06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla ekki að segja nema örfá orð. Jeg get ekki skilið, hvernig sú stefna er komin upp, að sekta menn fyrir að leita sjer atvinnu annarsstaðar en þar, sem þeir eiga heima. Jeg veit ekki betur en að þegar við komum í aðra fiskistöð, sjeu engin gjöld á okkur lögð fyrir að við aukum hagsæld þess hjeraðs, sem um er að ræða. Jeg get ekki betur sjeð en að þetta sje nokkurskonar „Stavnsbaand“, ef maðurinn á að vera rígbundinn við það hjerað, sem hann er fæddur og uppalinn í, með því að vera sektaður fyrir, að hann vill leita sjer atvinnu annarsstaðar. (MJ: Má þá sekta þá, ef þeir eru heima?) Það er enginn að tala um að sekta þá heima. Þar greiða þeir útsvar, hvort sem er. En jeg get ekki sjeð, að nokkurt hjerað hafi heimild til að leggja útsvar á menn, nema þar sem þeir eiga heima.