28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Magnús Torfason:

Jeg er þakklátur hæstv. atvrh. (MG) fyrir orð hans og undirtektir við mitt mál. Ræða hans hnje öll að því, að það væri rjett, sem jeg hefi haldið fram í þessu máli. En samt vil jeg þó aðeins benda á það, að jeg tel það mjög hæpið, að telja lögskráningu á skip með föstu aðsetri eða heimilisfangi. Þetta eru undantekningarákvæði, sem komin eru inn í Reykjavíkurlögin, en dómstólamir munu fara varlega, er kemur til skýringar á slíkum ákvæðum, og munu vart leggja áherslu á undantekningarákvæði.

Málið er nú komið í það horf, að talað er um að samþ. verði frv. óbreytt, af því að Hafnarfjörður eigi að hafa sama rjett og Rvík. En menn gá ekki að því, að miklu stærra misrjetti en gagnvart Rvík helst, þrátt fyrir það, þótt þetta frv. verði samþ. Jeg hefi heyrt, að margir sjómenn úr Hafnarfirði muni leita sjer atvinnu hjer í Rvík, og úr Rvík í Hafnarfirði, og hygg jeg því, að þetta jafnist nokkuð upp. (ÁF: Eins og nú standa sakir?) — Svo mikið er vist, að fjöldi manna austan úr sveitum leitar sjer atvinnu í Hafnarfirði. Jeg varð þess var áður en jeg fór að heiman hingað til þings, að þar var fjöldi manna, sem ætlaði á togara í Hafnarfirði. Verður því eftir misrjettið gagnvart sveitunum, og er það miklu mest.

Þá er og önnur ástœða, sem færð hefir verið fyrir því, að rjett væri að samþykkja frv., þ. e., að það sje rjett að lofa þessum lögum, eða ólögum, að standa um hríð ennþá, til þess að ýta undir stefnubreytingu í málinu. Þetta má auðvitað kalla góða pólitíska ástæðu. En við þingmenn höfum ekki rjett til að hugsa þannig. Við erum skyldugir til — sem þingmenn — að sjá við þessum leka sem allra fyrst. Annars horfir þetta mál skrítilega við. Fyrst fá Hafnfirðingar að hafa þarna marga togara erlenda — 6 í fyrra, 10 áttu að vera í ár — og það fyrir laganauðung. Jeg segi þetta ekki til ámælis, því að allir vissu, hvernig ástatt var í Hafnarfirði, og var þetta því ekkert annað en bjargráðatilraun við Hafnfirðinga. (ÁF: Ekki samt frá þingsins hálfu!) Þingmenn munu þó hafa ýtt undir það, og kalla jeg þeim illa þakkað, sem best gengu fram í þessu máli. Þegar búið er að rjetta við hag Hafnarfjarðar, heimta þeir sjerrjettindi til þess að leggja skatt á alla, sem stunda atvinnu á þessum togurum. Jeg verð að segja, að skörin er nú farin að færast upp í bekkinn. Þeir vilja leggja skatt á þá menn, sem færa þeim gæðin í land og verða stór tekjugrein fyrir þeirra eigin bæjarfjelag. Að öðru leyti má segja, að fái þetta frv. framgang óbreytt, þá er það áreiðanlega í fyrsta sinn, sem Alþingi með ráðnum hug samþ. lög, sem á að skýra öðruvísi en samkv. innihaldi þeirra. En jeg hjelt, að lögskýringar væru nógu hæpnar, þó að ekki væri farið inn á þessa braut.

Hv. flm. (ÁF) sagði, að þessi till. mín gengi aðeins út á það, að erlendir menn á erlendum togurum ættu að vera gjaldskyldir. Þetta er ekki allskostar rjett. Jeg lýsti því yfir, að ákvæðið næði líka til þeirra, sem ekki hafa neinsstaðar annarsstaðar lögheimili hjer á landi, og þeir munu ekki vera svo fáir. Að minsta kosti hefi jeg orðið að sekta allmarga menn, sem hafa þóst vera skrifaðir hingað og þangað og reyndu að koma sjer undan skatti. Eftir þessa spjaldaskrá, sem Reykvíkingar fengu, eru samt eftir mörg hundruð manns, sem komast undan skatti. Á slíkt fólk mega Hafnfirðingar leggja samkv. minni till. eins og þeir vilja og geta.

Hv. flm. og ýmsir aðrir hv. þm. hafa blandað í umræðurnar álögum á arðvænleg fyrirtæki. Jeg vil henda á, að þetta kemur þessu máli ekkert við á þessu stigi þess, þó að jeg aðeins benti á, að það þyrfti að samræma þessi lög.

Þá skal jeg snúa mjer með fáum orðum að hv. frsm. meirihl. (JBald). Hann sagði, að nefndin hefði ekki getað fundið, hvernig hún ætti að breyta þessu, svo vel færi. Það mun rjett, að í nefndinni kom ekki fram ákveðin brtt., en jeg lýsti yfir, hvernig jeg hugsaði mjer brtt. Því að mjer var ósköp auðvelt að finna mátann til þess að koma lögunum í það horf, sem ætti að vera eftir tilgangi þeirra og óskum hv. flm. í greinargerð hans, eins og jeg líka gerði.

Þá hefir enn verið talað um, hvað „fast aðsetur“ þýddi. Jeg skýrði frá því í gær, eftir ágætum heimildum, og líka, að yfirrjetturinn hjer og hæstirjettur hefðu haldið þeirri skoðun fast fram alla tíð. Um það, að framkvæmd þessara laga væri öðruvísi en vera ætti, verð jeg að segja fyrir mig, að jeg get lýst því yfir, að þau 10 ár, sem jeg var í Rangárvallasýslu, kom ekki fyrir, að slík mál væru borin undir mig eins og þetta. Á Ísafirði komu að vísu 2–3 þesskonar mál, sem jeg kvað upp úrskurð í; eftir það tók algerlega fyrir þetta. Yfirleitt var það stefnan í Ísafjarðarsýslu, að vera ekki að seilast eftir bitum frá öðrum. Þegar jeg kom í Árnessýslu, var nokkur ringulreið komin á í þessu atriði, en jeg kipti því þegar í lag.

Eitt atriði var talsvert áberandi í ræðu hv. frsm. meirihl. (JBald). Mjer fanst bregða þar illþægilega fyrir Reykavíkurpólitík, því það, að hann samþykti þetta, á ekki rót sína í neinu öðru. Yfirleitt talaði hann þannig í þessu máli, að borgarstjóri í Reykjavík og bæjarstjóri í Hafnarfirði hefðu ekki gert betur. Þetta þótti mjer talsvert kynlegt, frá hans sjónarmiði, því þessi lög Reykjavíkur og Hafnarfjarðar ganga út á það, að elta verkamenn með álögum. Það hjelt jeg, að væri ekki eiginlega eftir hans nótum. Sannast það, er jeg hefi áður sagt þessum hv. þm., að jeg þykist miklu betur skilja margt af kröfum verkamanna heldur en jafnvel hann.

Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um kaupafólkið. Jeg veit heldur ekki til þess, þar sem jeg hefi verið dómari, að lagt væri á það. Ef það breytti um aðsetur og flutti í sveit, er annað mál. En ekki verður hjá því komist, að skrifa sig þar, sem manntal er tekið. Það er lagt á menn í sveit í október, ef þeir eru þar þá og verða áfram.

Hingað til Reykjavíkur koma margir Árnesingar og vinna um stundarsakir. Á þá eru lögð ýms gjöld, sem jeg er beðinn að innheimta. Svo kemur upp úr kafinu, að þeir eiga aðsetur annarsstaðar og verða þar að greiða gjöld.

Jeg þori að slá því föstu, að órjettur og misrjetti í landinu eykst áreiðanlega því meir sem farið er lengra út á þá braut, að leggja gjöld á menn, þar sem þeir eiga ekki lögheimili.

Þá hygg jeg, að jeg skjóti ekki langt frá marki, er jeg segi, að í Árnessýslu sjeu þúsund manns í kaupavinnu á hverju sumri, 8–9 vikur. Ef við leggjum nú saman, verða það 8–10 þús. vikur. Fjöldinn er úr sjávarplássum. En Árnesingar munu ekki vinna í Hafnarfirði nema nokkur hundruð vikur. Eftir frv. kemur hjer fram herfilegt misrjetti. Jafnrjetti er best trygt með því, að hafa tímatakmarkið fyrir álagningunni langt. Og rjetta stefnan er, að sú sveit, sem skyldurnar hefir gagnvart hverjum manni, hún hafi álögurjettinn.

Andmæli hafa komið fram gagnvart þessum lögum, úr Gullbringu- og Kjósarsýslu, frá hreppi, sem stynur undir gjaldabyrðinni. Gjöldin þar eru yfir 160 kr. á hvert nef. Svo á að rænast eftir þeim fáu aurum, sem þessir menn geta fengið annarsstaðar, þegar búð er að ræna þá bjargræðislindunum, sem voru í plássinu áður.