28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Það er aðeins athugasemd viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að við ættum að geta komið okkur saman um þetta mál, Hafnfirðingar og Reykvíkingar. Jeg vil benda honum á það — sem hann þó hlýtur að þekkja — að meðan annar bærinn hefir öll rjettindin, en hinn allar skyldurnar, munu þeir ekki kæra sig um samkomulag. Hjer er ekki um annað en hreint og beint misrjetti að ræða. Jeg get lýst því yfir, að jeg er því alls ekki fylgjandi, að það eigi að taka útsvör af mönnum hvar sem er. En það verður að samræma þessi álögurjettindi og gera svo úr garði, að ekkert verði til að valda ósanngirni og óvináttu, sem ekki verður komist hjá, eins og nú stendur. Hjer er rammasta hreppapólitík á ferðinni, og hún verður að magnast alla þá stund, sem þessi órjettlátu lög standa.

Hinsvegar vil jeg ekki fara eins langt eins og margir hafa lýst yfir hjer, að leysa algerlega undan gjöldum þá, sem ekki eiga lögheimili eða aðsetur þar, sem atvinnan er rekin. Það tel jeg ógerlegt. Það mun sannast, að ef við brjótum það mál til mergjar, þá munum við reka okkur á þann þröskuld, sem við ekki komumst yfir. Sú breyting mundi gera ilt verra. Kappið í þessu máli, sem kemur frá vissra manna hálfu, eins og hv. 1. þm. Árn. (MT) stafar af því, að þeir og hann eru að hugsa um sína sveit. Hann vill losa undan gjöldum þá Árnesinga, sem sækja til Hafnafjarðar. Jeg skil þessa ástæðu, en hún er ekki rjettmæt og ekki frambærileg í þingsal — að halda hlífiskildi yfir órjetti á einum stað, en láta aðra sitja með skertan hlut. Gangi frv. þetta ekki fram á þessu þingi, er þó óhjákvæmilegt að breyta því, sem gert var í fyrra, nema úr gildi umrædda gjaldskyldu í lögum um bæjargjöld í Reykjavík. (MT: Heyr, heyr!) En satt að segja mætti það heita mjög merkilegt, ef þingið vildi nú ónýta þessi lög, sem gengu svo hljóðalaust í gegn í fyrra (HK: O, það voru nú margir á móti þeim!) — að það geispaði ekki grá mús á móti þeirri lagasetningu þá.