27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í C-deild Alþingistíðinda. (2747)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Einar Árnason:

Jeg geri ráð fyrir, að jeg, úr því sem komið er, verði á móti frv. þessu, þó að jeg hafi áður verið því hlyntur og sje það ennþá, undir vissum kringumstæðum. En þar sem sambærilegt frv. um barnakennara hefir verið felt í hv. Nd., þá sje jeg ekki, að samræmi sje í, að láta þetta ganga fram. Ennfremur hefði jeg kosið að heyra frá hæstv. forsrh., hvort hann ætlast til, að þeir kennarar, sem nú eru í embætti, eigi að hlíta ákvæðum þessa frv. strax. Eins og menn vita, er kenslustundafjöldi ekki ákveðinn með lögum, heldur er gömul venja fyrir því. Býst jeg við, að kennarar gangi út frá því, að þeir eigi að kenna þann stundafjölda á viku, sem ákveðinn var, er þeir tóku við embætti, og svo ekki meir. Sje nú ætlast til, að lögin gripi strax til þeirra, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að þeirra rjetti sje hallað, og get þá ekki undir neinum kringumstæðum verið með frv. Hinsvegar gæti jeg væntanlega fylgt slíku frv. að því tilskildu, að það væri aðeins látið ná til nýrra kennara.

Hæstv. forsrh. mintist á vinnutímann í stjórnarráðinu, og er jeg honum alveg sammála um, að það sje mjög hæpið að lengja þar vinnutímann skilmálalaust. Má vel vera, að brotinn sje með því rjettur á þeim mönnum, sem þar starfa.