnaðarfjelagsins í viðurvist hæstv. atvrh. Það er því næsta undarlegt, eftir alt það lof, sem hæstv. fjrh. bar á fjvn. í fyrra, og í henni eiga nú sæti 6 sömu mennirnir, að hann skuli ekki treysta henni að sjá um, að fje þessu sje forsvaranlega varið. Hinsvegar er líka búnaðarþingið ekki neitt óvirðuleg samkoma. Þar eiga sæti fulltrúar bænda hvaðanæfa af landinu. Til þess þá að það komi fram, hverjir það eru, sem ráða yfir þessu fje, og hvort þeim sje ekki trúandi til að gera það vel, skal jeg nefna nöfn þeirra fulltrúanna: Úr Vestfirðingafjórðungi eru Magnús Friðriksson, form. Búnaðarsambands Snæfellsness og Dala, og Kristinn Guðlaugsson á Núpi, form. Búnaðarsambands Vestfjarða. Úr Norðlendingafjórðungi eru Sigurður Hlíðar, dýralæknir á Akureyri, form. Ræktunarfjelags Norðurlands, Sigurður Baldvinsson bóndi á Kornsá og Jakob Líndal bóndi á Lækjarmóti. Úr Austfirðingafjórðungi Björn Hallsson bóndi á Rangá, sem lengi hefir átt sæti hjer í hv. deild, og Hallgrímur Þórarinsson bóndi á Ketilsstöðum. Úr Sunnlendingafjórðungi Guðmundur Þorbjörnsson bóndi á Stóra-Hofi, form. Búnaðarsambands Suðurlands, og Magnús Þorláksson bóndi á Blikastöðum. Auk þessa skólastjórarnir á Hvanneyri og Hólum. Allir þessir 11 menn eru mjög mikils metnir meðal bænda. Jeg er ekki að bera lof á þessa menn af pólitískum ástæðum, því að þeir eru sumir pólitískir andstæðingar mínir. Þrír af þessum mönnum voru frambjóðendur Íhaldsflokksins við síðustu kosningar, svo að hæstv. fjrh. ætti að sjá, að hjer er ekki um óvalda menn að ræða.

Hinn 12. læt jeg liggja milli hluta, því að það er jeg sjálfur.

Að það sje ótryggilegt, hvernig búið er um, hversu fje þessu er varið, tel jeg mikla móðgun við þessa menn, og leyfi mjer því að mótmæla þeim aðdróttunum hæstv. fjármálaráðherra.

Þá er að minnast stjórnar Búnaðarfjelags Íslands og hversu vel hún muni vera fær um að gæta þess, hversu fje þessu er varið. í henni sitja fyrst og fremst tveir menn kosnir af landbúnaðarnefndum Alþingis, og eru það ritstjórar aðalmálgagna Framsóknar- og Íhaldsflokkanna, svo að gera má ráð fyrir, að þeir njóti einhvers trausts hvor hjá sínum flokki. Þriðji maðurinn, skrifstofustjóri Oddur Hermannsson, er maður, sem nýtur alveg óvenjulega mikils trausts nálega hjá öllum og hjá öllum stjórnmálaflokkum, maður, sem jeg hika ekki við að segja, að menn yfirleitt beri mest traust til af öllum, sem eru í því hvíta húsi stjórnarráðsins. Jeg vil mótmæla því kröftuglega, að þessum manni sje borin á brýn óforsvaranleg meðferð á fje.

Jeg mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta. En jeg taldi skyldu mína að svara þessu, þar sem jeg er sá eini maður á þessu þingi, sem get borið hönd fyrir höfuð þessarar stofnunar og tekið upp fyrir hana þykkjuna.

Jeg mun ekki víkja hjer nema að mjög fáum brtt. hv. þm. Á sumar þeirra, svo sem till. um lán til handa sýslumanni í Vestmannaeyjum, hefir hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) talað, og get jeg ekki verið að endurtaka neitt af því. En jeg þarf að víkja nokkrum orðum að hæstv. fjrh. (JÞ) út af ummælum hans um frystihúsa- og kæliskipsmálið. Hann fór talsvert inn á það mál alment, og ef ekki væri svo áliðið þingtímann og mönnum ant um, að umr. lengist ekki mikið, þá hefði jeg farið lengra út í þetta mál en nú verður.

Hæstv. fjrh. byrjaði ræðu sína með því að segja, að sjer hefði orðið vonbrigði að lesa nál. kæliskipsnefndarinnar. Jeg get sagt það sama, að jeg varð fyrir vonbrigðum eins og hæstv. ráðherra (JÞ), er jeg komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unt að byggja aðallega á kældu kjöti til útflutnings, og það er rjett, að útlitið er þá ekki eins glæsilegt eins og virtist meðan menn bjuggust við því, að það mætti koma öllu kjötinu út kældu, því að verðmunur er á kældu kjöti og frystu, þótt hann að vísu sje ekki eins mikill og jeg og margir hjeldu áður og hæstv. ráðh. (JÞ) virtist halda. En nú hefir síðan komið fram nýtt. atriði, sem veldur því, að það má gera sjer nokkru meiri vonir um útflutning á kældu kjöti. Það, sem við bygðum okkar álit á, voru tilraunir S. í. S. um að flytja út kælt kjöt. En síðan hefir nefndin átt tal við fagmann, verkfræðing danskan, og hann hefir gefið þær nýju og merkilegu upplýsingar, að með þeim tækjum og umbúnaði, sem er á kælirúmunum í Gullfossi, þá verði ekki hægt að geyma kjöt óskemt lengur en í viku. En ef kælirúmið er þannig útbúið, að þar geti haldist fullkomin og sífeld loftnás, þá megi geyma kjötið án skemda í alt að þrjár vikur. Svo að það, sem við hjeldum að ekki gæti orðið nema í mjög smáum stíl, lítur út fyrir, eftir þessu, að geta orðið til þó nokkurra muna. En samt taldi þessi maður, að þessum útflutningi fylgdi svo mikil áhætta, að ekki kæmi til mála að flytja út verulega mikið af kældu kjöti nema að hafa frystihús að baki sjer. Við nánari athugun hefi jeg því gert mjer á ný nokkrar vonir um útflutning á kældu kjöti, en samt er hitt ljóst, og á það legg jeg áherslu, gagnstætt hæstv. ráðherra (JÞ), að það er ekki forsvaranlegt að hafa svo í áhættu aðalframleiðslu sveitanna, nema hafa jafnframt frystihús, sem hægt sje að nota jafnframt og nota aðallega. Annars virðist mjer framtíðin megi kallast mjög glæsileg í þessu efni, jafnvel þótt útflutningur á kældu kjöti verði ekki eins mikill og menn gerðu sjer vonir um, áður en nál. kæliskipsnefndarinnar kom út. Því að jeg geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. fjrh. vilji rengja skýrslur þær frá Englandi um verð á frystu kjöti, sem nefndin varð sje úti um og bera með sjer, að það er mjög glæsilegt að flytja fryst kjöt til Englands hjá því að selja það saltað, eins og nú er gert. Ummæli hæstv. ráðherra (JÞ) hagga því að engu leyti skoðun minni og vonum, og hygg jeg, að honum takist ekki að drepa niður áhuga og framkvæmdir bænda.

Þá eru till. einstakra þm., sem jeg vildi minnast á og lýsa afstöðu fjvn. til þeirra. En um það get jeg verið stuttorður, því að annarsvegar eru þessar till. kunnar áður hjer frá fyrri umr. fjárlaganna og þá ræddar, og afstaða nefndarinnar óbreytt gagnvart þeim, en hinsvegar hefir nefndin sama sem engan tíma haft til að athuga till., og á þeim eina fundi, sem hún hefir getað haldið um þær, hafði nefndin ekki fyrir sjer allar þær ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir mörgum till., svo að hún gat ekki tekið fulla afstöðu til þeirra allra.

Hvað snertir brtt. á þskj. 486,1. hefir nefndin ekki getað tekið afstöðu til hennar, og eru því um hana óbundin atkvæði.

Um brtt. hv. þm. Barð. (HK) um að fella styrk til Staðarfellsskólans, þá er meiri hluti nefndarinnar á móti henni, eins og ráða má af því, að hún ljet þá fjárveitingu standa óbreytta eins og hún kom frá hv. Ed. En annars skal jeg ekki fjölyrða um þá till., því að bæði hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. Dala. (BJ) hafa talað rækilega á móti henni. Jeg get aðeins bætt því við frá minni hálfu, af því að mjer er kunnugt um starf þessarar konu, sem hugsað er að taki að sjer forstöðu þessa skóla, að því leyti sem hún hefir starfið fyrir Búnaðarfjelagið, að það, sem hjer ræður mínu atkvæði, er það sjerstaka traust, sem jeg ber til hennar til þess að standa fyrir húsmæðraskóla í sveit. Það væri mikið tjón, ef við mistum af starfskröftum þessarar konu, en það er full ástæða til þess að óttast það, ef hún fær ekki þetta verkefni nú. Mjer er kunnugt um það, hvernig fólki líkaði við námsskeið þau, sem hún hefir haldið víða um land, og að hve miklu gagni þau hafa komið. Það er einróma álit, að hún sje gædd ágætum kennarahæfileikum. Það er einnig alkunnugt, að gagnið af slíkum stofnunum sem þessari fer eftir því, hversu það tekst að fá hæfa menn til þess að veita þeim forstöðu. Og jeg er ekki í vafa um það, ef ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir verður hjer forstöðukona, þá verður þetta myndarleg stofnun og gagnleg. Jeg vil því eindregið mælast til þess, að till. hv. þm. Barð. (HK) verði feld. Jeg þekki líka bróður Sigurborgar, sem ráðgert er að verði ráðsmaður á skólabúinu. Hann hefir verið ráðsmaður hjá Thor Jensen uppi í Mosfellssveit, á stærsta búi, sem hjer er til. Jeg er viss um það, af því að jeg er manni þessum persónulega kunnugur, að hjer yrði um óvenjulegan myndarbrag að ræða, ef Staðarfellsskólinn yrði undir stjórn þeirra systkina. Og það mundi verða mikið tjón fyrir landbúnaðinn og menningu sveitanna, ef látið yrði vera að stofna hann nú.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) á hjer brtt. við styrk til sundlauga og sundkenslu. Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, að of miklu fje sje hjer varið í einn stað, en hefir annars óbundin atkvæði um þetta.

Þá hefir nefndin óbundin atkv., þótt meiri hluti leggi á móti till. hv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um tvo skáldastyrki, og eins hvað snertir styrk til Soffíu Guðlaugsdóttur leikkonu.

Hv. þm. Árn. flytja hjer till. um að hækka styrkinn til sandgræðslu um 3 þús. kr. Þegar nefndin hjelt fund um þetta, þá bjóst hún við, að þessi hækkun væri gerð í því skyni að reisa við sjóvarnargarðinn á Eyrarbakka, og var hún því mótfallin. En það hefir nú komið í ljós, að þetta fje er ætlað til sandgræðslu í Selvogi, en síðan hefir nefndin ekki haldið neinn fund og því enga afstöðu til till. tekið.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara neitt sjerstökum orðum um meginið af þessum till. Það eru flest afturgöngur frá 3. umr. og ræddar þá, og í annan stað er orðið svo fáment í salnum, að þýðingarlaust er að vera að halda langar ræður fyrir þingtíðindin. Jeg vil aðeins geta þess viðvíkjandi till. hv. þm. N.-M. (ÁJ og HStef), um styrk til Lúðvíks Jónssonar, að nefndin hefir hjer óbundin atkv. En eins og menn muna, þá var meiri hl. nefndarinnar með lægri upphæð í þessu skyni við 3. umr., og býst jeg við, að honum þyki hjer of hátt farið. En skoðun minni í þessu efni hefi jeg áður lýst.

Þá hafa hjer fram komið ekki fáar till. um ábyrgðarheimildir ríkissjóðs fyrir ýmsum lánum, til Akureyrarkaupstaðar, til Búðahrepps, til tóvinnufjelags Vestfjarða o. fl. Allmikill meiri hluti nefndarinnar er sammála hæstv. fjrh. (JÞ) um það að láta engar slíkar ábyrgðir koma í fjárlögin.

Síðan nefndin átti síðast fund, hafa komið fram ýmsar till., sem hún hefir því enga afstöðu getað tekið til. Jeg get þá lokið að tala um afstöðu nefndarinnar. En að lokum vil jeg minnast á nýja till., sem jeg flyt hjer ásamt hv. 2. þm. Rang. (KIJ), um að veita Steini Dofra styrk til ættfræðirannsókna. Jeg get skrifað undir hvert orð, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um þetta atriði. Mjer þykir fara vel á því, að Alþingi gefi þessum óvenjulega gáfaða manni kost á því að koma heim aftur eftir sína hörðu útivist. Hjer eru margir menn, sem áhuga hafa á ættfræði, en að einum manni undanskildum, Hannesi Þorsteinssyni skjalaverði, eru þeir „allir börn hjá Boga“ samanborið við Stein Dofra. Hann er alveg frábærum gáfum gæddur til þess að tengja saman hina slitnu þræði í ættvísi okkar og sagnfræðum á 14., 15. og 16. öld. Og það mundi verða þessum fræðum til hins mesta gagns, ef Steinn Dofri gæti horfið heim aftur og starfað óskiftur í þeirra þágu.