28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er út af þessum orðum um „fast aðsetur“, sem jeg ætla að segja fáein orð. Mjer skilst, að hv. 1. þm. Árn. (MT) hafi fært rök að því, að orðin „fast aðsetur“ hafi áður aðeins verið höfð um þá menn, sem ekki áttu lögheimili annarsstaðar, og komið í staðinn fyrir „lögheimili“. En jeg held, að hægt sje að benda á það allvíða í gerðum þingsins og einstakra sýslna, að þessu hefir ekki verið fylgt. Það hefir verið látið nægja til útsvarsálagningar, ef maðurinn á „fast aðsetur“ við atvinnu, þó annarsstaðar eigi lögheimili. Og einmitt á þessum skilningi held jeg að byggist þessi útsvarsálagning í Reykjavík, hvað skipin snertir. Menn eru skoðaðir hafa fast aðsetur í Reykjavík, ef þeir eru skráðir á skip, sem er skrásett þar, hvað sem heimilisfangi líður, og er þetta í samræmi við það, að skip eigi heimili, þar sem það er skrásett.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) fór að tala um frv., sem jeg flyt í hv. Ed. En það er nú reyndar ekki á dagskrá, svo fullsnemt er fyrir hv. þm. að andmæla, áður en það er komið til hv. deildar.

Annars vildi jeg árjetta það, sem jeg sagði í gær, að jeg álít mjög erfitt að neita Hafnfirðingum, meðan Reykvíkingar hafa þessi sjerrjettindi. Jeg vil nema þau í burt sem allra fyrst. En jeg áleit ekki til neins að fara fram á það á þessu þingi, sem er alveg eins skipað og í fyrra, þegar það setti lögin. Nú heyrast mjer skoðanir dálítið breyttar síðan í fyrra, og þessvegna mun jeg ekki skorast undan að koma með frv. um útsvarsskyldu á næsta þingi, ef jeg annars fer með þessi mál. Og þá finst mjer sama regla ætti að mestu að gilda um alt landið.