06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Jakob Möller:

Jeg vildi mega beina þeirri fyrirspurn til háttv. þm. Barð. (HK), hversvegna hann hafði frv. ekki tvö. Annað um að fella niður heimild þá, sem Reykjavíkurbæ var veitt í fyrra til útsvarsálagningar á utanbæjarmenn, en hitt um þá breyting á sveitarstjórnarlögunum, að banna að leggja útsvar á kaupafólk o. fl. Þá hefði hann verið sjálfum sjer samkvæmur. En þegar þessi háttv. þm. vill láta fella þetta frv. og samþykkja sitt, þá gef jeg því illan grun, að hann ætli sjer að fylgja rjettlátri. og gagngerðri endurskoðun á sveitastjórnarlögunum síðar.

Háttv. þm. Dala. (BJ) kvaðst vera mjög á móti þessum eltingaleik. Um það skal jeg ekkert deila. En jeg legg áherslu á það, að þessi eltingaleikur var hafinn í sveitunum, og þá er ekki sanngjarnt að rísa á móti honum, þegar kaupstaðirnir vilja koma með í leikinn og njóta sömu rjettinda og sveitirnar.