02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

72. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Magnús Jónsson):

Eins og tekið er fram í greinargerðinni, flyt jeg þetta mál samkvæmt ósk Ljósmæðrafjelags Íslands. Margar áskoranir hafa komið fram, frá yfirsetukonum úti á landi, um að fá launakjör sín bætt. Stjórn Ljósmæðrafjelagsins hjer hefir dregið úr þessum launakröfum, og jeg hefi einnig skorið niður, nema þar sem brýn nauðsyn virðist vera til bóta.

Fyrir nokkru birtist grein hjer í blaði eftir lækni hjer í bæ, um barnadauða. Er þar sýnt fram á, að mikil breyting hefir orðið til batnaðar í þessu efni nú á síðustu tímum, og að hjer á landi sje nú barnadauði hjer um bil minstur í heimi. Þótt menn nefni oft framfarir með háðbrosi á vörum, getur engum dulist, að hjer er um greinilegar framfarir að ræða, sem þakka má góðri framgöngu læknanna í því, ásamt öðru starfi, að vinna að því, að menta stjett yfirsetukvenna hjer á landi og prjedika hreinlæti og hollustu fyrir fólkinu. Enginn vafi er á því, að yfirsetukonur kunna betur verk sitt og hafa ríkari skilning á starfi sínu en áður. Ljósmæður hafa kent konum betri meðferð ungbarna, og áreiðanlega hefir fækkað þeim sjúkdómum, sem konur hafa kvalist af eftir barnsburð, og oft og tíðum hafa haft dauðann í för með sjer. En nú er þessi framför í hættu stödd, og án efa verður breyting á þessu til hins lakara, vegna þess, að stjettin er alt of lágt launuð. Kjörin voru víst eitthvað bætt árið 1919, en því verður ekki neitað, að nú eru þau óviðunandi, þar sem kaupið er lægra en kaup vinnukvenna. Þess verður að gæta, að staða yfirsetukvennanna hefir í för með sjer mikið ófrelsi. Þær verða að vera til taks hvenær sem er. Ennfremur hefir verið hert á kröfunum til þeirra, þar sem þær verða að kosta sig meira nú en áður. Fyrir nokkru fór það að færast í vöxt, að ungar stúlkur utan af landi leituðu til Reykjavíkur til yfirsetukvennanáms, til þess með því móti að geta sjeð sig um í höfuðstaðnum og skemt sjer þar vetrartíma, en með auknum kostnaði fór að draga úr aðsókninni til þessa náms. Er það að vísu gott, að komið sje í veg fyrir það, að stúlkur komi hingað á ljósmæðraskólann og hafi námið aðeins að yfirvarpi, en á hinn bóginn getur það orðið til þess, að erfitt verði að fá vel mentaðar ljósmæður. Ekki virðist mjer mega horfa í nokkur þúsund krónur úr ríkissjóði, til þess að bæta með kjör yfirsetukvennanna. Mörgum kann reyndar að virðast starf þeirra lítilfjörlegt, en það er samt altaf merkilegt starf, þegar tekið er tillit til þess, að vanræksla á því getur kostað lífið og skýrslur sýna, að hátt á 3. þúsund konur leggja líf sitt í þeirra hendur á ári hverju. Eina ráðið er að bæta kjör þeirra. Með það fyrir augum vil jeg vona, að hv. þdm. sýni málinu þá velvild, að vísa því til 2. umr.

Jeg hefi með vilja lagað frv. svo til, að þær, sem lægst launin hafa, fái mesta uppbótina. Og sömuleiðis þær, sem eru í kaupstöðum, en það kemur ekki ríkissjóði við, því að þær eru launaðar af kaupstöðunum, en aftur verða þær að hafa svo mikinn kostnað, þar sem þeim er nú gert að skyldu að hafa alt af einhvern til þess að gæta síma o. fl.

Jeg tel sennilegt, að mál þetta heyri undir allshn. og óska, að það fái að ganga til 2. umr. og þeirrar nefndar.