06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Hákon Kristófersson:

Aðeins örfá orð, út af því, sem háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) sagði. Háttv. þm. sagði, að engar gildar ástæður hefðu komið fram með frv. mínu á þskj. 113. Með sama rjetti gætum við sagt hið gagnstæða, að engin rök hefðu komið fram gegn frv. mínu.

Þá taldi þessi sami háttv. þm., að rjett væri, að útsvarsskyldan væri þar, sem atvinnan væri rekin, en ekkert bundin við heimilisfang. En lengi má teygja það og toga, hvar rekin sje atvinna, hvort frekar beri að leggja á togaravinnu en kaupavinnu o. fl. Annars furðaði mig stórlega, að háttv. þm. (ÁF) skyldi segja, að þetta frv. hefði ekki komið fram, ef heimildin fyrir Reykjavík hefði ekki verið samþykt í fyrra. En ef heimildin verður feld niður, eins og frv. mitt fer fram á, sje jeg ekki annað en hann megi vel við una.

Þó nú frv. háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) yrði samþykt, getur vel orkað tvímælis, hvort hann muni styðja okkur að því, að koma fram hinum nauðsynlegustu leiðrjettingum á þessum málum. Miklu frekar gæti jeg trúað því, að hann myndi styðja takmarkað rjettlæti í þeim, eins og átti sjer stað hjer í fyrra.

Ef háttv. deild vill nú ekki leiðrjetta þau mistök, sem hjá henni urðu í fyrra í þessu máli, er nauðsyn að sýna frv. þessu fulla hörku. Hið vægasta, sem hægt er við það að gera, er að vísa því til stjórnarinnar, sem jeg geri enn að tillögu minni.