07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

78. mál, málamiðlun og gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jón Baldvinsson:

Jeg veit raunar ekki, af hvaða ástæðum háttv. þm. Dala. álítur, að jeg muni nú taka betur í frv. hans en jeg hefi áður gert. Jeg er sömu skoðunar nú sem fyr, að jeg álít óheppilegt að hafa lögþvingaðan gerðardóm í þessum málum, og verkamenn álíta sig engu bættari með slíkum gerðardómi. Hjer hafa gerðardómar aldrei verið, þótt þeir hafi tíðkast sumstaðar erlendis, en jeg veit, að þeir hafa reynst þar illa. Það sem jeg meðal annars hefi á móti þeim er það, að jeg sje ekki, hvernig hægt verði að þvinga aðila til þess að hlíta gerðardómi, ef þeir vilja ekki. Þeir gætu að vísu haldið við þann kauptaxta, sem dæmdur yrði, en að greiða úr þrætunni á annan hátt, getur gerðardómur ekki. Hvernig á t. d. gerðardómur að þröngva verkamönnum til vinnu, jafnvel þótt kaup hafi hækkað eitthvað, ef þeir eru enn óánægðir og vilja ekki vinna? Eins sje jeg heldur ekki, hvernig gerðardómurinn mundi geta þröngvað útgerðarfjelögum til þess að láta halda skipum sínum úti, ef þeir teldu sig hafa tjón af því og vildu heldur leggja þeim upp? Þeir gætu sagt sem svo: Það er ekki vegna kaupsins, sem við stöðvum, heldur vegna hins, að það borgar sig ekki lengur að gera út. Og þá sje jeg ekki, hvernig háttv. þm. Dala. (BJ) ætlar að fara að því, að neyða þá til þess að halda útgerðinni áfram. Gerðardómurinn getur það ekki. Og ekki held jeg, að þessi málamiðlun, sem frv. talar um, hafi mikla þýðingu, er báðir málsaðilar vita fyrirfram, að þrætan getur farið til dómstólanna, og þegar þeir vita, að um úrslitadóm verður að ræða hjá gerðardóminum, mun vart jafnmikið kapp á það lagt, frá beggja hálfu, að miðla málum. Þá munu báðir aðilar sjaldnast geta verið jafnánægðir með dómsúrslitin, þótt hlíta verði þeim. Þá sagði háttv. þm. Dala., að á fremsta hlunn mundi teflt í því, að þrýsta að atvinnurekendum og að vinnu skyldi halda áfram. En jeg hefi þegar bent á það, að þetta er ekki hægt; ef verkamenn vilja ekki vinna, er ekki hægt að neyða þá til þess. Sem sagt er þetta frv. háttv. þm. Dala. að mínum dómi eigi til þess fallið, að verða að lögum, en það er annað frv., sem einnig er hjer til umr. í dag, frv. háttv. þm. Str. (TrÞ), um sáttasemjara í þessum málum, og jeg verð að halda, að það frv. geti að góðu gagni orðið, ef það verður samþ. Ef til væri maður, sem hefði það starf með höndum, að leiða saman aðila á vissum stigum kaupdeilumálanna til samninga, mundi oftar ganga saman með þeim og viðunanlegir samningar nást, en það mun miklu síður nást með frv. háttv. þm. Dala., er menn geta átt von á, að dómstólarnir láti þessi mál til sín taka. Þessvegna mun jeg fremur verða með því frv., sem nú kemur síðar til umræðu í dag, um sáttasemjarann, en að öðru leyti er afstaða mín til þessara mála óbreytt frá því sem var áður, á fyrri þingum, í þessu máli.

Háttv. þm. Dala. var með einhverjar slettur til mín. Hann kallaði mig daglaunaþingmann, en jeg skil ekki, sannast að segja, hvað hv. þm. (BJ) meinar með þessu. En ef hann, með þessum orðum sínum, vill aðgreina mig frá bitlinga-þingmönnum, þá er jeg honum þakklátur fyrir.