11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

88. mál, fátækralög

Atvinnumálaraðherra (MG):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hjelt, að það væri hjegómagirni, sem mjer gengi til, að vera á móti þessu frv. Jeg ætla þess vegna að sýna með fáeinum dæmum, hvernig þetta ágæta afkvæmi hans er.

Ef maður hefir 3 heimilisföst börn og þarf opinbers styrks, er það ekki sveitarstyrkur, en ef maður á 10 börn, og hefir leyst upp heimili sitt og ráðist burtu til að leita þeim bjargar, og það mishepnast, svo að hann kemst í þrot, þá telst það sveitarstyrkur. Ef maður verður ófær til vinnu „lengri eða skemri tíma“, sökum meiðsla, þá má ekki, eftir frv., telja hjálp til hans sveitarstyrk. Jeg sje því ekki betur en að ef maður fellur í rot, og liggur í óviti 5 mínútur, og liggur t. d. 2 daga á eftir, þá geti hann krafist styrks, sem ekki má telja fátækrastyrk. Gildir þetta jafnt um ríkan og fátækan.

Svo er talað um, að hreppsnefnd eigi að vísa manninum á atvinnu, en ekkert tiltekið með hvernig kjörum.

Af þessu öllu verður manni helst að hugsa, að þetta frv. sje borið fram til leiks. Hv. flm. (JBald) heldur líklega, að þetta frv. hans verði strax felt, án þess að nokkur taki eftir göllunum á því, eða þá, að hv. þm. samþykki það í hugsunarleysi.

Ennfremur var hv. þm. (JBald) eitthvað að gera getsakir um það, að það myndi þurfa að breyta lögum, sem jeg hefði borið fram. Það getur vel verið, en sá er munurinn, að mín frv. verða að lögum, en hans frv. er venjulega slátrað við 1. umr. Hitt er ekki undarlegt, þótt lögum, sem jeg hefi samið, sje breytt síðar, því að nýjar ástæður skapa ný lög. Annars á jeg miklu fleiri minnisvarða í löggjöfinni en hv. þm. (JBald).