11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

88. mál, fátækralög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Í fyrra komst frv. þetta til nefndar, og var rætt við 2. umr., en þá tekið af dagskrá, vegna þess, hve áliðið var þingtímans. Jeg hefi borið frv. fram óhreytt, en vil þó geta þess, að ef jeg sæi líkur til þess, að það mundi fremur ná fram að ganga með einhverjum breytingum, þá er jeg fús til samkomulags um það atriði. Hæstv. atvrh. var svo góður í fyrra, að semja brtt. við frv. Jeg tók þær ekki upp í þetta frv., en hafði þær þó til hliðsjónar. Mjer skildist þá, að hann væri mjer sammála, þótt hann drægi sig siðar í hlje.

Aðalatriðið í þessu máli er það, að menn skuli ekki sviftir atkvæðisrjetti, þótt þeir þiggi sveitarstyrk vegna ómegðar. Í frv. eru talin upp 4 atriði um það, að menn skuli ekki missa atkvæðisrjett, þótt þeir fái sveitarstyrk. Um sum þeirra er enginn ágreiningur. Jeg hefi ekki heyrt neinn hafa á móti því, að t. d. maður, sem kominn er yfir sextugt, skuli halda rjettindum sínum, þótt hann fái styrk. Að vísu er til ellistyrktarsjóður, en sá styrkur, sem hann veitir, er svo lítill, að enginn getur lifað á honum. Gamlir og lúnir menn verða því að fá sveitarstyrk sjer til framfærslu, en það er engin ástæða til þess að svifta þá mannrjettindum af þeirri ástæðu. Best væri auðvitað, að ellistyrktarsjóðurinn væri svo stór, að framlög úr honum nægði, en þar sem því er ekki til að dreifa, hljóta sveitarstjórnir að hlaupa undir bagga.

Þá er það b-liðurinn, sem fjallar um það, að menn verði ekki sviftir atkvæðisrjetti vegna slysa. Þetta atriði má að vísu setja í samband við frv. það, sem komið er fram um almennar slysatryggingar. En þá verð jeg að lýsa yfir því, að það yrði lítið, sem þetta frv. tæki frá sveitarsjóði vegna þessa, nema þá í augum þeirra, sem meta mannrjettindin einskis.

Þá er að víkja að c-lið, að menn skuli ekki sviftir atkvæðisrjetti, þótt þeir leiti styrks vegna atvinnuleysis. Jeg hefi haldið því fram áður, og margir litið svo á, að bæjarstjórnum beri skylda til þess að sjá fyrir þeim mönnum, er ekki geta sjeð fyrir sjer sjálfir af þessari ástæðu. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir og gefið skoðun þessari meðhald. Og þetta er rjett stefna, því að þegar atvinnufyrirtækin eru komin á fáar hendur, hafa menn minni möguleika til þess en áður að afla sjer atvinnu.

Þá er að minnast á það atriði frv., að fátækraskuldir, sem stofnaðar eru fyrir 1. jan. 1922, skuli falla niður 1. jan. 1926. Um það atriði mun ekki vera mikill ágreiningur. Þessar skuldir eru ekki mikils virði fyrir bæja- og sveitastjórnir, en þær eru mikils virði fyrir þá, sem þær hvíla á.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta, en vil leyfa mjer að óska þess, að málinu verði vísað til allshn., að þessari umr. lokinni. Trúi jeg því varla, að öll íhöld þingsins taki nú höndum saman um það, að drepa þetta frv., enda þótt jeg hafi borið það fram.