10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

11. mál, úrskurður í útsvarsmálum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer heyrðist á hv. 2. þm. S.-M. (IP), að hann legði lítið upp úr þeirri viðleitni, að leita álits sýslunefnda um þetta mál. Honum mun þó vera kunnugt, að í sýslunefndum eiga sæti fulltrúar allra hreppa, sem sveitarstjórnarlögin eru einmitt sett fyrir. Hitt er satt, að álits sýslunefnda hefir ekki verið leitað um frv. það, er hjer liggur fyrir, enda er hjer um fyrirkomulagsatriði að ræða, sem sýslunefndir þurfa ekki endilega að dæma um. — Jeg skal ekkert segja um frv. það, sem hv. þm. ætlar að flytja í þessa átt, en hinu mótmæli jeg, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, verði innlimað í það. Annars skil jeg ekki í því, hvað hv. þm. hefir á móti því, að reynt sje að samræma lög sveita og kaupstaða, og hversvegna hann vill hafa mörg lög, þar sem ein geta gilt. Það mun a. m. k. vera álit flestra, að heppilegast sje, að sömu lög gildi alstaðar innan hvers þjóðfjelags, þar sem hægt er að koma því við.