05.05.1925
Neðri deild: 72. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

32. mál, varalögregla

Frsm. minnihl. (Jón Kjartansson):

Þegar mál þetta var til 1. umr. hjer í hv. deild, virtist í rauninni enginn ágreiningur vera um það, að nauðsyn bæri til að efla löggæsluna í landinu á einhvern hátt. Menn greindi ekki heldur á um, að sú skylda hvíldi á ríkisvaldinu, að gæta rjettaröryggis í landinu, sjá um, að borgarar þjóðfjelagsins geti öruggir treyst því.

Um þessi tvö atriði voru menn sammála, að því er virtist, en lengra náði samkomulagið ekki. Má það þó undarlegt heita, þar sem þetta er aðalatriði málsins. Hitt er miklu meira aukaatriði, hver leið er til þess valin, að ná settu marki.

Um leið og hæstv. forsrh. (JM) flutti þetta frv. hjer í hv. deild, lýsti hann skýlaust yfir því, að hann legði enga sjerstaka áherslu á, að sú leið yrði nákvæmlega þrædd, sem í frv. segir. Hæstv. forsrh. kvaðst vera fús til að styrkja hverjar aðrar till. í þessu efni, er menn kynnu að gera og hagkvæmar þættu, aðeins ef takmarkinu yrði náð, að efla löggæsluna í landinu, án þess að íþyngja ríkissjóði um of. Ennfremur lýsti hæstv. forsrh. því, hvernig hann hugsaði sjer fyrirkomulag og framkvæmd á þeirri varalögreglu, sem stungið er upp á í stjfrv. En umr. hjer í hv. deild fóru mjög á víð og dreif, og langt út fyrir þau takmörk, sem hæstv. forsrh. hafði markað með skýringu sinni á frv. Umr. snerust mest um það, hvað hugsanlegt væri að láta framkvæma samkv. frv., ef það yrði óbreytt að lögum.

Ef hv. andmælendur frv. hefðu getað rætt málið á þeim grundvelli, sem hæstv. forsrh. lagði í framsögu sinni, þá hefðu menn ekki þurft að hlusta á staðhæfingar þeirra um, að hjer ætti að koma upp hundruð, eða jafnvel þúsund manna hersveitum, sem kostuðu ríkissjóð miljónir árlega. Hv. andmælendur frv. vissu mætavel, að sá var aldrei tilgangur hæstv. stjórnar, að koma á fót slíku liði sem þeir drógu upp mynd af hjer við 1. umr.

Minnihl. allshn. álítur mál þetta svo mikilsvert, að það eigi fram að ganga, og í þeirri von, að hv. þdm. vilji ræða málið í alvöru, hefir hann fært frv. Í þann búning, sem hæstv. stjórn ætlaðist til að það yrði í framkvæmdinni. Vill minnihl. því vona, að hv. deild ræði málið eins og það nú liggur fyrir, en hætti að bera fyrir sig allskonar fjarstæður um vopnaðan her o. s. frv.

Eins og hæstv. forsrh. tók fram, er varalögreglu einkum, og máske eingöngu, þörf hjer í Reykjavík. Ætlast minnihl. til, að í Reykjavík muni nægja 100 manna sveit, og er það einnig í samræmi við uppástungu hæstv. forsrh. (JM). 100 röskir menn, vel samæfðir og undir góðri stjórn, fá ótrúlega miklu áorkað, og jeg er viss um, að sú sveit mun nægja í flestum og öllum venjulegum tilfellum.

Minnihl. er þeirrar skoðunar, að ekki sje þörf á að stofna varalögreglulið í öðrum kaupstöðum landsins, nema ef vera kynni á Siglufirði, og einnig hefir verið bent á Ísafjörð. Jeg skal ekkert fullyrða um nauðsyn varalögregluliðs á þessum stöðum, en þó að þess þurfi þar með, þá þarf það ekki að vera fjölment, enda er gert ráð fyrir, að 10 manna sveitir muni nægja. Annarsstaðar ætlast minnihl. ekki til, að varalögregla verði stofnuð, og telur þess heldur enga þörf.

Jeg vil geta þess hjer, að verði frv. samþ. með brtt. minnihl., þá lít jeg svo á, að starfsvið varalögreglunnar verði ekki einskorðað við það lögsagnarumdæmi, sem hún aðallega starfar í. Þetta er lögreglulið, sem ríkisvaldið hefir til umráða, og þessvegna ekkert því til fyrirstöðu, að það verði notað fyrir utan sitt staðarlögsagnarumdæmi. T. d. get jeg nefnt, að sjálfsagt má senda varalögreglulið Reykjavíkur til Hafnarfjarðar, út á Seltjarnarnes o. s. frv., ef þar verða óeirðir, eða hremma þarf smyglaraskip o. fl. þessháttar, og lögreglan þar á staðnum eigi reynist nægileg.

Í 2. gr. stjfrv. ert sú kvöð lögð á alla karlmenn á aldrinum 20–50 ára, að gegna kvaðningu í varalögreglu, og þessi skylda hvílir ótakmarkað á mönnum, innan áðurnefndra aldurstakmarka, ef sjúkdómar eða önnur slík forföll eru ekki fyrir hendi. þessu vill minnihl. breyta. Í fyrsta lagi vill hann færa aldurshámarkið niður í 40 ár, í stað 50 ára. Það er að mörgu leyti óheppilegt, að lögreglumenn sjeu mjög gamlir. Mun best vera, að þeir sjeu einmitt á aldrinum 20–40 ára.

Í öðru lagi leggur minnihl. til, að skylda hvers einstaklings til að gegna varalögreglustörfum verði takmörkuð við 5 ára tímabil. Þessi takmörkun er í samræmi við ýms önnur ákvæði í gildandi lögum, þar sem kvaðir eru lagðar á herðar borgaranna, að gegna ýmsum störfum til almenningsþarfa um vissan tíma. Má þar t. d. nefna hreppsnefndarstörf, skóla- og fræðslunefndarstörf og mörg önnur samskonar störf.

Í stjfrv. er svo til ætlast, að varalögreglumenn fái enga þóknun fyrir starfa sinn, að undanskildum forstöðumönnum og flokksforingjum. Þetta finst minnihl. ekki sanngjarnt ákvæði, þar sem sú kvöð er lögð á fáa borgara þjóðfjelagsins, að taka þátt í aukinni löggæslu sjerstaklega, með kvaðningu í varalögregluliðið, þá þykir minnihl. órjettmætt, að þeir fái enga þóknun fyrir starf sitt. En þar sem minnihl. býst við, að örsjaldan þurfi að grípa til varalögreglunnar, þá litur hann svo á, að þóknunin þurfi ekki að vera föst laun, heldur sje rjettara að sníða hana við tímann, sem gengur til starfans. Er þar að sjálfsögðu bæði átt við þann tíma, sem gengur til æfinga og undirbúnings, og svo tímann, sem gengur til lögregluverkanna sjálfra.

Mjer þykir leiðinlegt, að hv. frsm. meirihl. (BSt) skyldi ekki geta rætt málið á þeim grundvelli, sem minnihl. nú hefir lagt með brtt. sínum, heldur skyldi hann enn koma með órökstuddar staðhæfingar um, að kostnaðurinn muni skifta hundruðum þúsunda árlega. (BSt: Þetta er ekki rjett hermt!) Ef hv. þm. (BSt) álítur, að kostnaður við hvern varalögreglumann verði ekki undir 1000 kr. árlega, þá nálgast allur kostnaðurinn hundruð þúsunda. En auðvitað nær þetta ekki nokkurri átt.

Jeg skal nú skýra ofurlítið nánar, hvernig minnihl. ætlast til, að kostnaðarhliðin líti út, ef varalögregla verður sett á stofn.

Til æfinga fer að sjálfsögðu langmestur tími fyrsta árið, en úr því mun sáralítill tími ganga til þeirra. Minnihl. hyggur það hagfeldast, að varalögreglumenn fái einhverja fasta þóknun fyrir æfingarnar. Hversu há sú þóknun á að vera, getur altaf verið álitamál, en minnihl. hefir stungið upp á 50–100 kr. á ári. þegar þess er gætt, að æfingarnar verða ágætasta leikfimi, þá er jeg ekki í neinum vafa um, að menn muni sækja þær með mikilli ánægju. Jeg þarf varla að geta þess, að ekki þarf að leggja í neinn sjerstakan kostnað vegna byggingar húss til æfinga, eins og hv. meirihl. virðist gefa í skyn. Til að æfa svo fáment lið, má vitanlega nota leikfimishús þau, sem ríkið á fyrir.

Þá er þóknun varalögreglumannanna við starfið sjálft. Minnihl. ætlast til, að hún verði miðuð við þann tíma, sem þeir verja til starfans. Hyggur minnihl., að best muni vera og hagkvæmast, að fyrirkomulag varalögreglunnar verði að þessu leyti svipað því, sem haft er við slökkvilið Reykjavíkur. Í því eru nú 50 manns, og þar af 9 fastir starfsmenn á slökkvistöðinni sjálfri, og hafa þeir föst laun. Hinir hafa ekki föst laun, en fá þóknun í hvert skifti, sem þeir eru kvaddir. Sú þóknun er 6 kr. fyrir kvaðningu og fyrsta kl.-tímann, en 3 kr. fyrir hverja kl.stund, sem þeir vinna þar fram yfir.

Eitthvað á þennan veg vill minnihl. haga þóknun til varalögreglusveitarinnar. Er ekki ætlast til, að hún fái föst laun, heldur ákveðið tímakaup, en þó mætti jafnframt setja eitthvert hámark, t. d. fyrir hvern sólarhring, ef mönnum þætti kostnaðurinn verða of mikill ella. Þó er einn maður, sem þarf að fá fasta þóknun fyrir starf sitt við varalögregluna, en það er forstöðumaður sveitarinnar hjer í Reykjavík. En þar sem búast má við, að starf hans verði ekki umfangsmikið, þarf sú þóknun ekki að vera mikil, enda ætlast minnihl. til, að hann hafi jafnframt annað fast starf með höndum. Hefir minnihl. bent á, að fyrir margra hluta sakir væri æskilegast, að fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík eða yfirlögregluþjóni bæjarins væri jafnframt falin forstaða varalögreglunnar í bænum. Þessir menn hafa að staðaldri æfingu í lögreglustjórn. Þeir stjórna hinu fasta lögregluliði bæjarins, og ef annar þeirra fengi jafnframt forstöðu varalögreglunnar, þá myndi það tengja lögregluliðið fastara saman, og yrði að því styrkur fyrir bæði liðin, jafnframt því sem það gerði varalögreglusveitina vinsælli en ella. Ef öðrum hvorum þessara manna yrði falin forstaða varalögreglunnar, þá leiðir af sjálfu sjer, að sá þyrfti að búa sig sjerstaklega undir það starf.

Yfirleitt verður ekki með neinni vissu sagt, hversu mikill árlegur kostnaður við varalögreglusveit getur orðið. Það fer auðvitað mikið eftir því, hversu oft þarf að kveðja liðið til starfa, en um það getur enginn sagt. Er þá auðvelt fyrir hv. andmælendur málsins að teygja ímyndaðan kostnað í það óendanlega. En jeg vona, að allir hugsandi menn, sem vilja líta sanngjörnum augum á málið, geti orðið minnihl. sammála um, að kostnaðurinn muni ekki fara fram úr 10–15 þús. kr. árlega.

Jeg geri fastlega ráð fyrir, að örsjaldan þurfi að gripa til þessa væntanlega varalögregluliðs. Í flestum tilfellum mun vitneskjan um, að það sje til, nægja til að halda mönnum í skefjum, og væri það æskilegast.

Hv. frsm. meirihl. (BSt) vildi gera feikna grýlu úr stofnkostnaði varalögreglusveitar. Taldi hann óhjákvæmilegt að leggja hverjum varalögreglumanni til einkennisbúning, sem kostaði alt að 700 kr., eða m. ö. o., að þeir fengju samskonar búninga sem hinir föstu lögreglumenn. Minnihl. hefir lagt til, að einkennisbúningur varalögreglumanna verði með svipuðum hætti og búningar slökkviliðs Reykjavíkur eru nú. Slökkviliðsmennirnir hafa ljettar kápur, sem um leið eru ágæt hlífðarföt. Þær eru ódýrar, kosta aðeins 45 krónur, en þó mun hv. frsm. meirihl. (BSt) ekki geta vefengt, að þær eru einmitt mjög heppilegar handa varalögreglumönnum. Þær eru níðsterkar, hafa nú enst slökkviliðinu í 3 ár, og sjer þó ekki á þeim enn. Að sjálfsögðu þyrftu kápur varalögreglunnar að vera öðruvísi litar en kápur slökkviliðsins, og getur hæstv. stjórn ákveðið litinn.

Slíkar kápur eru einnig heppilegar vegna þess, hve fljótlegt er að fara í þær, ef bráðan ber að, og geta menn sem best notað þær utan yfir sín eigin föt, og þurfa þá ekki að hafa fataskifti, þegar þeir eru kvaddir til lögreglustarfanna. Einkennishúfur þyrftu varalögreglumenn einnig að hafa, og myndu þær kosta ca. 15 kr.

Í nál. okkar minnihl. er allur búningur áætlaður 100 kr. að meðaltali á mann, en sá kostnaður er vafalaust fullhátt áætlaður, meira að segja alt of hátt, ef, eins og við ætluðumst til, líkir búningar verða notaðir og slökkviliðið í Rvík hefir.

Þá eru það tækin. Hv. andmælendur frv. voru að tala um vopn, byssur og jeg veit ekki hvað annað, við 1. umr. þessa máls. Auðvitað var það alt út í loftið. Vitanlega þurfa þessir varalögreglumenn að hafa þau sömu tæki, og þau tæki ein, sem aðrir lögreglumenn hafa, þ. e. kylfur. Ágætar gúmmíkylfur, sem lögregluþjónar bæjarins nota, kosta 15 krónur.

Ef því farið er eftir till. minnihl., þá er ekki hægt að rengja, að allur stofnkostnaðurinn yrði þessi: Búningur liðsins, þ. e. 20 manna, þar af 100 í Reykjavík, 10 á Siglufirði og 10 á Ísafirði, ca. 100 kr. á mann eða 12000 kr., kylfur 1800 kr. Samtals 13800 kr. Ef Reykjavík ein fengi varalögreglu, yrði stofnkostnaðurinn 11500 kr. Ennfremur má gera ráð fyrir, að einhverju fje þurfi að kosta til undirbúnings forstöðumannsins. Hann yrði að kynna sjer, hvernig slíkum varalögreglusveitum væri og ætti að haga. Ætlum við, að nægja myndu 5000 kr. í því skyni. Þetta, sem jeg nefndi, er því sá raunverulegi stofnkostnaður, sem varalögreglan myndi hafa í för með sjer, og enginn annar. Það er alger misskilningur hjá hv. frsm. meirihl. (BSt), að kostnaðurinn muni fara langt fram úr þessu, og alveg rangt af honum að vilja ekki ræða um þessa kostnaðaráætlun okkar. (BSt: Sagðist ætla að láta það bíða.) Þá hefði hann jafnframt átt að láta bíða að ræða um ímyndaðan kostnað, svo sem það, að hann yrði 75 þús. kr. eða meiri. Því hann sagði, að hann myndi fara fram úr framlagi Alþingis til heilsuhælisfjelags Norðurlands, að mjer skildist. Nei, það er áreiðanlega ekki með góðri samvisku, þegar menn eru að gera sjer þessar kostnaðargrýlur, því ef rjettilega er á haldið, þá er kostnaðurinn svo nauðalítill, að það er ómögulegt, að hann geti hindrað framgang þessa nauðsynjamáls, ef það annars er vilji Alþingis að efla lögregluna í landinu.

Síðasta brtt. okkar við 4. gr. er eingöngu sú, að nánari ákvæði um varalögregluna skuli sett með reglugerð, en ekki með konunglegri tilskipun. Er þetta í samræmi við aðrar brtt. okkar, en eins og frv. kom frá hæstv. stjórn, var sjálfsagt, að ákvæðin væru sett með konunglegri tilskipun, en ekki með reglugerð.

Hv. frsm. meirihl. (BSt) hjelt þeirri skoðun fram, sem einnig kemur fram í nál. hv. meirihl., að heppilegra sje að fara aðra leið en þá, sem hjer er stungið upp á, til þess að efla lögregluna í landinu, sem sje þá, að ríkið leggi fje af mörkum til kaupstaðanna, til að styrkja þá í löggæslunni.

Þegar nú á það er litið, að Reykjavíkurbær einn leggur nálega 90.000 kr. til löggæslunnar á ári, þá ætti öllum hv. þdm. að vera það ljóst, að það segði í rauninni tiltölulega lítið fyrir hann, þótt hann fengi styrk úr ríkissjóði, er næmi 10–20 þús. kr. þ. e., að 3–6 menn kæmu í viðbót við þá lögreglu, sem nú er. Hitt er þó meira um vert, og það verður Alþingi að gera sjer enn ljósara, að þó að þessi leið, sem hv. meirihl. stingur upp á, væri farin, þá yrði ekki þar með trygt, að löggæslan í landinu yrði örugg, nema þá, sem jeg býst ekki við, að sje ætlun hv. meirihl., að lagt yrði næstum ótakmarkað fje fram í þessu skyni.

Segjum, að Reykjavíkurbær fengi 20 þús. kr. styrk til löggæslu, sem ekki er fjórði partur af því, sem hann leggur sjálfur fram, þá myndi lögreglumönnunum fjölga um 6 menn, svo að 20 manna sveit yrði í bænum. Hvað segði það? Að sjálfsögðu myndi þessi styrkur styrkja lögregluna í hinum daglegu störfum, eins og hv. frsm. meirihl, (BSt) virtist leggja aðaláherslu á, en hitt er víst, að þótt lögreglunni fjölgaði um þessa 6 menn, þá yrði hún ekki nándarnærri nógu örugg nje öflug í þeim tilfellum, sem vitanlega geta komið fyrir og hafa komið fyrir, þar sem sjerstaklega þarf á öflugri löggæslu að halda. Hvað yrði þá unnið með því, að fara þá leið, sem hv. meirihl. vill fara? Það, sem við mundum vinna, er það, að við höfum varið miklu meira fje en til varalögreglunnar, án þess að ná því markmiði, sem við settum okkur: að gera lögregluna í landinu nægilega öfluga.

Þá sagði hv. frsm. meirihl. (BSt), og ennfremur kemur það fram í nál. meirihl., að löggjafarvaldið þyrfti ekki að koma upp varalögreglu, til þess að sjá um, að löggæslan væri örugg í einstaka tilfellum, því að nægilega væri sjeð fyrir því í gildandi lögum, að vandræði hlytust ekki af slíku. Hv. frsm. meirihl. (BSt) tók það rjettilega fram í þessu sambandi, að það er ætlun minnihl. og hæstv. stjórnar, að varalögreglan sje til taks, er sjerstaklega stendur á, en gegni ekki daglegri löggæslu. En þá skoðun sína, að varalögreglan sje óþörf í slíkum tilfellum, styðja hv. andmælendur við það, að í lögum sje sú skylda lögð á almenning, að gegna skipun lögreglunnar, þegar þess er krafist. Vitna þeir í lög nr. 1, 3. jan. 1890, þar sem kaupstöðunum er veitt heimild til þess, að setja í lögreglusamþyktum sínum ákvæði um löggæslu og lögreglulið. Þessa heimild hafa nú kaupstaðirnir notað á tvennan hátt, sumpart með því að koma á fót fastri lögreglu, og sumpart með almennu ákvæði, þar sem sú skylda er lögð á menn, að hlýða boði lögreglunnar. Þetta ákvæði er það, sem hv. meirihl. leggur svo afarmikla áherlslu á. En nú vil jeg spyrja hv. meirihl.: Hvernig er nú þessi almenna skylda í framkvæmdinni? Mjer skildist á hv. frsm., að hann ætli, að með þessu sje lögreglustjóranum heimilt að kalla saman lið í hópum til að gegna lögreglustörfum. Það kann að vera, að það sje heimilt, en jeg tel það vafasamt, og lögreglusamþyktirnar ætlast ekki til þess. Við vitum það allir, að þessi almenna skylda er aðeins fólgin í því, að þegar lögregluþjónar, einn eða fleiri, sem eru við starfa sinn, eigi reynast einhlítir, þá skora þeir á nærstadda að aðstoða sig. Það er við þesskonar skyldu til að hlýða boði lögreglunnar, sem lögreglusamþyktirnar eiga með þessu ákvæði. Að þessu er svo varið, kemur svo greinilega fram í lögreglusamþykt Reykjavíkur, í 11. grein hennar, að jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp, til þess að hv. þdm. þurfi ekki að vera í vafa um þetta. Greinin hljóðar svo:

„Almenningi er skylt að hlýða öllum skipunum lögreglumanna. Ef nauðsyn ber til, geta lögreglumenn krafið sjer til aðstoðar hvern fulltíða karlmann, sem viðstaddur er, til að afstýra óreglu eða óspektum á almannafæri, en heimtingu eiga slíkir menn á fullkomnum bótum úr bæjarsjóði fyrir tjón, er þeir kunna að bíða við það, á fatnaði eða limum, en bæjarsjóður á aðgang að hinum seka.“

Það er alveg bert, að þarna er átt við það, að ef lögregluþjónar reynast ekki einhlítir til að framkvæma verk þau, er þeir eru að vinna að, þá mega þeir kalla menn þá, er nærstaddir eru, sjer til aðstoðar, og eru menn skyldir að hlýða.

Eins og jeg tók fram, skal jeg ekkert um það segja, hvort lögreglunni er heimilt eða ekki að kveðja menn í hópum að heiman til þess að taka þátt í lögreglustarfi í einstökum tilfellum. En þó að það væri heimilt, þá dylst mjer ekki, að þetta væri mjög óheppileg leið. Venjulega er það svo, að þegar lögreglan reynist ekki einhlít til einhverra verka, þá er komið í hart hjá henni og hiti og æsing komin í fólkið. Og þegar svo er ástatt, er afar-óheppilegt að kalla hina og þessa til aðstoðar. Menn kynnu að líta svo á, að verið væri að etja mönnum saman, eða jafnvel brýna stjett gegn stjett. Væri það hættulegt og afaróheppilegt. En hjer væri alt öðru máli að gegna, ef til væri fast varalögreglulið, eins og frv. fer fram á. Þá yrði það altaf að vera til taks, og það væri embættisskylda þess að hlýða kvaðningu. Þess starf væri alveg hið sama og venjulegu lögreglunnar.

Eitt er það líka enn, sem mjög er mikilsvert í þessu sambandi. En það er, að menn þeir, sem að lögregluverkum vinna, hafi fengið æfingu í starfinu. Jeg segi þetta af því, að jeg hefi fengið talsverða reynslu á þessu sviði og get fullyrt, að þetta er ákaflega mikilsvert atriði. Ef menn eru óæfðir í lögreglustarfi, getur það oft haft þær afleiðingar, að þeir geri frekar ógagn en gagn. Í stað þess að stilla til friðar, geta þeir vakið sundrung og ófrið.

Hv. frsm. meirihl. (BSt) mintist á það, að þessi varalögregla myndi verða mjög óvinsæl, sjerstaklega í byrjuninni. Jeg held nú, að alveg hið gagnstæða komi á daginn. Jeg held, að hvað mikið sem gert verður til þess að gera hana óvinsæla, þá muni það aldrei takast, ef henni einusinni verður komið á. því að undir eins og búið væri að stofna hana, yrði litið á hana sem hverja aðra lögreglu, og sjeð frá þjóðarheildinni er það mjög vinsælt starf, að gegna lögreglustörfum. Einstaklingar kunna að misvirða þessi störf, eins og öll önnur, einkum þeir, sem fyrir barði lögreglunnar verða, en frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar er mjög vingjarnlega á það litið og vel metið að gegna lögreglustörfum, og sá maður, sem rækir vel og dyggilega lögreglustarf, hann vinnur sjer áreiðanlega traust og hylli alþjóðar.

Mig furðar á því, að hv. frsm. meirihl. (BSt) skyldi enn koma með þá staðhæfing, að hjer væri verið að koma upp liði gegn ákveðinni stjett. (BSt: Jeg sagðist hafa heyrt það.) Hann þurfti ekki að hlaupa með þær fregnir, því hann og allir vita, að enginn heldur slíkri fjarstæðu fram, nema þvert á móti betri vitund. Það lýsir og beinu vantrausti á verkamannastjettinni, að halda því fram, að hún muni fyrst verða fyrir barðinu á þessari lögreglu. Jeg held, að það vantraust sje óverðskuldað, af hendi þeirra manna, sem sú stjett hefir lyft hæst í flokki sínum, og þeir mættu gjarnan leiða hjá sjer að hampa slíkum getsökum í garð alþýðunnar. Vitanlega er varalögreglan stofnuð jafnt gegn öllum mönnum, sem brjóta lög og gerast friðbrjótar í landinu, og stendur alveg á sama, hvort þeir eru verkamenn eða eitthvað annað. Og varalögreglan á aðeins þá að skerast í leikinn, þegar hin fasta lögregla getur ekki stilt til friðar.

Þá mintist hv. frsm. meirihl. (BSt) ofurlítið á kaupgjaldsdeilur og sagði, að það væri ætlunin, að þessi varalögregla ætti að bæla þær niður. Vitanlega nær þetta ekki neinni átt. Það er alveg rjett, sem hann sagði, að lögreglan þarf að vera sjerstaklega gætin í slíkum málum. Og jeg hefi margoft tekið það fram fyr, að afskifti lögreglunnar af þeim málum eiga að vera þau ein, að hún sjái um, að engar óeirðir stafi af þrætunum. Það getur og komið fyrir, að lögreglan þurfi að vernda þá, er vilja vinna, sökum þess, að ahnenningsheill er undir því komin, að verkið sje unnið. En að varalögreglan eigi að blanda sjer í kaupgjaldsdeilur, er alger misskilningur og áreiðanlega sagt á móti betri vitund.

Þá mintist hv. frsm. meirihl. (BSt) á uppreisn. Vissi jeg ekki vel, hvað hann átti við, en hafi það verið meining hans, að við í minnihl. hjeldum, að þessi varalögregla myndi nægja til að leggja að velli útlendan her, sem hjer kynni að ráðast á land, þá er það helber misskilningur. Hitt er jeg aftur á móti ekkert hræddur um, að innlendir menn geri nokkru sinni meiri uppreisn en það, að varalögreglan myndi auðveldlega nægja til að bæla hana niður. Nei — það er ekki til nokkurs hlutar að koma með slíkar og þvílíkar órökstuddar grýlur í þessu máli. Menn verða að halda sjer við aðalatriðið, og það er það eitt, hvort nauðsyn ber til að efla löggæsluna í landinu og á hvern hátt það verður gert ódýrast og hagkvæmast fyrir ríkið.

Jeg þykist nú vita, að jeg þurfi eigi að brýna fyrir hv. þdm., hve mikið er í húfi, ef lögum landsins er ekki hlýtt. Því undarlegt mætti það kallast, ef löggjafarþing þjóðarinnar væri að sitja hjer fleiri mánuði árlega, til þess að setja lög og reglur handa þjóðfjelaginu, ef það ljeti sig engu skifta, hvort þau lög verði nokkurntíma haldin. Jeg skil ekki í öðru, en að það sje fyrsta boðorð Alþingis, að sjá um, að það sje trygt og örugt, að þeim lögum sje hlýtt, er það setur, og því skil jeg ekki í, að þessu mikilsverða máli verði varnað framgangs.