02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Guðmundur Ólafsson:

Mjer kom það ekkert á óvart, þótt hv. 1. landsk. þm. talaði um, hve þessi stjett, kennarastjettin, væri illa stödd. Það er altaf sagt um alla embættis- og sýslanamenn. Og hv. þm. varð fjarska hjartnæmur, þegar hann fór að tala um þreytu kennaranna og þörfina á því, að stytta kenslutímann, og hvernig ekki væri unt að hafa kensluna sem skyldi, sakir þess, að áníðslan lægi eins og mara á þessum mönnum. En jeg held nú, að þótt sumarhvíld kennara komi þeim ef til vill ekki að verulegum fjárhagslegum notum, þá ætti þeir þó, með 3–4 mánaða hvíld á ári, að þola kensluna betur. Og hví kom ekki mentmn. þá með till. um að stytta vinnutíma kennara?

Viðvíkjandi talinu um þreytuna, þótti mjer það stinga undarlega í stúf, að hv. þm. sagði, að lengja mætti vinnutímann, ef kennarar fengi meira kaup. Jeg vildi, að jeg hefði svona heilsu! Það fer ekki eftir borguninni hjá mjer, hvort jeg verð þreyttur. Hann vildi og afsaka hv. nefnd, að hún hefði ekki orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum. Þetta er þó daglegt brauð að gerist, og það er vitanlegt, að nefndin átti tal við menn í þessari stjett.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. 1. landsk. (SE), að jeg sje sífelt með kjósendur í huga, er jeg tala, þá verð jeg að segja það, að hann hugsar engu minna um að þóknast sínum kjósendum en jeg, og vitnar oft, máli sínu til stuðnings, í álit þeirra. Jeg tala svo sjaldan, að það er ekki nema sanngjarnt, að jeg taki þá dálítið tillit til kjósenda minna, og ekki hægt að komast hjá því, ef skoðanir okkar fara saman. Það er ekki eins miklu kostað til þeirra samt, hvað þetta snertir, eins og kjósenda hv. 1. landsk. (SE).