10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

11. mál, úrskurður í útsvarsmálum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af ræðu hv. þm. Vestm. (JJós) skal jeg geta þess, að stjórnin hugsaði einmitt töluvert um þetta atriði. En ástæðan til þess, að hún sá sjer ekki fært að láta málskotsákvæðið ná til allra, var sú, að hún áleit, að afarmikið starf myndi af því leiða, og auk þess eiga innanhreppsmenn sjer venjulega betri og kunnugri málsvara í hreppsnefndum en hinir. Þetta má ekki skilja svo, að jeg sje andstæður skoðun hv. þm. Vestm. (JJós) í þessu máli, en ef hún næði fram að ganga, álít jeg, að það geti verið skoðunarmál, hvort atvinnumálaráðuneytið ætti að hafa úrskurðarvaldið. — Jeg skal geta þess, að jeg hefi einnig heyrt getið um þá samninga hreppsnefnda eða bæjarstjórna við einstaka atvinnurekendur, er hv. þm. Vestm. (JJós) talaði um, en vart þarf að taka það fram, að slíkir samningar eru með öllu ólöglegir og því ógildir, ef á herðir.