06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Það er nú í raun og veru búið að ræða þetta frv. svo rækilega, að óþarfi er að bæta miklu þar við. Jeg get skírskotað til þess, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði. Hann færði skýr og ljós rök að því, að ósanngjarnt væri að neita þessu frv. um að ganga fram. Hvað sem gert verður við sveitarstjórnarlögin, er það með öllu óhæfilegt, að fella þetta frv. Þetta frv. getur ekki orðið til annars en þess, að bæta úr órjetti, sem á sjer stað, og getur ekki spilt fyrir endurskoðun sveitarstjórnarlaganna. Ástæðan fyrir frv. er svo augljós, að hana skilur hvert barn. Útsvarsskyldur utanbæjarmanna, sem leita sjer atvinnu í Reykjavík og Hafnarfirði, verða að byggjast á sama grundvelli. Annað væri ósanngjarnt. En annað mál er það, hvort sá grundvöllur er rjettur, sem lagður var í fyrra með breyting Reykjavíkurlaganna, en mjer finst þó fyrir mitt leyti hann vera nokkru skárri en sá, sem bygt var á áður.

Jeg hefi ekki sjeð, að neinar gildar ástæður hafi komið fram gegn frv. því, er hjer varð að lögum í fyrra, um samskonar atriði, nefnil. lögum um bæjargjöld í Reykjavík. Enda get jeg ekki sjeð, að heimilisfang sje eina rjettmæta ástæðan fyrir útsvarsskyldu. Og allar breytingar, sem gerðar hafa verið á þessum lögum síðan 1905, hafa þó gengið meir og meir í þá átt, að færa útsvarsskylduna þangað, sem atvinnan er rekin. Hingað til hefir þetta ekki sætt neinum mótmælum, af því að það hefir ekki snert sveitirnar. En nú, þegar Hafnarfjörður og Reykjavík ætla að fá þau sömu rjettindi, sem önnur hjeruð hafa áður fengið, ætla sumir háttv. þm. hreint að ganga af göflunum. En það skal jeg taka fram, að jeg hefi ekki heyrt fólk, sem notið hefir atvinnu í þessum stöðum, telja neitt ósanngjarnt, þó það þurfi að greiða þar dálítið útsvar. Hvort atvinnan er rekin á sjó eða landi, finst mjer alveg sama, og því ekki hægt að deila um það. Því ef jeg hefi t. d. tvo menn í vinnu, annan til að hausa fiskinn, en hinn til þess að taka á móti honum í landi, finst mjer engri átt ná, að gera annan útsvarsskyldan, en hinn ekki. Órjettlætið, að gera mun á þessum tveimur mönnum, er bersýnilegt.

Ef útsvarsskyldan væri eingöngu bundin við heimilisfang, gæti jeg trúað, að oft yrði úr vöndu að ráða. Því að nú er fjöldi manna ekkert bundinn við heimili sitt, menn oft skrifaðir til heimilis, þar sem þeir aldrei koma. Eitt dæmi, sem jeg þekki, sannar þetta vel. Skipstjóri með skip hjeðan úr Reykjavík lætur skrifa sig til heimilis austur í Vestmannaeyjum, en þangað kom hann aldrei — rekur alla sína atvinnu á skipi frá Rvík og hefir feiknamiklar tekjur. Á þennan mann var ekkert lagt í Rvík, því hann átti þar ekki lögheimili og rak ekki atvinnu þar í landi. Er nú nokkurt rjettlæti, að mega ekki leggja útsvar á manninn í Reykjavík? Jeg segi nei.

Jeg sje nú ekki annað en frv. þetta geti vel gengið í gegnum þingið. Þó að það bæti ekki með öllu úr þessu ranglæti, þá er það þó spor í rjetta átt, og bætir úr þessum göllum, sem mest ber nú á, um Rvík og Hafnarfjörð.