11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

88. mál, fátækralög

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi haft mörg tækifæri til að vera hv. 2. þm. Beykv. (JBald) ósammála, en mjer er ánægja að lýsa yfir því, að nú er jeg honum sammála. Sje þetta fær leið, sem hann bendir á, er sjálfsagt að draga úr því hróplega ranglæti, að sumir menn skuli settir skör lægra en aðrir. Hvort sem menn gera meira eða minna úr þeim rjettindum, sem hjer er um að ræða, þá eru það þó langdýrustu mannrjettindin, því að á þeim hvílir það, að þjóðin geti ráðið sjer sjálf. Og óheyrt ranglæti er það, að svifta menn þessum rjettindum fyrir það, að ala upp 8–10 nýja borgara handa þessu þjóðfjelagi, til þess að styðja þess hag. Slíkt er ekki rjettlæti, að launa þeim mönnum með því, að svifta þá atkvæðisrjetti um landsmál, þótt þeir hafi lagt meira á sig en aðrir fyrir landið og þessvegna orðið að leita styrks.

Jeg hefi reynt, við allar stjórnarskrárbreytingar, að afnema þetta vansæmi. Og jeg er því þakklátur hv. 2. þm. Reykv. fyrir það, að bera þetta mál fram. Vona jeg, að frv. verði ekki felt frá 2. umr., og að nefndin geti gert það svo úr garði, að það fái alment fylgi. Að vísu getur 3. liður orðið þrætuepli, en um hina liðina ætti enginn ágreiningur að vera. Jeg spái engu um afdrif frv., en tel sjálfsagt, að nefndin leiti fyrir sjer um það, hverjar umbætur þarf á því að gera, til þess að það nái samþykki þingsins.

En þar sem hv. flm., í lok ræðu sinnar, mintist á öll íhöld þingsins, þá má honum vera kunnugt um eitt þeirra, vegna þess, að því hefir hann þjónað dyggilega.