28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í C-deild Alþingistíðinda. (2819)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. minnihl. (Magnús Torfason):

Hv. þm. Borgf. kom með þá fyrirspurn til mín, hvort jeg myndi fús að vera með í því, að bera fram frv. um að umrætt atriði yrði numið úr Reykjavíkurlögunum. Hvað þetta snertir, þá get jeg látið mjer nægja að skírskota til þess, sem jeg hefi áður mælt, að mjer liggur nær, að nema burt órjettinn úr lögunum, í stað þess að bæta gráu ofan á svart. Jeg get ennfremur lýst yfir því, að þetta hefir komið til tals í allshn., en einn nefndarmaður hefir verið sjúkur undanfarið, og því hefir málið ekki verið tekið til jafnalvarlegrar íhugunar sem annars hefði orðið. En það get jeg sagt, að jeg tel engan vanda á því, að koma með brtt. við Reykjavíkurlögin, svo þar gildi í þessu efni sömu lög og annarsstaðar á landinu.

Hv. 1. þm. G.-K. (AF) beindi til mín nokkrum orðuni. Fanst það á, að hann kýs óvináttu við nærsveitirnar, og þar á meðal við kjósendur sína, en vill gjarnan koma sjer í mjúkinn hjá Hafnfirðingum. Hv. þm. (ÁF) talaði um það mikla kapp, sem jeg beitti í þessu máli. Það er nú samt sem áður ekki meira en svo, að jeg hefi aðeins lagt mig í líma við, að verða við óskum manna í kjördæmi þessa hv. þm. (ÁF). Hann veit sjálfur, að hreppsnefndarmenn þaðan hafa komið á fund allshn., til að biðjast ásjár gegn frv. þessu. Eða er hv. þm. (ÁF) þm. fyrir Hafnarfjörð einan, en ekki fyrir hreppana, sem að honum liggja?

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um lögbrot, sem framin hefðu verið með útsvarsálagningu. Það er rjett, að brögð hafa sjálfsagt orðið að því, t. d. hefir eitt slíkt brot nýlega verið framið í mínu gamla umdæmi, Ísafjarðarsýslu. En það er ómögulegt fyrir Alþingi að bæta úr því, þó einstakir dómendur skýri lögin ranglega. Og ekki get jeg búist við, að hv. þm. (JBald) vilji bera ábyrgð á öllum skyssum dómara, síst sumra þeirra fyrir vestan.

Að öðru leyti læt jeg mjer nægja það, sem jeg hefi áður sagt. Jeg stend við það alt, og vænti nú stuðnings mætra manna til að fella þetta frv.