27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í C-deild Alþingistíðinda. (2743)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er alveg rjett hjá hæstv. forsrh., að okkur ber eigi svo mikið á milli. Jeg hafði jafnvel hugsað mjer að koma sjálfur fram með frv. um stundafjölda barnakennara, er færi fram á 36 kenslustundir á viku, og jafnframt fækkun þeirra og bætt launakjör. Það er því engin goðgá hjá stjórninni, þótt hún bæri fram svipað frv., eins og líka er tekið fram í nál. Hinsvegar er eigi hægt að neita því, að í frv. stjórnarinnar er beinlínis farið fram á lækkun á launum kennaranna, með því að fjölga kenslustundum þeirra, án þess að breyta launakjörum þeirra í svipuðu hlutfalli.

Hæstv. forsrh. sagði, að úr því sem komið væri, væri sjer ekki mikið áhugamál, að frv. næði fram að ganga. Jeg tek þetta sem sönnun þess, að hann sjái nú, að í raun og veru mæli ekki mikið með breytingunni, eins og málinu er háttað.

Þá lýsti hæstv. forsrh. yfir því, að það væri ekki af gleymsku, að frv. fer fram á, að tveir af kennurum mentaskólans kenni lengri tíma en hinir. Jeg álít mjög óheppilegt að gera slíkan mun kennara innbyrðis. Jeg tel líka hiklaust vist, að leikfimis- og söngkennari þurfi engu síður en aðrir kennarar að undirbúa sig undir kenslustundirnar. Það hefði því verið fullkomin ástæða til að ætla, að misklíð hefði orðið út af þessu, ef samþykt hefði verið. Sumar stjórnir myndu og hafa litið svo á, að með slíkum lögum væri gengið á gerða samninga. Hæstv. forsrh. hefir og lýst yfir því um söngkennarann, að eigi væri hægt að fjölga kenslustundum hans, enda mun það rjett vera. Hinsvegar hefir hæstv. forsrh. eigi fyllilega kannast við samtal sitt við leikfimiskennarann. Að vísu skiftir það eigi miklu máli, þar sem fjárveitinganefnd hefir ráðið þennan mann. Hv. frsm. fjvn, hefir gefið þær upplýsingar, að hann hafi verið ráðinn með alveg sömu kjörum og söngkennari. Manninum er því gert beinlínis rangt til, ef slík ákvæði um stundafjölda hans næðu fram að ganga, sem frv. fer fram á. Þeir, sem bókleg fræði kenna fram yfir skyldu, fá aukaborgun, og ætti því leikfimiskennarinn kröfu til hins sama.

Þá hjelt hæstv. forsrh. því fram, að ekki væri rjett, að forstöðumenn skóla rjeðu stundafjölda sínum. Nýlega var hafin málsókn gegn skólastjóra í Englandi út af þessu atriði. Skjallegar sannanir gegn manninum lágu eigi fyrir, og bygði dómarinn sýknunardóminn á því, að maður í stöðu hins ákærða sagði satt Rektor mentaskólans er trúað fyrir að stjórna uppeldi 250 unglinga á ári hverju, og skyldi honum þá ekki vera trúandi til að skamta sjer stundafjölda, svo að hættulaust væri.

Viðvíkjandi stundafjöldanum við kennarskólann, hefi jeg sagt það fyr, að jeg hefi í höndum skýrslu frá þrem föstum kennurum skólans, og ber þeim öllum saman. Jeg hefi boðið hæstv. forsrh. að lesa skýrslu þessa, en hann hefir eigi notað sjer það tilboð enn. Jeg verð því að taka það sem sönnun þess, að hann viti, að þessir kennarar hafi rjett fyrir sjer (JM: Að hv. þm. hafi rjett fyrir sjer, öllu heldur.) — og segi rjett frá um sín vinnubrögð.

Jeg held, að eigi væri úr vegi að athuga muninn á stundafjölda kennara við mentaskólann og kennaraskólann. Það hefir verið sagt, að minna sje krafist af kennurum við kennaraskólann, og því eigi að fjölga stundum þeirra. Þetta felur nú reyndar hálfgerða mótsögn í sjer. Annars held jeg, að flestir kennarar við kennaraskólann sjeu og hafi verið fullkomlega gjaldgengir við mentaskólann. Jeg þarf ekki annað en nefna menn eins og dr. Björn sál. frá Viðfirði og dr. Ólaf Daníelsson og dr. Helga Jónsson, er nú kenna báðir við mentaskólann. Þá eru margir kennarar við mentaskólann, er hafa tekið embættispróf í öðru en sinni kenslugrein, eins og kennararnir við kenrtaraskólann. Þeir kennarar kenna jafnlengi ársins og kennarar við mentaskólann, og vilja því njóta sömu aðstöðu, og þarf enginn að furða sig á því.

Um stýrimannaskólann er það að segja, að nú í umræðunum hefir verið sagt, að ekki væru nema 2–3 menn í neðri deild hans, og hlýtur því kenslan að vera svo auðveld, að eigi er hægt að bera hana saman við kenslu í öðrum skólum.

Jeg mun láta hjer staðar numið. En þar sem hæstv. stjórn hefir lýst yfir því, að hún geti sætt sig við, að frv. fari eigi lengra, vona jeg, að hv. deild geti sætt sig við hið sama og felli frv.