16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Flm. (Bjarni Jónsson):

Frv. þetta, sem jeg hefi leyft mjer að flytja, er gamall kunningi. Kom það fyrst fram á þingi 1914. Hefi jeg fyrir framan mig framsöguræðuna, er jeg hjelt þá, og get látið mjer nægja að benda á hana. Annars virðist það sjálfsagt, að heppilegra sje að hafa löggilta endurskoðendur en að hvert fjelag kjósi þá fyrir sig, einkum þó, er um hlutafjelög er að ræða, sem fara með margra eignir. Enda fjelst nefndin, er þá fór með málið, greiðlega á þetta, að nauðsyn bæri til að hafa lögskipaða endurskoðendur. Aðeins varð lítilsháttar ágreiningur um það, hvort öllum fjelögum bæri skylda til að nota þá, eða að þau aðeins mættu gera það, ef þau vildu. Jeg fylti þá flokk þeirra manna, er vildu gera fjelögunum þetta að skyldu. Síðan hefir aldrei verið deilt um þetta mál í þessari hv. þd., er það hefir verið borið fram, heldur hefir hv. Nd. altaf samþykt það, þar til í hitteðfyrra, að það var felt hjer, af annarlegum ástæðum, sem óþarft er nú að greina.

Að svo mæltu vil jeg leyfa mjer að fara þess á leit við hv. þd., að hún lofi málinu að ganga til hv. allshn. og samþykki það síðan.