02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í C-deild Alþingistíðinda. (2761)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Sigurður Eggerz:

Háttv. þingm. A.- Húnv. (GÓ) hjelt því fram, að kennarar væri vel settir að því leyti, að þeir hefðu svo löng frí á sumrin, og gætu þá unnið sjer inn ýmislegt aukalega. Þetta lítur nú að vísu vel út, en vandræðin eru, að oftast mun ekki kostur á vinnunni. Jeg hefi sýnt fram á það áður, að kennarar eru neyddir til að vinna meira á vetrum en góðu hófi gegnir, til þess að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Kenslan mundi áreiðanlega verða meira lifandi, ef kennararnir ofþreyttu sig ekki á ofmikilli vinnu. En þar sem launin eru ekki meiri en þau eru, er ekki hægt að banna þeim aukavinnu. Háttv. þm. (GÓ) hjelt því fram, að kennarar hefðu legið í eyrum nefndarinnar. Þetta er ómaklega talað. Auðvitað leitaði nefndin umsagnar forstöðumanna við skóla þá, sem þetta frv. snerti, en mjer vitanlega hefir enginn kennari persónulega snúið sjer til nefndarinnar, og kunnugt er mjer að minsta kosti um það, að enginn þeirra hefir snúið sjer til mín.

Þá kem jeg að brtt. háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh), um að „suspendera“ frv., ef svo má að orði komast — það er, að frv. komi ekki til framkvæmda, þó samþykt yrði, fyr en laun kennaranna yrði bætt. Jeg sje ekki neitt sjerstakt athugavert við að samþykkja þessa breytingartillögu. Ef til vill mundi hún fremur styðja að því, að hagur kennaranna yrði bættur.