11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

14. mál, hegningarlög

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal ekkert um það segja, hvort mögulegt muni vera fyrir nokkra stjórn eða nefnd, að bera fram till. um gagngerðar breytingar á hegningarlögunum fyrir næsta þing. Það er atriði, sem þarf nákvæmrar athugunar.

Hinsvegar erum við hv. 5. landsk. (JJ) og jeg sammála um það, að hegningarhúsinu hjer þurfi margra hluta vegna að breyta; og því má breyta, án þess að lögunum sje breytt jafnhliða. Það er eflaust þörf á því, að byggja nýtt hegningarhús, sem jeg, eins og hv. 5. landsk. (JJ), tel heppilegast, að reist verði í sveit, þar sem gefa mætti föngunum kost á að vinna sveitavinnu. En slíkt hegningarhús mundi vitanlega kosta mikið fje.

Þetta atriði, og önnur, sem standa í sambandi við frv. þetta, er jeg fús til að ræða við væntanlega nefnd.

Við þessa umr. get jeg enn bent á það, að þegar til kemur, að við gerum gagngerðar breytingar á hegningarlögum okkar, þá verður það verk vandaminna sakir þess, að við getum notið margra fyrirmynda, sem flestar hníga í svipaða átt, þó að þar gæti áhrifa ýmissa annara refsirjettarfræðinga en Lombrosós.