02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Sigurður Eggerz:

Jeg má til að leiðrjetta dálítinn miskilning hjá hv. þm. A.-Húnv. (GÓ). Jeg sagði, að kennarar kendu fleiri stundir en æskilegt væri. Laun þeirra eru svo lítil, að þeir geta ekki framfleytt fjölskyldum sínum, án þess, og því er ekki hægt að hafa á móti þessu. En ef laun þeirra væri betri, þá væri alls ekki rjett að leyfa þeim þessi aukastörf.

Hv. þm. (GÓ) sagði, að jeg hefði jafnan kjósendur í huga. Auðvitað hefi jeg það, og það er rjettmætt. En hitt er annað, að vera altaf að stritast við að láta kjósendurna hafa mann sjálfan í huga.

Hæstv. forsrh. skildist, að jeg hefði talað óviðeigandi í garð stjórnarinnar. Jeg hefi altaf sagt, að jeg er andvígur hæstv. stjórn í þessu máli. En jeg kvað ekki meir að orði en það, að hæstv. stjórn má vel við una, ef hún fær aldrei verri hnútur. Þá sagði hæstv. forsrh. (JM), að ef dagskráin væri samþykt, væri það sama og að fella frv. Sagði hann ennfremur, að ef frv. væri felt, þá stæði stjórnin eins að vígi og áður. Hún gerir það ekki. Ef frv. verður felt, þá hefir hún fengið bendingu um, að deildin er mótfallin lengingu vinnutímans.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) má ekki gera alt of lítið úr þreytunni. Það er vitanlegt, að þegar sama „pensum“ er kent ár eftir ár, þá þarf afskaplega mikið til þess að gera kensluna lifandi, með því sem nú er lagt á kennara.

Sumir kennarar orka þessu, endurnýja sig altaf, koma altaf með eitthvað nýtt. Fyrir kennara og pilta er þreytan hættulegri en margan grunar, og svo alvarlegur hlutur, að síst er að lasta, þó að það væri nánar athugað.