20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

49. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Sigurðsson):

Á síðustu árum hafa komið fram mjög eindregnar óskir um að sveitarstjórnarlögunum væri breytt í nokkrum atriðum og þau gerð aðgengilegri fyrir almenning. Tilgangur okkar flm. er því í fyrsta lagi sá, að gera þær breytingar, sem telja verður nauðsynlegar vegna þeirra laga, sem sett hafa verið, eða óumflýjanlegar eru af breyttum ástæðum, og í öðru lagi, að draga saman í eina heild þær breytingar, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, svo að hver ólögfróður maður geti nokkurnvegin vitað, hvað gildandi lög eru um þetta. Helsta breytingin, sem gerð er í þessu frv., er sú, að ætlast er til, að niðurjöfnun útsvara fari fram á vorin. Þegar lögin um tekju- og eignaskatt voru sett 1921, þá voru afnumin lögin um lausafjártíund og þáverandi lög um eignaskatt. En þetta var einmitt það, sem hreppsnefndirnar höfðu stuðst við, er útsvar var á lagt. Þessvegna var nú ekki um annað að ræða en að fá til afnota skýrslurnar um tekju- og eignaskatt til þess að fara eftir. Þær hafa líka verið víða lagðar til grundvallar fyrir útsvörunum, og hverfa fleiri og fleiri hreppsnefndir að því ráði; það er meira að segja svo, að í sumum sýslum er þetta gert í öllum hreppum. En þessar skýrslur eru gerðar í febrúar, en niðurjöfnunin 8–9 mánuðum síðar. Þannig eru tekjurnar, sem bygt er á, aflaðar ári áður en álagningin er gerð. Allir hljóta að sjá, að þetta er óeðlilegt, og efnahagur og ástæður manna getur mikið breyst á þessum tíma. Því er það næstum einróma ósk allra hreppsnefnda, sem við þessar skýrslur styðjast, að niðurjöfnunin sje færð frá haustinu yfir á vorið. Þetta ákvæði höfum við því tekið upp í frv., með það fyrir augum, að hreppsnefndir gætu notið skýrslna um tekjur og eignir manna, strax eftir að þær eru fullgerðar. Og í samræmi við þetta leggjum við einnig til, að eindagi útsvarsgreiðslu verði færður til fram á haust, sem nú er, hvort eð er, orðinn langalgengasti greiðslutími, a. m. k. til sveita. Þann tíma nota menn nú orðið til nokkurskonar allsherjar „uppgjörs“, og er því ekki nema eðlilegt, að eindagi útsvarsgreiðslu verði fluttur til í samræmi við þessa venju. Sveitarstjórnarlögin ákveða, að lögð skuli á menn útsvör eftir efnum og ástæðum, en kveða svo ekkert nánar á um þetta ákvæði. Er því lagt á vald sveitastjórnanna, að leggja mælikvarða á efni manna og ástæður eftir eigin geðþótta. Er oft undir hælinn lagt, hvort þær leggja þar til grundvallar tekjur manna og skuldlausar eignir, eða hugboð eitt, eða jafnvel enn annan mælikvarða. Af þessu leiðir, að útsvör manna geta oft orðið mjög mismunandi hjá mönnum, sínum í hvorum hreppi, þótt ástæður mannanna og hreppanna sjeu hinar sömu. Gefur slíkt fyrirkomulag oft tilefni til mengrar óánægju innan hreppanna, sem vonlegt er. Til að ráða á þessu bót, höfum við lagt til, að sýslunefndum verði heimilað að setja nánari reglur um útsvarsálagningu, sjerstaklega að ákveða fastan mælikvarða, sem hreppsnefndir skuli fara eftir, þegar þær dæma um efni og ástæður manna. Að vísu mætti kanske setja nánari fyrirmæli um þetta atriði í sjálf sveitarstjórnarlögin, en það yrði þó talsverðum örðugleikum bundið, vegna þess, hve staðhættir og atvinnuvegir eru mismunandi í ýmsum hlutum landsins. Öðru máli er að gegna, að fela starf þetta sýslunefndunum. Þær hafa yfir minna landssvæði að segja, og staðhættir allir og atvinnuvegir oftast tiltölulega líkir innan takmarka þess. Auk þess eiga að jafnaði sæti í sýslunefnd menn, sem meira og minna eru og hafa verið riðnir við sveitarmálefni heima fyrir, og eru því venjulega vel kunnugir framkvæmd sveitarstjórnarlaganna. Má því ætla, að tillögur sýslunefndar í þessum efnum verði ávöxtur af margra ára athugunum og reynslu þeirra manna, sem þar eiga sæti, og að þær verði því vel viðunandi, enda engar líkur til þess, að þeir fari öðruvísi að ráði sínu en lög gera ráð fyrir. En þó að svo ólíklega kunni að fara, í einstaka tilfelli, að tillögur sýslunefndar brjóti í bág við grundvallarreglur laganna, þá getur stjórnarráðið altaf tekið í taumana og neitað reglugerð sýslunefndar um staðfestingu.

Þá felst enn eitt nýmæli í frv. þessu, þar sem lagt er til, að húsbændum sje gert að skyldu að sjá um útsvarsgreiðslu fólks, sem dvelur hjá þeim aðeins lítinn og óákveðinn tíma, án þess að vera búsett í hreppnum. Það kemur æ betur og betur í ljós, hvílíkum örðugleikum það er oft bundið, að fá greidd útsvör slíks fólks, sem oft má kalla nokkurskonar farfugla og dvelur ekki nema skamma stund á hverjum stað. Og nauðsyn slíks ákvæðis verður stöðugt ríkari, eftir því sem það fer í vöxt, að fólk sje sífelt að flytja sig milli hreppa, sýslna eða jafnvel landsfjórðunga. Sjerstaklega mun þörf slíkra ráðstafana við sjávarsíðuna.

Þá eru rýmkuð sum ákvæði sveitarstjórnarlaganna með frv. þessu, t. d. um greiðslu á launum hreppsnefndaroddvita. Störf oddvita eru orðin svo umfangsmikil, að engin von er til þess, að menn fáist til að gegna þeim lengur en lög bjóða fyrir t. d. 60 kr. þóknun á ári. Vinnukraftur er allur svo dýr orðinn og bændur auk þess flestir einyrkjar, að ómögulegt er að ætlast til, að þeir geti lagt á sig mikil aukastörf fyrir sama og enga borgun. En samkv. sveitarstjórnarlögunum er nú ekki heimilt að greiða oddvitum í minstu hreppunum meira en 60 kr. árlega, og hafa því sum sveitarfjelög orðið að fara í kringum þetta ákvæði laganna, til þess að verða ekki af góðum mönnum úr oddvitastöðunni. Okkur sýnist ástæðulaust að einskorða sig við þessa lágu þóknun, og höfum því lagt til, að heimilt sje að greiða oddvita hærri laun, ef meirihluti hreppsbúa samþykkir á hreppsfundi.

Jeg skal geta þess, að upp í frv. þetta eru teknar breytingar, sem gerðar hafa verið á sveitarstjórnarlögunum síðan þau voru sett, þó að undanskildum viðauka við þau, sem settur var árið 1915 um leynilegar kosningar til hrepps- og sýslunefnda. Getur hann vel staðið sem sjerstök lög, og er vísað til þeirra í frv.

Vegna breytingar þeirrar, sem gert er ráð fyrir að verði á niðurjöfnunartímanum, höfum við orðið að setja í frv. eitt bráðabirgðaákvæði. Það verður ekki hjá því komist, ef breytingar þær, sem í frv. felast, ná fram að ganga, að næsta reikningsár hreppanna verði nálægt 11/2 ár. Nú er varhugavert, að lengja svo reikningsárið, án þess að um leið verði gerðar ráðstafanir til að sveitarstjórnirnar geti aflað nauðsynlegra tekna, og er því hreppsnefndum í frv. gefið leyfi til að jafna niður nú í okt. Í haust fyrir nauðsynlegum útgjöldum, þar til aðalniðurjöfnun fer fram, að vori.

Það má vel vera, að hv. allshn., sem jeg vænti að fái frv. þetta til meðferðar, finni einhverja heppilegri úrlausn, bæði að því er snertir þetta atriði frv. og önnur. Jeg vil ekki neita því fyrirfram, að einhverjir gallar kunni að vera á frv. Við flm. þess höfum, því miður, haft takmarkaðan tíma til undirbúnings því, vegna annara þingstarfa. En hinsvegar teljum við málið svo nauðsynlegt, að við vildum ekki draga það lengi fram eftir þingi, að frv. þetta kæmi fram.

Að lokum vil jeg vona, að hv. allshn. vinni með alúð að frv. þessu og að henni megi takast að sníða af þá vankanta, sem á því kunna að vera, svo að allir megi vel við una.