07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

63. mál, einkasala á útfluttri síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er ekki nýr gestur hjer á Alþingi. Það hefir nokkrum sinnum áður komið fram, en ekki hlotið afgreiðslu. Síldveiðarnar eru einkennilegur atvinnurekstur. Þau árin, sem mikið aflast, er hann stórhættulegur, og eins þau árin, sem lítið aflast. Það er aðeins, ef hinn gullni meðalvegur fæst, að þær fara sæmilega úr hendi. Þessvegna er það algengt, að síldarútgerðarmenn fá hvergi peningalán til atvinnurekstrarins, vegna þess, hve mikil áhætta fylgir honum. Stundum eru útgerðarmenn miljónamæringar, en svo ef til vill öreigar næsta ár.

Menn þykjast nú að vísu sjá, að ekki þurfi jafnmikil áhætta að fylgja síldveiðunum og verið hefir undanfarin ár. það hafi ekki vantað annað en nauðsynlegt skipulag á sölu síldarinnar; þar sje leiðin út úr ógöngunum, og síldveiðaútgerðarmenn hafa oft fundið til þessa, og hv. þm. munu eflaust muna eftir erindum, er borist hafa frá þeim um þetta efni. Það eru áreiðanlega ekki fáir af síldarútgerðarmönnum, sem hníga að því, að ríkið ætti að hafa síldarsöluna á hendi. Sem stendur er salan svo dreifð, að ekkert eftirlit er hægt að hafa með því, að síldin sje ekki boðin út á óhentugum tíma og fyrir of lágt verð. Þessu þýðir ekki að mótmæla; það gildir bæði um fisk og síld, og þó sjerstaklega um síldina. Við sjáum líka, að atvinnurekendur hafa sameinast til þess að gæta hagsmuna sinna og stundum myndað „hringa“ í því skyni. Hjer á það aftur að vera ríkið sjálft, sem tekur síldarsöluna í sínar hendur og bannar algerlega öllum öðrum að flytja út síld og selja.

Síðan fiskiveiðalögin voru sett, hafa menn búist við því, að síldarútvegurinn mundi gefast betur en áður fyrir þjóðina. Hinir mörgu útlendingar mundu hverfa eða verða ekki hættulegir í samkepni. En þeir, sem stunda helst þá atvinnu hjer við land, Norðmenn, eru ekki í vandræðum með að finna ýmsar leiðir og koma því svo fyrir, að þeir hafi sömu landsnytjar við atvinnuna og Íslendingar. Jeg þarf ekki að rekja þetta; menn munu sjá, að lítið hefir batnað í þessu efni. Atvinnuvegurinn er jafnstopull sem áður, en úr þessu má bæta með því, að ríkið taki síldarsöluna í sínar hendur. Þetta er ekkert misrjetti nje móðgun við útlenda menn, er hjer stunda síldveiðar, því að hið sama á að ganga yfir alla, að ríkið geti stjórnað útboði og sölu eftir sinni vild. Ef slíkt skipulag hefði verið komið á á s.l. sumri, hefði að minsta kosti hinir smærri útgerðarmenn fengið miklu hærra verð fyrir síld sína, því að þá hefði hún verið geymd, þangað til verð hækkaði. Að vísu er líklegt, að ríkið muni vilja tryggja sig með því að selja einhvern hluta síldarinnar fyrirfram, en þó aldrei nema nokkurn hluta veiðinnar. Hinsvegar hefði reynslan sýnt s.l. ár, að stórmikið fje hefði græðst á seinustu síldinni, vegna hins háa verðs, og af því hefðu allir notið, ef ríkið hefði haft söluna. Og því er enginn efi á því, að almenningur, sem síldaratvinnu stundaði s.l. ár, hefði haft miklu meira í aðra hönd, ef ríkið hefði haft einkasölu.

Hv. þdm. er mál þetta kunnugt frá síðasta þingi. Þá var því að vísu tekið ómjúklega og felt við 2. umr. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, þótt þm. taki nú fyrir að fella frv. þetta. Hefir mótstaða hv. þm. sannfært mig um það, að mál þetta sje gott og muni hafast fram að lokum.

Lýk jeg svo hjer með máli mínu, og legg til, að frv. verði vísað til sjútvn., að þessari umr. lokinni.