13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Magnús Torfason:

Eins og við munum, þá var þessu máli snemma vísað til allshn. á þessu þingi, og þar hefir það nú legið allengi, og loks gaf minnihl. nefndarinnar út nál., en meirihl. hefir ekki gert það, blátt áfram af hlífð við hv. flm. (BJ), sem allir vita, að mjer er sjerstaklega vel við. Till. er óframbærileg að forminu til, og stórskaðleg að efninu til. Eins og við vitum, og stendur í greinargerð frv., þá er þetta 11 ára gömul afturganga. Nú vitum við það, að hv. flm. (BJ) hefir staðið báðum fótum í stjórnarjötunni alla tíð síðan, en aldrei getað fengið stjórnina til flytja þetta frv. fyrir sig. (Atvrh., MG: Hún gerir það á næsta þingi, ef það verður ekki samþykt núna). Jæja, jeg hjelt, að þetta myndi nú helst heyra undir dómsmálaráðherra, en ekki undir atvinnumálaráðherra, en honum er vel trúandi til. En þetta frv., sem hjer er um að ræða, hefir viðtæk áhrif á rjettarfar í landinu, og það var þessvegna, sem jeg hjelt, að það væri dómsmálaráðherra, sem myndi fjalla um þetta mál, því að það er venjan, að sá ráðherra beri slík frv. fram.

Við þetta frv. er það fyrst og fremst að athuga, að skilyrðin fyrir því, að geta orðið löggiltur endurskoðandi, eru sama sem engin, nema ef vera skyldi, að hlutaðeigandi á að vera skapaður nokkurnvegin í kross. (Atvrh. MG.: Er það tekið fram?). A. m. k. er ekki annað tekið fram, sem að gagni má verða, nema þá hitt, að maðurinn má ekki vera þjófur. Það mun einhversstaðar vera tilskilið, og er það út af fyrir sig góðra gjalda vert. Samkv. frv. verður það mikil trúnaðar- og virðingarstaða, að vera löggiltur endurskoðandi, og geta þeir, sem þá löggildingu fá, haft margvísleg áhrif, en þó eru engin sjerstök skilyrði sett fyrir löggildingunni.

Það væri þó vissulega ekki úr vegi, að þeir menn, sem fá svo mikið vald í sínar hendur, verði látnir fullnægja ýmsum skilyrðum, sem ætíð eru gerð til annara sýslunarmanna.

T. d. hjelt jeg að hv. flm. (BJ) hefði staðið nær að muna eftir búsetuskilyrðinu. Þau ákvæði, sem gera frv. beinlínis hættulegt, er m. a. að finna í 4. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú láta opinberir sjóðir, hlutafjelög eða sameignarfjelög löggiltan endurskoðanda endurskoða reikinga sína, og skal þá sú endurskoðun jafngilda endurskoðun dómkvaddra manna.“

Þetta segir ekkert annað en að löggilta endurskoðendur á að setja á borð við valin vitni. En við vitum, að þegar nenn eru dómkvaddir til einhverra starfa, þá er það gert til þess, að dómarinn geti í hverju einstöku tilfelli sjeð fyrir því, að góðir menn og óvilhallir sjeu fengnir til að rannsaka það mál, sem fyrir liggur.

Af ákvæðum 5. gr. má sjá, að vald endurskoðendanna á að vera enn víðtækara en valdra vitna. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Vilji dómstólar hafa röksamlega endurskoðun á reikningum og rekstri fyrirtækja, eða á þrotabúum, skal til þeirrar skoðunar hafa löggilta endurskoðendur, ef til næst.“

Jafnvel þó að dómari hafi enga trú á hlutaðeigandi endurskoðanda, er honum samt sem áður skylt að nota hann. Þetta er alveg afskaplegt ákvæði. (HK: Menn verða nú að sætta sig við dómara, þó að menn hafi alls enga trú á þeim!) Jú, rjett; en dómarar hafa þó allir fullnægt ströngum skilyrðum, þó vondir kunni að vera, en þessir menn þurfa engum skilyrðum að fullnægja. Og jafnvel þó hv. þm. Barð. (HK) hafi ekki fengið sem besta reynslu af dómurum, þá hjelt jeg, að þeir yrðu varla betri, ef hvern óvalinn strák af götunni mætti setja í þau embætti.

Þá kemur 8. gr., sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarráðið tiltekur nánar verksvið endurskoðenda og setur kaupskrá (taxta) fyrir störf þeirra.“

Þetta er stórhættulegt ákvæði og afskaplegt, einnig að formi til. Með hvaða ráðum á að setja taxta fyrir endurskoðun? Hvernig á að finna þar rjettlátan grundvöll? Mjer er þetta óskiljanlegt. Tiltölulega fyrirferðarlitlir reikningar geta verið þannig úr garði gerðir, að endurskoðun þeirra er afarmikið verk. T. d. hefi jeg einu sinni komist í að endurskoða reikninga bús, sem ekki sýndist yfirgripsmikið í upphafi. Jeg var þó 1 ár að rannsaka skjölin, áður en jeg komst í botn. (ÁJ: Þar hefir vantað löggilta endurskoðendur!) Nei, þeir hefðu sennilega enga kunnáttu haft til brunns að bera, til að geta leyst það verk af hendi.

En í öllu falli verður erfitt að setja taxtann fyrir endurskoðunina. Ef hann á að vera eitthvað í líkingu við það, sem opinberum sýslunarmönnum er greitt fyrir störf sin, þá verða lögin hreint og beint siðspillandi. Við vitum, að gjaldataxtinn fyrir opinber störf er alstaðar smánarlegur lágur.

Þetta mun leiða til þess, að þeir einir munu hafa efni á að nota löggilta endurskoðendur, sem nóg hafa fjeð. Hið opinbera hefir ekki efni á að nota dýran vinnukraft. Ef endurskoðendurnir vilja því fá lífvænlega atvinnu, þá verða þeir að snúa sjer til stóru atvinnurekendanna og vinna fyrir þá. Og einmitt frá þessu sjónarmiði er frv. stórhættulegt. Samkv. því verður endurskoðun manna, sem burgeisar einir hafa efni á að láta vinna hjá sjer, lögð til grundvallar sem sönnun.

Í þessu sambandi er rjett að minnast á atriði, sem reyndar var drepið á, þegar tekjuskattsbreytingin, sem hv. Ed. strádrap eigi alls fyrir löngu, var hjer á ferðinni. Þá var upplýst, að þeir endurskoðendur, sem nú starfa hjer, sjeu einkum til þess notaðir, að semja skattskýrslur hlutafjelaga, til þess að þau megi komast hjá því, að greiða of mikinn skatt í ríkissjóð. Og þegar slíkir endurskoðendur hafa fengið löggildingu og skrifa undir skjal, sem á að vera gagn í rjettarþrætu, þá sje jeg ekki betur en að skattatnefnd verði að taka það plagg sem heilagan sannleika.

A. m. k. er sönnunarbyrðinni snúið við með slíku ákvæði. Þar sem skýrsla endurskoðanda á að jafngilda áliti dómkvaddra manna, þá færist sú skylda yfir á hið opinbera, að afsanna skýrsluna, í stað þess, að annars yrði skýrslugjafi að sanna, að skýrslan væri rjett, ef til kæmi.

Jeg hefi áður sagt, sem rjett er, að frá hálfu hins opinbera er engin þörf slíkra löggiltra endurskoðenda. Það þarfnast þeirra örsjaldan, en ef til kæmi, þá getur það snúið sjer til þeirra manna, sem hafa endurskoðun að atvinnu, ef menn hafa þá góða trú á þeim.

Þessi stjett er enn kornung, enda er endurskoðun alveg nýr atvinnuvegur hjer á landi. Lít jeg því svo á, að rjettara sje að láta stjettinni fjölga og fá meiri þroska og æfingu í starfi sínu en hún hefir nú. (ÁJ: Eru hjer til löggiltir endurskoðendur?) Hvenær hefi jeg sagt það? Jeg hefi sagt, að hið opinbera geti snúið sjer til þeirra manna, sem hafa endurskoðun að atvinnu, ef því líst svo.

Eins og kunnugt er, er frv. þetta sjerstaklega fram borið fyrir verslunarstjettina í landinu, og við vitum, að þeirri stjett hefir ekki farið mikið fram á stríðstímunum. Hitt er miklu fremur úr alheimsmál, að verslunarstjettinni hafi yfirleitt hrakað stórum á þessum tíma, og þegar loftið er ekki betra en svo, þá er blátt áfram stórhættulegt að fá þessari stjett slíkt vopn í hendur sem löggiltir endurskoðendur geta orðið samkv. þessu frv.