05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

32. mál, varalögregla

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. dómsmálaráðherra (JM) ætla jeg ekki að svara neinu að þessu sinni. Það er að vísu ýmislegt, sem okkur ber á milli, en þessari síðustu ræðu hæstv. ráðh. var svo í hóf stilt, að jeg þarf eigi að svara henni. Háttv. þm. Ak. (BL) ætla jeg heldur ekki að svara neinu; hann tókst það á hendur, að vanda um fyrir oss deildarmönnum, um orðbragð og hegðan alla, en hann var svo óheppinn, að hann varð sá eini þm., sem hæstv. forseti fann sig knúðan til að ávíta fyrir ósæmilegan munnsöfnuð og óþinglegt framferði. Jeg verð að segja hið sama og háttv. þm. V.-Ísf. (AA), að mjer leið illa, meðan háttv. þm. Ak. (BL) hjelt þessa ræðu sína, og af hvaða ástæðum það var, geta aðrir háttv. þm. getið sjer til.

En það var hæstv. fjrh. (JÞ), sem jeg þarf að svara nokkrum orðum; því hann hefir sýnt mjer þann sóma að standa óðar upp, er jeg settist niður, til þess að andmæla mjer, enda hefi jeg oftar haft þann heiður, að geta hleypt dálitlu fjöri í hann. Það var um fjárlagahlið þessa máls, sem hæstv. ráðh. (JÞ) talaði í minn garð, vildi kenna mjer þingsköp og taldi mig næsta ófróðan. Hæstv. fjrh. (JÞ) er eldri maður og þm. en jeg, og því fór ekkert illa á því, að því leyti, er hann fór að kenna mjer þingsköp og önnur fræði þingmanna. Hann gerði þetta með allmiklum þótta, eins og honum er lagið, og var því líkast, að þar kendi sá, er valdið hefði — enda er hann mjer eldri miklu. En þó held jeg, að hver óbreyttur þm. mundi hafa staðið betur að vígi en hæstv. fjrh. um að setja sig í kennarasætið í þessum efnum. Jeg hefi hjer fyrir framan mig Alþingistíðindi frá 1921 (D. 581), og sje þar, að háttv. þm. (JÞ) hefir þá verið víttur fyrir þingsafglöp í meira lagi; hann hefir þá meira að segja orðið að biðja um fyrirgefning á þingsafglöpum sínum (Alþt. 1921, D. 590).

Svo hefi jeg í öðru lagi fyrir mjer B-deild Alþingistíðindanna frá í fyrra, og sje þar, að í umræðunum um fjárlögin hefir forseti Nd. úrskurðað 2 till. frá hæstv. fjrh. (JÞ) fara í bág við og vera móti anda stjórnarskrár ríkisins, og því vísað þeim frá. Þannig hefir hæstv. fjrh. (JÞ) einnig viljað fremja tvö stjórnarskrárbrot (Alþt. 1924, B. 1116). Svona er hann nú að sjer, kennarinn minn í þingsköpum! Og þó að jeg sje að mun yngri maður en hann, get jeg vart litið upp til hans með þeirri alvöru eða virðing, sem vænta mætti um kennara minn, eftir þessar hrakfarir hans.