27.02.1925
Neðri deild: 21. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (2805)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. minnihl. (Magnús Torfason):

Þegar betur er athugað, þá er nú ekki mikill munur á afstöðu meiri- og minnihl. í þessu máli.

Meirihl. nefndarinnar hefir lýst því yfir, bæði í nál. og ekki síður fyrir munn aðalframsögumanns í ræðu hans áðan, að með frv. sje meiningin að ná skatti af mönnum, sem atvinnu stunda á erlendum togurum, er ganga nú frá Hafnarfirði, og nefndin, eða meirihl., vill koma þessu fyrir á þann hátt, sem skýrt er frá í nál., að viðbættum þeim skýringum, er felast í ræðu aðalfrsm.

Jeg er nú svo gerður, að jeg vil, að það sje tekið glögglega fram í lögunum, sem í þeim á að liggja, svo að síðar, þegar fara á að dæma eftir þeim, þurfi ekki að leita eftir einhverjum gögnum eða skýringum, sem þá eru ekki fyrir hendi. Og þó að það sje upplýst, bæði af flm. og frsm. meirihl., að bæjarstjórnin ætlist til, að þetta frv. nái aðeins til þessara manna, er atvinnu stunda á þessum erlendu togurum, og ákvæði þessu verði ekki beitt við aðra menn, þá er alls ekki þar með sagt, að bæjarstjórnin í Hafnarfirði sje bundin við þessa yfirlýsingu til eilífðar. Jeg er ekki þar með að segja, að sú bæjarstjórn, er þessa yfirlýsingu gefur nú, ætli að misbeita ákvæðinu. En það geta komið nýir menn inn í hana, sem annan skilning leggja í lögin. Bæjarstjórnir eru nú einu sinni breytilegar, og ómögulegt að segja fyrirfram, hverjir ráði í Hafnarfirði eftir nokkur ár, eða hvernig þeir túlki þetta lagaákvæði.

Það, sem gerir þessa skýringu nefndarinnar hæpna, er, að orðalagið er víðtækara en ætlast er til með frv. Þar er tekið fram, að ákvæðið nái til manna, sem „ekki eru búsettir í Hafnarfirði“. Með þessu er skilyrði álagningarinnar „negativt“, en í sveitastjórnarlögum, allar götur frá lögum 9. ág. 1889, um breytingar á tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi, eru sett „positiv“ skilyrði fyrir því, á hverja megi leggja. Og þetta skilyrði fyrir persónulega útsvari er, að þeir hafi haft fast aðsetur í hreppnum.

Bæjarstjórnarlög Hafnarfjarðar, frá 1922, byrja þannig:

„Niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum nær til allra, sem hafa fast aðsetur í kaupstaðnum, eigi skemur en 3 mánuði.“

Þarna er einmitt tekið fram þetta gamla og góða ákvæði, að það nái ekki nema til þeirra manna, er hafa fasta atvinnu í kaupstaðnum. En þetta nýmæli, sem hjer er tekið upp, komst fyrst inn í bæjargjaldalög Reykjavíkur í fyrra, og er það þveröfugt við stefnu löggjafans, alt til þess, sem lætur ákvæðin aðeins ná til „landshornafólks“ og lausagopa.

Eftir orðum frv. eiga Hafnfirðingar nú líka að geta lagt útsvar á skip eða útveg, sem rekinn er frá Hafnarfirði, þó að skipin sjeu ekki skrásett þar. Nær þetta vitanlega fyrst og fremst til skipa, sem heima eiga annarsstaðar en hjer við Faxaflóa. Undan þessu ákvæði þýðir ekkert að kvarta. Þetta eru allmenn landslög. En frv. þetta gengur í þá átt, að bænum sje ennfremur leyft að leggja útsvar á atvinnu þeirra manna, sem skrásettir eru á þessi skip, hvar sem þeir annars eiga heimili. Þetta getur m. ö. o. orðið tvöfaldur skattur. Þessvegna er það, að jeg hefi borið fram brtt. þess efnis, að ekki sje heimilt að leggja útsvar á þessa menn, ef þeir eiga lögheimili annarsstaðar á landinu, og er það í samræmi við lög þau, sem gilda hjer á landi, annarsstaðar en í Reykjavík. Þessi regla er að mínu áliti holl og góð, að útsvars- og framfærsluskylda fylgist að. Útsvarsskyldan hefir altaf verið miðuð við fast aðsetur í hreppnum, og þrátt fyrir marga tugi breytinga, sem orðið hafa á sveitarstjórnarlöggjöfinni, alt frá því að tilskipun 1872 var gefin út, til vorra daga, þá hefir þetta þó verið rauði þráðurinn, sem aldrei hefir verið haggað við, þangað til í fyrra. Vitaskuld hefir þessu ákvæði ef til vill verið dálítið misjafnlega fylgt í einstaka sýslum, en yfirleitt hafa dómarar lagt þann skilning í þetta ákvæði, sem jeg hefi haldið hjer fram. Áður en lögin 1889 voru gefin út, voru um þau talsverðar umræður hjer á Alþingi, sjerstaklega um það, hvaða skilning ætti að leggja í orðin „fast aðsetur“. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr grein um þetta mál eftir Jón Magnússon, sem þá var landshöfðingjaritari, en nú er forsætisráðherra. Tekur hann þar upp úr þingtíðindunum þessi ummæli þáverandi landshöfðingja:

„Jeg verð að skilja gildandi lög svo, að menn eigi aðeins að borga sveitarútsvar þar, sem þeir eiga fast heimili, og yrði jeg að álíta það óheppilegt, ef nú ætti að gera á því þá breytingu, að draga ætti af útsvari sveitabónda til þess hrepps, þar sem hann á heimili og, ef til vill, konu og börn, og leggja nokkum hluta þess til þess hrepps, þar sem hann kann að dvelja um stundarsakir til að stunda sjó. Eins væri um þá, sem eiga heima í sjóarplássunum, en fara á sumrum í kaupavinnu, eftir skilningi h. 5. kgk. þm. (síra Arnljóts Ólafss.).“

Og ennfremur segir svo í þessum ummælum landshöfðingja:

„Jeg held, að misskilningur h. 5. kgk. þm. (A. Ó.) sje í því fólginn, að hann leggi annað í „fast aðsetur“ en alment er gert. Mjer fyrir mitt leyti dettur ekki í hug að segja um sveitamann, sem fer til sjávar að róa, að hann hafi fast aðsetur þar, sem hann hefir skiprúm, heldur hefir hann fast aðsetur þar, sem hann á heimili, eða þar, sem hann á bú eða konu. Eins er um sjóarmann, sem á heimili í sjóarplássi, en fer frá heimilinu í kaupavinnu lengri eða skemri tíma; hann hefir fast aðsetur þar, sem heimilið er, en ekki þar, sem hann hefir bráðabirgðavinnuna.“ Í sömu umr. tók landshöfðingi það skýrt fram, að „fast aðsetur“ væri þar, sem maður ætti lögheimili. Þessi ritgerð Jóns Magnússonar er og aðallega til þess gerð, að slá þessum skilningi föstum, enda hefir það síðan verið gert í hverjum landsyfirrjettardóminum á fætur öðrum. Verð jeg því að telja mjög varhugavert að hvika frá þessum lagastaf, frekar en orðið er, og sjerstaklega þegar farið er fram á enn nýjar breytingar, víðtækari en gerðar voru í fyrra í Reykjavíkurlögunum. Í þeim lögum var útsvarsskyldan aðeins látin ná til manna, sem lögskráðir eru á skip, skrásett í Reykjavík, en í þessu frv. er ekkert tillit tekið til skrásetningarstaðar skipsins, ef það er aðeins gert út frá Hafnarfirði. Lögin fyrir Reykjavík hafa ekki staðið lengi ennþá, en þó hafa þau vakið talsverða öldu á móti sjer. Og það er ekki nema eðlilegt, þegar þess er gætt, að Reykjavík hefir einmitt tekið bjargræði nærsveitanna frá þeim, svo að íbúar þeirra mega til að leita sjer atvinnu í Reykjavík. En þá kemur bæjarfjelagið og skattleggur þessa menn, sem það áður hefir svift öllum bjargráðum heima fyrir. Nei, það er síst ástæða til að gefa Reykjavíkurbæ heimild til að klípa af útsvari, sem nærsveitunum ber með rjettu, enda mega þær enganvegin við því. Efnahagur þeirra er ekki svo glæsilegur.

Samkvæmt gögnum, er legið hafa fyrir allshn., er fátækraframfæri í Bessastaðahreppi 70–80 kr. á nef, og eru ómagar einnig taldir með. Útsvörin eru 170–180 kr. á hvert einasta nef; ómagar reiknaðir með. Í Gerðahreppi, sem var hjálparþurfi ekki alls fyrir löngu, er fátækraframfæri 70–90 kr. og útsvör 110–130 kr. á hvert nef, að meðtöldum ómögum hreppsins. 1 Garðahreppi voru útsvörin 1400 kr. árið 1912, en s.l. ár voru þau 19 þús. kr. Hafa þau því 13–14-faldast á þessum 12 árum. Svona má halda áfram, og benda tölur þessar ekki til þess, að rjett sje eða heillavænlegt, að Reykjavík fái að taka skatt af mönnum úr hjeruðum þessum, þó að þeir sæki atvinnu sína til Reykjavíkur einhvern tíma ársins. Það er líka annað, sem gerir það að verkum, að minni ástæða er nú að leggja útsvör á menn í atvinnuhreppnum en var, þegar sá síður var upp tekinn í fyrstu. Fyrstu tildrögin til þess, að útvegur var skattlagður þar, sem hann var rekinn, þó að hann ætti annarsstaðar heima, voru þau, að Innnesjamenn fóru árlega suður í Leiru og Garð og urguðu þar upp miðin og sviftu með því innansveitannenn björg sinni að meira eða minna leyti. Var því eðlilegt, að þeir vildu fá eitthvað í staðinn, vildu fá að leggja útsvör á þennan útveg utansveitarmanna.

Nú víkur málinu alt öðruvísi við. Þeir, sem koma hingað til bæjarins á vertíðinni og stunda hjer atvinnu, taka ekki með því nein gæði frá bæjarmönnum. Þvert á móti. Þeir hjálpa til við atvinnurekstur bæjarins, enda ekki hægt án slíkra manna að vera, a. m. k. ekki þann tíma ársins, sem togararnir stunda saltfiskiveiðar. Það er því síður en svo ástæða til að refsa þeim fyrir þessa atvinnuleit. Þá er það og mikilsvert atriði, að togararnir sækja ekki afla sinn í landhelgi Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar, ef svo mætti að orði komast. Þurfa þessir bæir því þessvegna engrar sjerstakrar lagaverndar. Miklu fremur má segja, að togarar frá Reykjavík og Hafnarfirði taki björgina frá ýmsum öðrum sjávarsveitum, bæði innan Flóans og þó einkum fyrir Söndum, t. d. á Stokkseyri og Eyrarbakka, þegar þeir toga þar austur með. Væri því fremur ástæða til, að þeir bættu hjeruðum þessum skakkaföllin, sem þau verða fyrir af þessum sökum, ekki síst þar sem vitanlegt er, að þeir toga oft í landhelgi.

Mjer var skapi næst að leggjast algerlega á móti frv. þessu. En þar sem jeg viðurkenni rjett Hafnfirðinga til að leggja útsvör á erlenda menn, sem stunda atvinnu á erlendum togurum, sem ganga frá Hafnarfirði, þá hefi jeg flutt brtt., til að fullnægja þessari sanngirniskröfu. En lengra vil jeg ekki ganga, því að jeg álít, að löggjöfin sje hjer á skakkri braut. Enda er ekki hægt að neita því, að alt þetta togstrit um að víkka heimildina til útsvarsálagningar er meira og minna hrein hreppapólitík, sein reyndar hefir stundum við dálítil rök að styðjast, en þó oftast mjög veigalítil. Að því er snertir þau forrjettindi, sem Reykjavík hefir þegar fengið í þessum efnum, skal jeg geta þess, að jeg hefi altaf verið þeim andvígur og vona, að bráðlega verði snúið við á þeirri braut, enda hafa hin smærri sveitarfjelög sjeð, að hún er ekki heppileg. Það hefir verið rætt, bæði innan allshn. og utan, að tími væri til kominn að skipa milliþinganefnd til að íhuga sveitarstjórnarmálefni landsins í heild. Jeg er einnig á þessari skoðun. Sjerstaklega er athugavert, hversu lög kaupstaðanna fjarlægjast óðum hin alm. sveitarstjórnarlög, sem gilda enn í sveitum landsins að mestu leyti. Í því efni er að verða fullkominn glundroði, vegna þess, að ekki hefir verið athugað, eins og til var ætlast árin 1872 og 1889, að allsherjarfyrirmæli um útsvarsskyldu eiga að gilda um land alt. Þetta atriði, og eins fyrirmælin um kosningarrjett í sveitarmálefnum, mætti taka út úr sveitarstjórnarlögunum og setja um það sjerstök lög, er giltu fyrir alt landið. Það er ofureinfalt mál, að í þessum efnum verða að gilda sömu lög um land alt, og er því fyllilega tímabært, að leiðrjetta allan þann glundroða, sem orðinn er. Væri því ekki úr vegi að setja milliþinganefnd, sem skyldi fyrst og fremst semja frv. um þau atriði, er jeg áður nefndi, útsvarsskylduna og kosningarrjettinn, en síðan taka sveitarstjórnarmálefni yfirleitt til athugunar, ef mönnum sýndist svo.

Það er ekki hægt að neita því, að þessar sífeldu breytingar á lögum kosta ærna peninga, svo að það er líka sparnaður í því fólginn, að skipa lögum þessum í fast og viðunandi horf.

Jeg vil biðja hv. deild afsökunar á því, hversu langorður jeg hefi verið um ekki stærra frv., en það er vegna þess, að í því felst stefnuatriði, sem þarf alvarlega að athuga.