07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

78. mál, málamiðlun og gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ber þetta frv. fram aftur nú, af því að jeg heyrði á þessum viturlegu umræðum um varalögregluna, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mundi gefa gerðardómi betri undirtektir nú en áður. Og allir vita, hversu mikið er farið eftir tillögum hans um atvinnumál í landinu, þar sem hann telur sig daglaunamannaþingmann.

Jeg álít verkföll og verkbönn svo mikið tjón, bæði fyrir þjóðina og þá menn sjálfa, er að slíku standa, að sjálfsagt sje að reyna að stemma stigu fyrir því. Þó vil jeg ekki fara þá sömu leið sem hv. 2. þm. Reykv., að taka öll ráð af vinnuveitendum, heldur, að samningar geti tekist með aðilum. Það er ekkert eðlilegra, en að oft kunni svo að fara, að verkamenn búi við of lágt kaup og vinnuveitendur eigi bágt með að greiða svo hátt kaup sem verkamenn þurfa að fá. Rísi deilur út af þessu, verður að koma á samkomulagi, svo að hvorki verði þjóð nje þeim sjálfum tjón að. Hið beittasta vopn verkamanna í slíkum deilum hefir verið það, að leggja niður vinnu, en hjá vinnuveitendum að vísa mönnum úr vinnu. Hvorttveggja er tilraun til kúgunar. Frv. þetta fer fram á, að til sjeu samninganefndir beggja málsaðila, er reyni að jafna slíkar deilur. Treysti jeg því, að svo fari, þá er slíkar nefndir talast við, að báðir megi vel við una. En fari svo, að samkomulag náist eigi að heldur, skal leitað til stjórnarinnar um það, að koma samningum á.

Eitt frv. er komið fram hjer á Alþingi um það, að hafa sjerstakan samningamann í slíkum deilumálum. Jeg hefi ekkert á móti því, að slíkt standi í lögum, en oft getur slíkt fyrirkomulag reynst erfitt hjer í landi. Hvernig ætti t. d. að fara að á Ísafirði eða á Akureyri, ef ekki næðist til samningamanns í Reykjavík?

Jeg veit vel, að missmíði eru á frv., en jeg ætlast til þess, að það verði lagað í nefnd. Í það vantar ýms ákvæði, sem þurfa þar að vera, enda hafa komið fram brtt. við það, svo að nefndin hefir úr nokkru að moða, þar sem hún þarf og að útvega sjer skýrslur um það, á hvern hátt þessum málum verði best hagað. Jeg get orðið öðrum hv. þm. sammála, er vildu bæði hafa samninganefndir og samningamann. Annars hefi jeg hugsað, að tryggast væri í þessum efnum að hafa stigin þrjú, svo að ekki þurfi að hlíta fyrsta dómi, er fellur, heldur væri nýr dómur skipaður nýjum mönnum og trygging fyrir því, að komist yrði svo nærri sanngirni, að samkomulag kæmist á.

Þetta, sem jeg nú hefi frá skýrt, er það, sem fyrir mjer vakir í þessu máli, og jeg álít, að þetta sje mikið nauðsynjamál, sem öllum málsaðilum er jafnnauðsynlegt að vel rætist úr. Það er nauðsynlegt, sjeð frá sjónarmiði þjóðarinnar allrar í heild, því að það er augljóst, hversu stórskaðleg áhrif á hag allrar þjóðarinnar það getur haft, ef stórir atvinnuvegir bíða hnekki eða teppast um hríð, vegna þess, að eigi er skorið úr slíkum þrætumálum; t. d. ef stórútgerð stöðvast eða hættir, eða ef siglingar allar stöðvast, vegna þess að vinna liggur niðri við höfnina. Og eins og þetta er nauðsynlegt, er og aðferðin, sem hjer er farið fram á að notuð verði, haldkvæm báðum aðilum. Þannig er það fyrir atvinnurekendurna, að þeim er það enginn skaði, að fá málið lagt í gerðardóm, ef þá verður skorið úr þrætunni og vinna hefst aftur. Jafnvel þótt þeir hefðu verið óbilgjarnir í kröfum sínum og verði dæmdir til að greiða hærra verkkaup en þeir vildu, er þeim það ekki skaði, móts við vinnuteppuna. Og það er víst, að jafnan mun verða teflt á fremsta hlunn í því, að þjappa sem mest að málstað atvinnurekenda, enda sýnir reynslan það, að slíkir úrskurðir leiða jafnan til kauphækkunar. Mun það því verða regla í gerðardómum, að þrýsta meira að kröfum vinnuveitenda en verkamanna. Þá kemur þetta eigi síður að haldi verkamönnum, því að þó þeir taki aftur upp vinnu, að loknu verkfalli, og máske með hækkuðum launum, er þeim þó stórt fjárhagslegt tjón að vinnuleysinu. Því er þeim það stór hagur, að sem skjótast verði ráðið fram úr þessum málum. Hitt er víst, að eins og skapferli og hugarfari manna alment er farið, þá verður ætíð farið eins langt og hægt er í þá átt, að hækka verkkaupið. Það hefir ætið verið regla áður, sem hjer er tilfærð í frv., að til þess að vinna falli eigi niður á meðan á samningum stendur, er sett ákvæði um, að vinnu skuli haldið áfram fyrir það kaup, sem áður var, áður en deilan hófst, en þó stendur mjer alveg á sama, þó að í þess stað kæmi, að vinna skyldi fyrir það kaup, sem ákveðið verður af gerðardóminum. —

(Niðurlag ræðunnar vantar frá skrifaranum).