06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í C-deild Alþingistíðinda. (2841)

44. mál, ræktunarsjóður hinn nýi

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta mun vera í fimta skiftið, sem mál þetta kemur á dagskrá, og er langt síðan að það var fram borið. En jeg veit, að það kemur ekki að sök. Landbn. hefir borist annað frv., er fer í líka átt, og hefir hún þegar haft þetta frv. til hliðsjónar, þó að ekki væri búið að vísa því til hennar. Jeg er því ekkert hræddur um, að þessi dráttur valdi neinu um úrslit þessa merka máls.

Jeg mun ekki nota þetta tækifæri til að rifja upp gamla reikninga við hæstv. stjórn, fyrir öll hennar afskifti og afskiftaleysi í búnaðarlánadeildarmálinu. Jeg læt mjer hægt um, hvað gerst hefir undanfarið. Mjer er sama, í hvaða formi málið gengur fram: hvort lánsstofnunin heitir Búnaðarlánadeild eða Ræktunarsjóður. Aðalatriðið er það, að því marki verði náð, að lánsstofnun komist á fót, sem veiti bændum hagkvæm lán. Mun jeg síst vilja stofna til meiri deilu um málið, ef von er um einhverja samvinnu um það.

Þetta frv., er jeg ber hjer fram, er orðrjett frá nefnd, er Búnaðarfjel. skipaði í haust, til að athuga þetta mál, og í áttu sæti fulltrúar bændanna og einhver merkasti, eða allra merkasti útgerðarmaðurinn. Jeg hefi flutt það óbreytt, ekki af því, að jeg sje því samþykkur í öllum atriðum, heldur af hinu, að jeg tel nefndina hafa unnið gott verk og stefnt í rjetta átt, og hefi viljað sýna henni þá virðingu, að flytja frv. óbreytt.

Frv. það, sem stjórnin flytur um þetta efni, var komið fram áður en frv. þetta var prentað, og er það, sem á milli ber, tekið fram á síðustu bls. þessa frv. Jeg skal þegar lýsa yfir því, að jeg stend fast á þeim grundvallaratriðum, sem á milli ber og einmitt eru einhver þýðingarmestu atriði frv. Jeg tel stjfrv. afturför frá búnaðarlánadeildinni, en þetta frv. stórum mun betra. En eins og jeg hefi sagt, vil jeg ekki stofna hjer til ósamkomulags, með því að rekja þennan mun nánar, ef góð samvinna gæti að öðrum kosti tekist um málið. Jeg vildi því aðeins bæta við, að jeg óska, að málinu sje vísað til landbn.