11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

88. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Jeg skal taka það fram, viðvíkjandi því, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að ef það er rjettargrundvöllur þessa frv., að maður, sem hefir orðið fyrir því óláni, að þurfa að þiggja af sveit, missi ekki þessvegna kosningarrjett, þá erum við alveg sammála. Jeg álít, að í flestum tilfellum ætti það ekki að vera svo, að lítilfjörlegur sveitarstyrkur væri látinn varða rjettindamissi. En það er ekki aðalatriði þessa frv., eða því er þá verið að breyta öðrum atriðum? Og því er svo langt frv. búið til, ef það er aðalatriðið, að ná kosningarrjetti handa þessum mönnum? En hvort þetta frv. verður samrýmt við það, sem í stjórnarskránni stendur um þessa menn, skal jeg ekkert fullyrða um, því að jeg hefi ekki borið það saman við hana.

Annars sagði hv. þm. Dala. (BJ) ekki neitt, sem jeg finn ástæðu til að vera að yrðast við hann um; við erum báðir á sama máli um það, að setja málið í nefnd, og þá verður það náttúrlega athugað og lagfært þar.

Þá beindi hv. 2. þm. Reykv. (JBald) til mín nokkrum orðum, eftir sinni alkunnu þingmannsvenju, að nota mest útúrsnúninga. Er þessi hv. þm. svo mikill, að hann hafi nokkurn rjett til að leggja illa meiningu í orð manna, sem aldrei hefir átt í þeim að vera? En tilhneiging sumra manna er svo rík til þess, að leggja orð og athafnir annara manna út á versta veg, að þeir geta ekki á sjer setið að nota í því skyni hvert tækifæri.

Jeg get komið með ýms dæmi þess, hve það er hættulegt fyrir sveitastjórnir út um land að eiga hjer þurfalinga, en það er einmitt þetta, sem hann (JBald) vill vinna að, að þær hafi ekki rjett til að ala önn fyrir þeim í þeirra eigin sveit, heldur vill hann, að þeir hafi rjett til að vera þar, sem framfærslan verður sveitarfjelögunum miklu dýrari.

Þá sagði hv. þm. (JBald), að það væri ætlast til, að sveitarstjórnir sæju mönnum fyrir atvinnu, og benti á, að hjer í Reykjavík hefði verið unnið að jarðabótum undanfarna vetur, skurðagrefti og því um líku. Þetta er alveg rjett, en jeg hjelt, að hv. þm. (JBald) vissi, að það hagar töluvert öðruvísi til á útjöðrum þessa lands en hjer í Reykjavík; það myndi í fæstum sveitum vera hægt að gera skurði að vetrarlagi, með þeim áhöldum, sem sveitirnar hafa á reiðum höndum. En svo er annað, sem hv. þm. hefir sennilega ekki munað eftir, að í sveitum er löngum svo mikil mannfæð, að þar eru varla menn til allra nauðsynlegustu starfa, og hvernig getur þá hv. þm. hugsað sjer, að sveitirnar fari að setja menn í að grafa skurði? Jeg vænti þess, að hv. þm. verði mjer sammála um, að það er alt annað, þar sem mild veðrátta er og nógur mannfjöldi saman kominn, annað hjer á Suðurlandi en í útsveitum, vestur eða norður í landi. Þessi samanburður háttv. þingmanns er því alls ekki frambærilegur.

Þá sagði hv. þm. (JBald), að almenningur vildi láta breyta þessum lögum. Mjer er nú ekki kunnugt um, að svo sje, þó að jeg að ýmsu sje sammála hv. þm., t. d. álít jeg, að vegna slysa sje alls ekki rjett að menn verði sveitarlimir, ef þeir þurfa að missa rjettindi sín fyrir styrk, sem þeir fá. En hvað það snertir, að það þurfi að vera rótgrónir íhaldsmenn, sem standi á móti þessu frv., þá finst mjer, að hægt væri að leggja illa meiningu í þau orð hans, en nú vil jeg leggja þetta út á besta veg fyrir hv. þm., og með þá einu hugsun fyrir augum, að hv. þm. telji þá íhaldsmenn, sem ekki fylgja honum að málum. En þá er eftir að vita, hvort þeir eru betri, sem segja eitthvað til að kitla eyrun, eða þeir, sem halda fram sinni skoðun. Þetta nær náttúrlega ekki til hv. þm. (JBald) sjálfs, allra síst í þessu máli, en jeg ímynda mjer þó, að sum ákvæðin, sem felast í þessu frv. hans, sjeu þannig, að hann álíti, að þau eigi fram að ganga. En jeg þarf ekki að eiga framkomu mína undir dómi þessa hv. þm., heldur minni eigin samvisku, því að jeg mun aldrei vilja fara illa með nokkurn mann, sem kann að þurfa hjálpar af sveitarfje. Vil jeg vísa þeim orðum heim til föðurhúsa, að sá, sem betur getur, vilji níðast á lítilmagnanum. En jeg vil ekki vinna að því með framkomu minni, að rjettur sveitarfjelaganna verði minna metinn en rjettur einhvers einstaklings, sem jeg veit, að hann myndi oft vilja beita sveitarfjelaginu til skaða. Jeg býst annars við, að þetta frv. fari til nefndar og verði þar lagað, svo að okkur megi báðum vel líka.