11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (2727)

14. mál, hegningarlög

Jónas Jónsson:

Jeg vildi í fám orðum heyra álit hæstv. forsrh. (JM) á því, hvernig horfi með almenna endurskoðun hegningarlaganna. Það má vera öllum ljóst, að brýn þörf er á því, að fá endurbót á hegningarlögunum. Þau eru nú að mörgu leyti úrelt orðin og eru þar að auki, eins og hæstv. forsrh. (JM) veit, bygð á alt annari lífsskoðun, alt öðrum heimspekilegum siðferðishugmyndum en nú tíðkast, sem sje þeim, að hið illa sje mönnum sjálfrátt og beri því að hegna fyrir afbrotin, í stað þess, að reyna að bæta þá, sem brotlegir verða. Nú vil jeg spyrja hæstv. forsrh., hvort hann treysti sjer ekki að leggja fram á næstu þingum — því hugsanlegt er, að hann haldi áfram að vera dómsmálaráðherra enn um hríð — gagngerða endurbót á hegningarlögunum, í samræmi við nýrri og betri þekkingu á sálarlífi manna, í samræmi við umbætur, sem nú er farið að gera í ýmsum mentalöndum, þar sem brotlegir menn eru teknir út úr óhollum fjelagsskap, látnir vinna holla og gagnlega vinnu og á annan hátt reynt að bæta lífsvenjur þeirra. Í stuttu máli: hegningarhúsunum er þar breytt í betrunarhús, í stað þess að það er siður hjá okkur að hefnast á sökudólgunum, án þess að bæta þá.