11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Í nál. fjhn. Ed. um laun embættismanna eru nefndarmenn sammála um að flytja tillögu um að veita uppbót lægst launuðum starfsmönnum ríkisins. Munu þeir hafa haft vissu fyrir því, að þetta gengi fram í hv. Ed. En fyrir gleymsku sakir varð ekki úr því, að till. yrði borin fram, en nú hefðu margir þm. viljað, að slík uppbót kæmist í fjárlögin. Nú höfum við komið fram með tillögu, sem fer fram á að bæta við 19. gr. 30 þús. kr., en það hefir staðið svo lengi á tillögunni, að hún er ekki enn komin til útbýtingar, en hún hlýtur að koma á hverri stundu. En jeg vona samt, að hv. þm. geti gert sjer grein fyrir till. Aftan við liðinn er ný málsgrein, og er þar skýrt frá, hvernig verja skuli fjenu. Þar stendur: „Þá skal og af fjárveitingu þessari greiða 30000 krónur í launauppbót handa þeim starfsmönnum landsins og á þann hátt, er segir í viðaukatillögu í nefndaráliti meiri hluta fjárhagsnefndar neðri deildar Alþingis 1925, á þingskjali 184.“

Þar hafði meiri hluti fjhn. gert grein fyrir, á hvern hátt hann hugsaði sjer þessa væntanlegu uppbót. Af því að ekki er hægt að segja ákveðið um það nú, hvað upphæðin yrði há, hafa flm. gert ráð fyrir, að 30 þús. kr. fjárhæðin sje áætlunarupphæð, en reglumar, sem greitt er eftir, er að finna í nál. fjhn. á þskj. 184. Vænti jeg, að stjórnin geti fallist á að taka við tillögunni þannig, þó að ekki sje í fjárlögunum sjálfum settar reglurnar um það, hvernig verja skuli fjenu.

Tíminn leyfði ekki mikla útreikninga, en meiri hl. fjhn. hefir gert sjer fullkomlega grein fyrir þessu.

Nú sje jeg, að till. á þskj. 527 hefir verið útbýtt, og geta menn þá frekar áttað sig á henni.

Það er ákaflega sanngjarnt, að margir lágt launaðir starfsmenn fái uppbót á launum sínum. Þeir hafa mun verri kjör en tíðkast í þjónustu einstakra manna. Það má auðvitað segja, að þetta sjeu viss laun, en geti menn ekki lifað af þeim, er það lítil bót.

Jeg vænti þess, að hv. deild taki till. vel, og ekki síst þar sem lítur út fyrir, að hv. Ed. hefði samþykt hana, þar sem fjhn. þeirrar deildar var óskift um hana, þó að svona óhönduglega tækist til, að það gleymdist að flytja till.

Jeg þarf ekki að svara miklu viðvíkjandi brtt. þeim, sem jeg hefi flutt. Hv. frsm. síðari kaflans (TrÞ) hefir ekki vikið gegn þeim. Hinsvegar vildi jeg mæla með till. hæstv. atvrh. (MG) um styrk til Hjálmars Lárussonar. Af gleymsku hefir sá styrkur ekki komist inn í fjárlögin, en jeg vona, að hún verði samþykt, þar sem jeg lít svo á, að margir listamenn hafi verið styrktir, sem síðri hafa verið.