11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Það kann að vera, að tillaga mín sje þess eðlis, að ilt sje að geta ekki um leið komið með brtt. um fjárhæðina. En það er ekki mín sök, þó að till. fylgi enginn útreikningur; þó að aðaltill. mín kunni að leiða til töluverðrar hækkunar, þá vil jeg vekja athygli á því, að varatill. þarf ekki að fylgja neinn teljandi kostnaður, ekki svo mikil útgjöld, að stjórnin, sem um það er kunnugt, hvernig þessi tillaga er fram komin, geti ekki af eigin mætti greitt uppbótina eftir þeim reglum, sem ákveðnar eru í viðaukatill. fjhn.

Jeg mun ekki taka tillögu mína aftur, þótt óskað hafi verið, vegna þess að þetta hefir svo mikinn svip af því, að farið sje á bak við þá menn, sem skiftu sjer af þessum málum áður hjer í þinginu, þegar launalögin voru til umræðu. Enda er engin hætta, þótt viðbótartill. mín verði samþykt, að fjhn. Ed. láti fjárlögin fara í sameinað þing fyrir ekki stærri sakir.

Mjer skilst á hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að það, sem valdið geti hættunni á, að fjárlögin færu í sameinað þing, sje það, ef ekkert yrði sett inn í fjárlögin til uppbótar handa lágt launuðum starfsmönnum. Viðbótartill. mína getur því ekki verið hættulegt að samþykkja.

Jeg vil þá mælast til þess, að þeir hv. þm., sem þekkja hag kennara þeirra, sem starfa í sveitum, og sjerstaklega vil jeg mælast til þess við alla bændur í þinginu, að þeir láti ekki þessar tillögur fram ganga án þess að farkennurum í sveit að minsta kosti sje greidd sama uppbót og öðrum.